12.08.1913
Neðri deild: 32. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í C-deild Alþingistíðinda. (809)

105. mál, jarðirnir Bústaðir og Skildingarnes lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Flutningsm. (Lárus H. Bjarnason):

Við þingmenn Reykvíkinga höfum verið beðnir um að flytja þetta frv., sem er samið af bæjarstjórn Reykjavíkur, en það atvikaðist svo, að eg stend einn sem flutningam. þess. Eg var ekki viðstaddur á fundi bæjarstjórnarinnar, þegar þetta mál var rautt þar, og er því ekki undir það búinn að skýra ítarlega frá málavöxtum, enda fara tilmæli mín í þetta skifti ekki fram á annað, en að nefnd verði sett í málið til að athuga það.

Það er ekkert nýmæli, að farið sé fram á að leggja undir Reykjavík svæði, sem ekki hafa heyrt henni til áður. Þannig var Laugarnes og Kleppsland lagt undir bæinn fyrir fáum árum. Það sem mér skilst að eigi sérstaklega að styðja þá aukningu á landi bæjarins, sem hér er farið fram á, er það, að eins og kunnugt er, þá takmarkast Skildinganes af landi Reykjavíkur á þrjá vegu, og líkt er um Bústaði, og væri ef til vill réttast að taka Seltjarnarnestána með. En svo er önnur ástæða. Sumum mun þykja svo sem nokkur hætta myndi geta af því stafað fyrir bæinn, að láta það dragast að leggja þessar jarðir undir hann, sérstaklega vegna ins fyrirhugaða hafnargerðar-fyrirtækis við Skildinganesland. En út í það skal eg ekki fara. Komist málið í nefnd, þá má ræða þetta atriði þar.

Eg skal ekki leyna því, að hreppsnefndin í Seltjarnarnesheppi hefir lagst á móti þessu máli bæði nú og áður. Líka hefir sýslunefndin í Gullbringu- og Kjósarsýslu lagt á móti málinu, en ástæður hennar voru aðallega þær, að henni þótti borgunarskilmálarnir ekki nógu góðir. En nú er mér sagt að framboðnir kostir séu ekki neinir úrslitakostir af hendi bæjarstjórnar, heldur muni mega um þá semja.

Eg sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál nú, en vænti þess, að það verði sett í nefnd og ástæður með og móti ræddar þar í rólegheitum.