13.08.1913
Neðri deild: 33. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í C-deild Alþingistíðinda. (823)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Jón Magnússon:

Eg vildi gera grein fyrir því, hvers vegna eg greiddi ekki atkvæði með frumv. við 2. umr. Eg áleit frumvarpið ekki gott að því leyti, að með þessu móti er minni trygging fyrir því, að sæmilegur maður veljist í borgarstjórastöðuna. Að þessu leyti er eg á móti frumv. Hins vegar get eg ekki neitað því, að það er almennur vilji bæjarbúa að fá þennan rétt, og þegar þar við bætist að bæjarstjórnin vill afsala sér réttinum, þá verð eg að telja það mjög hæpið að það sé rétt, að þingið geri sig að »formynder« bæjarstjórnar eða bæjarins, að þessu leyti. Og þar sem landið leggur ekki einn eyri til bæjarins, er það næst sanni að hann fái að ráða þessu.

Mér er ekki ljúft að greiða frumv. atkvæði, því að eg álít það í sjálfu sér óheppilegt, en eg geri það þó, því að eg álit að bærinn eigi rétt á að ráða þessu.