12.08.1913
Neðri deild: 32. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í C-deild Alþingistíðinda. (793)

29. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Ráðherrann (H.H.):

Það er tilgangslaust að vera að ræða við hv. þm. Dal. (B.J.) um grundvallaratriði símalaganna. Þau voru rædd hér í fyrra, —– háttv. þm. kom þá fram með sömu mótbárurnar og nú — og varð undir. Mikill meiri hluti þingsins var þá þeirrar skoðunar, að það væri óhjákvæmilega nauðsynlegt að setja þær skorður, að engir símar yrðu lagðir af landssjóði tillagslaust, nema þar sem það er talið nauðsynlegt vegna viðskiftalífs landsins á heild sinni, að símasamband komi. Þau önnur héruð, er óskuðu síma, ættu að sýna þörfina með því að vilja leggja eitthvað af mörkum. Að vera að taka þveröfug ákvæði — svipuð og hv. þm.

Dal. (B. J.) óskar — upp í lögin, væri að gerbreyta grundvallaratriðunum og spilla lögunum. Þess vegna verður ósk hans, um að stjórnin komi fram með slíkar tillögur, ekki tekin til greina.

Eg álít þvert á móti, að það sé hlutverk væntanlegrar nefndar að gæta þess, að grundvallaratriðum laganna 1912 verði í engu haggað og helzt fella burt viðauka, þá sem háttv. Ed. hefir sett í frumvarpið. Þessi orðabreyting, sem stjórnin hefir lagt til að yrði samþykt, er fram komin, eins og hefi skýrt frá, einmitt í því skyni, að lögin nái betur tilgangi sínum, en ekki til þess að raska grundvallarreglum þess á neinn hátt.