13.08.1913
Neðri deild: 33. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 995 í C-deild Alþingistíðinda. (822)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg stend upp út af nokkrum orðum í ræðu háttv. þm. Borf. (Kr. J.). Hann veik að því, að í enskumælandi löndum kysu borgararnir sjálfir borgarstjóra. Þetta er rétt. Hann sagði enn fremur, að hvergi væri »corruption« eða spilling meiri en í bæjarstjórnunum í Ameríku. Þetta er líka satt, enda er það alkunnugt. En spillingin er hjá bæjarstjórnunum en ekki borgarstjórunum. Það er þvert á móti reynsla fyrir því í Ameríku, að borgaratjórarnir gefast vel eins og nokkurs konar stíflugarður móti spillingunni. Eg hefi þekt þess dæmi í mörgum ríkjum og veit, að þetta er rétt hermt. Borgarstjórarnir reynast jafnvel ágætlega, þó að þeir séu kosnir af sama flokki og bæjarstjórnirnar. Og það er fyrir það, að þeir finna til ábyrgðarinnar, sem á þeim hvílir gagnvart öllum kjósendum, öllum bæjarbúum í heild sinni, og fyrir það, að þeir eru alveg óháðar bæjarstjórninni. Eg hefi reyndar heyrt getið um tiltölulega fá dæmi í gagnstæða átt, nefnil. að þeir hafi reynst illa; en þá hafa þeir heldur ekki orðið langlífir í stöðunni. Bæjarstjórnirnar finna ekki eina til ábyrgðarinnar gagnvart kjósendunum, og kemur það með fram af því, að þær eru oft kosnar af kjósendadeildum (hver bæjarfulltrúi kosinn í sérstöku umdæmi í bænum). Þó að það geti komið fyrir, eins og eg gat um áðan, að borgarstjórinn reynist illa, þar sem þetta fyrirkomulag er, þá getur það alstaðar og ávalt komið fyrir, hvernig svo sem hann er kosinn, og það þó að það sé konunglegur embættismaður. Eg játa, að borgarstjórar á Englandi eru ekki kosnir af bæjarstjórnunum, og heldur ekki af öllum kjósendum. Þeir eru kosnir af fámennum hring kjósenda, sem svarar nálega til þess, að þeir væru kosnir af þeim sem hér eru kallaðir »hærri gjaldendur«. En þessi flokkaskifting getur ekki haft mikið að segja hér. Þegar litið er til þeirra sem hér eru kosnir af hærri og lægri gjaldendum, er munurinn harla lítiil. Eg veit, og get kannast við, að hér í bæjarstjórninni þykir kenna »corruptionar« (þ. e. fjárdráttar og eiginhagsmnna-leitunar), en það er ekki fremur hjá þeim sem kosnir eru af almennum kjósendum, heldur en meðal hinna, sem kosnir eru af hærri gjaldendum. Hér er greiningin mjög á reiki milli hærri og lægri gjaldenda. Kjör manna eru svo jöfn. Og jafnvel maður með sama útsvari getur verið eitt árið í hærri gjaldenda flokk, hitt árið meðal lægri gjaldenda, eftir því sem útgjöld bæjar o. fl. breytist.

Eg mæli með, að frumvarpið fái framgang óbreytt, þó að eg hefði reyndar heldur kosið að háttv. flutningsm. (L. H. B.) hefði tekið til greina bendingu, þá sem eg gaf honum við 2. umr.