12.08.1913
Neðri deild: 32. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í C-deild Alþingistíðinda. (792)

29. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Bjarni Jónsson:

Eg ætla að leyfa mér að gera örstutta athugasemd nú, af því að eg veit ekki, hvort eg nenni að sitja í eldhúsinu á morgun.

Eg get ekki skilið það, af hverju stjórnin hefir ekki tekið sér það verk fyrir hendur, að semja þessi lög alveg upp viðvíkjandi þeim ákvæðum, sem lúta að borgun héraðanna til símalagninga. Það er alveg óþolandi, að sumar sýslur skuli hafa símann alveg endurgjaldslaust, en aðrar fá hann ekki nema þær gjaldi stórfé. Það var því villandi þessi procentureikningur hæstv. ráðherra á sýslutillögunum, því að hann gætti þess ekki, að hér um bil helmingur allra sýslna á landinu er undanskilinn þessum aukatillögum. Procentugjaldið verður þar af leiðandi mikið hærra á hverja sýslu, sem sýslurnar eru færri, er gjöldin þurfa að inna af hendi. Eg man eftir héraði, sem nýlega fékk síma og varð að gjalda 4000 kr. móti 14000 kr. úr landssjóði. Það er ekki svo lítið hundraðsgjald. Svo mun það vera víðar. Þau héruð, sem ekki fá símann fyr en seint og síðarmeir, verða að kaupa hann ofurverði, þegar hann loksins kemur. Ef þetta frumvarp gengur fram og símalagningarnar verða einskorðaðar við tekjur símans og tekjuafgangurinn á að afborga lán til 3. flokks lina, þá er auðsætt, að ekki verður byrjað á neinni 3. flokkslínu, fyr en allar hinar eru lagðar. En það vita allir, að símakerfið, sem var búið til með lögunum 1912, er, að því er margar stöðvar snertir, svo vitlaust, að víða á landinu er þörf á að 3. flokks símar séu lagðir á undan 2. flokks.

Eg get heldur ekki annað en tekið undir með háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.), að með þessu frumvarpi er lagt upp í hendurnar á Stjórninni að veðsetja símatekjurnar. Það er ekki ákveðin nein endurborgunarupphæð á ári, heldur á allur tekjuafgangurinn að ganga í afborganir. Það væri ósköp lítill vandi að láta lánardrottinn innheimta gjöldin líka. Eg segi ekki að þetta ákvæði sé sett í frumvarpið í þessum tilgangi, en leið er áreiðanlega opnuð til þess.

En aðaláherzluna legg eg á ranglætið í símalögunum, að leggja gjald á sumar sýslurnar, en láta hinar sleppa borgunarlaust. Það er líka auðgert að laga þetta með því að setja frumvarpið í nefnd. Gæti svo stjórnin sent nefndinni tillögur sínar í þessu efni, og mundi hún eflaust ganga inn á þær, ef hún vildi gera öllum sýslum jafn hátt undir höfði, en ekki láta eins dauða vera annars brauð.