13.08.1913
Neðri deild: 33. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í C-deild Alþingistíðinda. (837)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Bjarni Jónsson:

Eg mun gera nokkrar athugasemdir við ræðu ráðherra að því leyti, sem hún snerti mína fyrri ræðu. En áður verð eg þó að svara ýmsum atriðum, sem ekki vöru beinlínis til mín mælt, en komu fram í svari til annara. Þó skal eg eigi brenna mig á sama soðinu sem í dag. að tala um það mál, sem er á dagskrá, en hinu vil eg lofa, að vera stuttorður, og læt ósvarað níu tíundu hlutum þess sem þörf væri að svara.

Ráðherra véfengdi það,. er 1. þm. Rvk. (L. H. B.) nefndi, að landsmenn hefðu skaðast 200,000 kr. á ári á farmgjöldum og fargjöldum við þá breyting, er á varð, þá er Thore hætti strandferðum. Sagði ráðherra um leið, að röng mundi sú tala hjá mér í bréfi mínu til stórnarinnar og grein samhljóða í Birkibeinum. Féllu orð hans svo, sem eg hefði þar verið að reikna, hve mikinn halla vér hefðum beðið af samningi hans. Það var þó aldrei mín ætlun að reikna það, heldur hitt, hve mikið tjón vort væri, hvaðan sem það stafaði, því að ætlan mín var að sýna Íslendingum fram á, hvert höfuðtjón þeim væri að eiga eigi skip sjálfir. Og upphæðir voru þar svo varlega áætlaðar, að langt er frá að þær verði véfengdar. Þá taldi ráðherra og rangt að taka meðaltal að hundraðatölum (%) og vitnaði þar enn til sömu greinar. Eg hafði haft þá aðferð við töflur, sem eg gerði um hækkun á fargjöldum hér við land. Mér var vel kunnugt um, að sú aðferð er ekki nákvæm, en hún var sú eina, því að engar skýrslur fengust um ferðamannatal milli hafna. En af samvizkusemi og til frekari fullvissu fór eg til Ólafs Daníelssonar og bað hann að reikna, með aðferðum, sem eg kann ekki, hvort þetta mundi verða mjög ónákvæmt, Reiknaðist honum svo, að allónákvæmt mundi verða, ef fáar væri tölurnar, en þar sem ræða væri um tölur, sem skifti hundruðum sem hjá mér, þá væri þetta allgóður grundvöllur undir áætlun. En þótt nú þessi reikningur sé ekki með fullri nákvæmni, þá ætla eg að eigi standi hann á baki þeim reikningi ráðherra að 13=12.

Þá kem eg að þessu eina eldhúsatriði mínu, afskiftum ráðherra af fánaráninu 12. Júní. Svar hans verð eg að telja. ófullnægjandi. Hann gat ekki sannfært mig um, að það væri rangt, sem eg sagði í fyrri ræðu minni, að bréf íslenzku stjórnarinnar væri helzti auðmjúkt og því líkast, sem það væri skýrsla frá ræðismanni eða sendiherra til yfirboðinnar stjórnar hans. Að minsta kosti sýnir samanburður á bréfunum þetta, því að bréf danska ráðherrans er svo frábrugðið, að það getur naumast talist ritað af sæmilegri hæversku. Danski ráðherrann, Zahle, virðir íslenzku stjórnina ekki svars. Í bréfi hans segir, að formaðurinn á Fálkanum hafi gert þetta eftir gömlum lögum og skipunarbréfi sínu. En segir ekkert um, hvort Danastjórn telji verk hans löglegt eður eigi. Þó má ráða af bréfinu, að hún ætlar sér að styðja formann Fálkans, því að hún svarar engu hógværum tilmælum stjórnarinnar hér um að skipa Fálkungum að láta oss í friði; heldur ætlar hún að ræða þetta við ráðherra Íslands í haust. En hún mun ekki ætla að spyrja hann um, hverja skoðun hún eigi að hafa á, þessu, heldur um hitt, hve mikið sér sé óhætt að þjappa að oss Íslendingum, við þetta tækifæri. Þar sem báðir ráðherrarnir tala um »det lovlige Rigsflag«, þá er þess að geta, að fullsannað er það, að aldrei hafa nein lög skyldað Íslendinga. til þess að hafa það hér. Þau lög eru ekki komin enn, og skulu aldrei koma.

