12.08.1913
Neðri deild: 32. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í C-deild Alþingistíðinda. (813)

106. mál, lánsdeild við Fiskveiðasjóð Íslands

Ráðherrann (H. H.):

Það er rétt, sem háttv. flutningsm. (L. H. B.) sagði um lögin frá 16. Nóv. 1907. Í síðustu greininni er gert ráð fyrir því, að landstjórnin gefi skýrslu um starf lánadeildar við Fiskveiðasjóðinn og leggi frumv. um endurskoðun fram á þingi 1913. En af því að þessi lög hafa aldrei komið til framkvæmda, þá gat stjórnin enga skýrslu gefið um fengna reynslu né stungið upp á endurskoðun á slíkum grundvelli. Skal eg nú gera grein fyrir þessu máli frá sjónarmiði stjórnarinnar.

Þegar frumvarpið um lánadeildina var samið og lagt fyrir Alþingi, leit svo út með sölu íslenzkra veðdeildarbréfa, að von var um að þau myndu seljast erlendis affallalaust eða affallalítið að minsta koati, líkt og þá hafði verið selt undanfarið. Var því ætlast til þess að veðdeildarbréf bankanna myndu aðallega seljast erlendis, og að þar af leiðandi myndi verða markaður hér innanlands fyrir veðdeildarbréf fiskveiðalánsdeildarinnar. Hins vegar var ekki búist við því, að markaður myndi verða fyrir þau bréf erlendis, bæði af því að veðin voru meiri áhættu bundin, þar sem þau tilheyrðu einum atvinnuvegi, sjávarútveginum, heldur en bréf veðdeildar bankans, sem trygð eru í jörðum, húsum og sveitarfélagaábyrgðum, og vegna þess að landssjóðsábyrgð var ekki fyrir vöxtum, og bréfin gátu því ekki orðið skoðuð í flokki með venjulegum ríkisskuldabréfum.

Þessi von um sölu bankavaxta, bréfanna, sem fiskveiðalánsdeildarlögin voru bygð á, brást meðal annars vegna þeirrar vaxtahækkunar og peningakreppu, sem einmitt hófst um það leyti í þeim löndum, sem skiltu hér við land, er lánsdeildarlögin öðluðust gildi: Veðdeildarbréf bankanna seldust lítið erlendis og hægt var að fá þau hér undir ákvæðisverði, og eftirspurnin eftir þeim innanlanda varð lítil. Stjórnin sá sér alls ekki fært að koma lánsdeildinni á fót, þar sem ekki var minsta von um að koma bréfum lánadeildarinnar í það verð, að nokkur vildi líta við að taka lán í deildinni. Þetta hefir ekki breyzt í þau rúm 5 ár, sem liðin eru síðan lánsdeildarlögin öðluðust gildi, og ekki er útlit fyrir það, að það breytist fyrst um sinn.

Vegna þess að fyrirkomulag, það sem gert er ráð fyrir í lánsdeilarlögunum, var óþekt annarstaðar og því ómögulegt að segja, hvernig það reyndist, var í lögunum ákveðið að þau, eftir þeirri reynslu, sem þá væri fengin, skyldu endurskoðast að 6 árum liðnum; þessi endurskoðunarfrestur var jafnframt settur til þess að eyða ótta, þeim er menn annars kynnu að hafa af því, að veita vaxtabréfum þessum þau hlunnindi, er lögin veita, sérstaklega að heimila að ómyndugra fé og opinberra stofnana mætti verja til að kaupa þau.

En grundvöllinn fyrir endurskoðun laganna, sem sé þá reynslu, sem framkvæmd þeirra hefði veitt, vantar alveg, þar sem lögin hafa aldrei getað komið til framkvæmda. Og orsakirnar til þess að þau hafa ekki komið til framkvæmda, eru ekki heldur svo vaxnar, að stjórnin sæi sér fært að koma fram með endurskoðað frumvarp til laganna, sem ætla mætti að gæti rutt þeim hindrunum úr vegi, sem verið hafa og eru því til fyrirstöðu, að lánsdeild með líkum tilgangi geti þrifist. Það eru engar líkur til að orsakir þessar breytist svo þangað til 1915, að það hafi nokkra þýðing að halda lögunum framkvæmanlegum til þess tíma, eins og fyrirliggjandi lagafrumvarp gerir; ef nokkur meining á að vera í því, að halda þeim framkvæmanlegum, ætti það eftir málavöxtum að vera ekki styttra en til 1917 að minsta kosti, og þótt langt sé frá því að hægt sé að gera sér von um að ástæðurnar breytist svo á þessum tíma, að lögin geti innan hans komist til framkvæmda, þá er ekki ómögulegt að útvegurinn og rekstur hana breytist svo á þeim tíma með auknum félagskap og samvinnu, að hægt verði þá að finna, aðra eða breytta leið til þess að ná tilgangi lánadeildarlaganna og leggja lagafrumvarp fyrir í þá átt, en til þess er auðvitað ekki nauðsynlegt að halda lögunum frá 1907 framkvæmanlegum þangað til.

Eg vil skjóta því til háttv. flutningsmanns, hvort hann vilji ekki taka upp breyting á þessu frumvarpi sínu (á þgskj. 336), t. d. þannig, að fyrsta málsgrein orðist svo:

»Í stað »1913« á tveim stöðum í 16. gr. laga nr. 29, 16. Nóv. 1907, um lánsdeild við Fiskveiðasjóð Íslands, komi: 1917«.

Ef hann ekki vill taka upp þessa breyting, kem eg með breytingartillögu um þetta til næstu umræðu.