13.08.1913
Neðri deild: 33. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í C-deild Alþingistíðinda. (821)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Flutningsm. (Lárus H. Bjarnason):

Menn eru vanir að gera grein fyrir atkvæði sínu áður en þeir greiða atkvæði, nema ef svo er að þeir hafi vonda samvizku, þá gera þeir það eftir á. Svo mun hafa verið um háttv. þm., er nú settist (Kr. J.), því að hann hefir í stað þess að færa nokkur ný rök að máli sínu, að eins reynt að klóra yfir fyrri atkvæðagreiðslu sína.

Fyrst og fremst taldi hv. þm. það til foráttu frumvarpinu, sem gekk með miklum atkvæðamun til 3. umræðu, að í því væri ekki ákveðið, að kosning borgarstjóra skyldi vera leynileg. Það taldi hann ófært. Ennfremur taldi hann ófært — líklega af því að hann sjálfur er kominn úr stjórnarráðinu — að ætla stjórnarráðinu að ráða þessu. Hann hefir ekki athugað, að stjórnarráðið á ekki að setja reglur um kosninguna upp á sitt eindæmi, heldur eftir tillögum bæjarstjórnar. Eg hygg að báðum þessum stjórnarvöldum sé trúandi til að setja nánari reglur um kosninguna, er við megi una og í samræmi við það sem gildir um bæjarstj.kosn. og aðrar kosn. Háyfirdómarinn þekkir of vel löggjöfina eða það sem kallað er »analogi« til þess að geta lagt nokkuð upp upp, úr því, að leynileg atkvæðagreiðsla er ekki beint lögmælt.

Eg skil annars vei, af hvaða rótum það er runnið, að háttv. þm. Borgf. (Kr. J.) fann frumvarpinu svo margt til foráttu. Eg get nefnt ástæðuna, enda gaf hann mér ástæðu til að gera það. Hann hafði verið á sínum tíma einn aðalhöfundur þessara laga. Hann færði það sem sönnun fyrir því, hvað þetta fyrirkomulag, sem nú er, væri gott, að engum hefði þá dottið í hug að haga því öðruvísi. Háttv. þm. Borgf. (Kr. J.) kann að vera framsýnn, en eg hefi ekki trú á að hann sé svo framsýnn, að hann sjái hvað bezt má henda í hverju máli á hvaða tíma sem er. Af sömu ástæðum og eg vildi ekki fara út í það við 2. umræðu, hvers vegna bæjarmönnum er það svo mikið kappsmál, að fá þessu breytt, vil eg ekki fara út í það hér.

Háttv. þm. þari ekki að bera kvíðbeyg fyrir því að kjósendur kunni ekki að fara með þenna rétt einn. Þeir hafa sýnt, með því að kjósa hann og með því að kjósa mig, að þeir kunna að kjósa.

Háttv. þm. Borgf. (Kr. J.) sagði, að borgarstjóri hefði ekki annað vald en framkvæmdarvald. Þetta er rétt. Að lögum til hefir borgarstjóri ekki annað vald, en stjórnarráðið hefir ranglega fengið honum atkvæisrétt í bæjarstjórninni. Eg hygg, að eg fari hér rétt með, að háttv. þm. hafi, sem ráðherra, úrskurðað borgarstjóra atkvæðisrétt í bæjarstjórninni. Og það man eg með vissu, að hann hélt því fram í bæjarstjórninni, að borgaratjóri ætti að hafa atkvæðisrétt á borð við bæjarfulltrúa. Og úr því að borgarstjóri nú hefir fengið þennan rétt, þá er rétt að bæjarbúar kjósi hann á sama hátt og bæjarfulltrúa. Og enda hvort sem er. Í öllu falli er óhætt að láta bæjarbúa kjósa hann, úr því að vald hans er ekki meira en þetta, enda stjórnarráðið til taka að kippa í taumana, ef hann hegðar sér öðruvísi en vera bæri.

Það er eftirtektavert að heyra háyfirdómarann segja, að konur hafi ekki fengið kosningarétt fyrr en 1907. Man hann þá ekki eftir lögunum frá 1882, sem Veittu ekkjum og ógiftum sjálfstæðum konum kosningarrétt til sýslunefnda, bæjarstjórna, hreppanefnda og á safnaðarfundum? Hitt er satt, að 1907 og 1909 hafa giftar konur og vinnukonur bæzt við sem kjósendur til bæjarstjóra.

Hvað meinti háttv. þm. (Kr. J.) með því, að leggja svo fast á móti borgarafundum? Það veit eg reyndar vel, að komið hefir það fyrir, að þar hafa verið teknar ákvarðanir, sem ekki hafa verið honum í vil. En að gefa það í skyn, að um þetta mál hafi æsingamenn og skríldkrumarar ráðið mestu, það sýnir í bezta falli að háttv. þm. hefir ekki verið á fundunum. Eg get fullyrt, að um þetta mál var ekki talað eitt orð á þingmálafundunum 1912 og 1913. Það var samþykt orðalaust á báðum fundunum og þó með öllum atkvæðum eða því sem næst. Og eg get bætt því við, að þessu eina máli var sýnd sá virðing á þingmálafundinum í vor, að það var samþykt með almennu lófataki. Eg get borið um þetta, því að eg var á báðum fundunum alt til enda, bæði 1912 og 1913.

Hitt var rétt, sem háttv. þm. (Kr. J.) skýrði frá, að á bæjarstjórnarfundinum, þar sem þetta mál var til meðferðar, voru ekki nema 10 fulltrúar, en af þeim greiddu í atkvæði með tillögunni, en að eins tveir á móti, einn sat hjá. En eg get fullvissað hann um, að það vantaði menn á fundinn sem kunnugt er um að eru málinu fylgjandi.

Eg yfirlæt svo háttv. deildarmönnum, hvort þeir, fyrir þessa þrumandi rödd — sem eg vona að verði hrópandans rödd í eyðimörku — Vilji falla frá fyrri atkvæði efnu.

Á móti því sem háttv. þm. (Kr. J.) sagði, að þetta fyrirkomulag hefði gefist illa í Ameríku, skal eg benda á, að það er víðar en þar, t.d. í Sviss, og er það almannarómur, að óvíða, og jafnvel hvergi, sé landstjórn og sveitarstjórn í jafngóðu lagi og þar. Dómarar eru, meira að segja, ekki óvíða, kosnir í dómarastöður, og þykja reynast fult eins vel og stjórnskipaðir dómarar.