Þegar eg bar fram þetta mál í fyrri ræðu minni, hagaði eg svo orðum mínum, að vel mátti kalla fyrirspurn. Bjóst eg þá Við að ráðherra mundi svara svo, að hann hefði þegar svarað bréfinu frá Zahle og eigi að eins heimtað, að hann svaraði vefilengjulaust, heldur og að hann kallaði formann bátsins heim til marks um, að Danastjórn ætlaði sér ekki að frétta ofbeldið. En þessi svör veitti ráðherra ekki. Þótti mér það leitt, því að eg var að vona, að hann mundi reyna að reka réttar vors svo sem unt væri í þessu máli. Því að fánaránið rann öllum Íslendingum svo til rifja., að vér gleymdum flokkadráttum og stóðum allir saman. Er þá langt leitað, því að sjaldan kemur þetta fyrir. Hitt er rétt hjá ráðherra, að þetta er ekkert stórmál, ef hér er að eins að ræða um misskilning þessu eina manna á skipunarbréfi sínu. En nú er svo að sjá, að stjórn Dana hafi sama skilning. Sést það bæði á því sem fyrr var getið, að hún ætlar að ræða þetta í haust, og á hinu að í enda bréfsins er hótun, ef rétt er skilið. Þar stendur, að danska stjórnin sé inni íslenzku stjórn sammála um, að þetta mál, í sjálfu sér svo lítilfjörlegt, eigi ekki að leiða til frekara. Það er að skilja, ætti ekki að leiða til þess, að Danir þurfi að beita refsingum við Íslendinga, fyrir að hafa sinn fána hér á höfninni og á þurru landi. Svo er bréfið rétt skilið. En þegar svo er, þá er málið eigi smámál. Þá er þörf á því fyrir oss, að standa nú fast fyrir. Og þess vegna vildi eg, að ráðherra legði nú hnefann á borðið og segði við Dani: »Hversu lízt þér hnefi sjá?«, svo sem Ófeigur í Skörðum sagði forðum.

Ekki get eg fallist á það, að hæversklega sé að orði kveðið um mig í bréfi hans til Zahle, en um það má á sama atanda. Hitt þótti mér vanhugsað, er ráðherra sagðist vera í efa um, hvort það yrði til sóma, ef hann gæti um, að viðskiftaráðunauturinn hefði borið fram fánatillöguna. Sá er munurinn á okkur, að eg tel það viðskiftaráðunautinum sóma, að það sjáist, að hann sé búinn til þess að taka svari landsins, hvar sem hann er staddur. Og þótt eg væri ekki í þessari stöðu, þá mundi eg telja mér sóma að tillögunni, og það hygg eg, að mig mundi eigi bresta einurð til að halda á mínu máli, þótt eg vissi, að Dönum yrði sagt frá. Hefi eg hingað til eigi bliknað né roðnað, þótt þeir hafi gert nokkurn aðstig að mér.

En þessi ágreiningur milli okkar á sér dýpri rætur. Og kem eg nú að því atriði, sem eg vil víta stjórnina fyrir. En það er öll stefna hennar út á við, skoðun hennar á því, hvernig vér Íslendingar skulum ná, aftur rétti, þeim sem Danir hafa hrifsuð og halda fyrir oss. Þykir mér hún vera um of lítilsigld í þeim málum. Þetta er ráðherra kunnugt og kemur honum eigi á óvart, því að eg hefi eigi fataskáp fullan af skoðunum til að fara úr og í; eg hefi ætíð verið meðal þeirra sem mestar kröfur hafa gert oss til handa, og aldrei viljað að Íslendingar léti troða ofan af sér skóinn. Ráðherra mátti búast við þessu af mér, en kynlegt má honum virðast, að fornir ástvinir hans og skoðanabræður í sambandsmálinu eru nú að vita hann fyrir afskifti hans einmitt af því máli. Er það harla skoplegt að hlýða á það í ræðum þeirra, að síðustu orðin eru að ávíta hann fyrir afskifti hans af sambandsmálinu,en fyrstu orðin í ræðunni eru þau, að hann hafi ritað nafn sitt gullnum stöfum í sögu landsins með þeim sömu afskiftum. (Valtýr Guðmundsson: Já). Já., segir háttv. þingmaður Seyðf. Honum finst þetta ekkert undarlegt. Margt er skrítið í harmoníu, og eg er ekki viss um, að þetta sé undarlegra en það, er fjárlaganefnd segir, að enginn sé fær um að skrifa upp heiti á íslenzkum bókum og höfundum, nema Jón Ólafsson. Er það nú ekki skoplegt að heyra t. d. þingm. Sfjk. halda sina löngu ræðu til þess að tala um mismuninn á uppkasti, bræðingi og grút? Menn geta fengið uppköst af að hlýða á.

Hvað eru þessir menn að toga hver í sinn snepil á Sama innlimunarbleðlinum, og þykjast þó ekki vera í sama flokki? Þeir eru allir jafnir og eru stefnubræður, hversu mikið sem þeir rifast innbyrðis. Þar þarf eigi fremur að átelja ráðherra en þessa trygðavini, sem sækja nú að honum af kappi. En þeir eiga allir þungar átölur akilið, hann og þeir, því að þeir vilja láta af hendi skýlaus réttindi Íslendinga, en ekki verja þau og halda þeim fyrir Dönum, sem vilja hrifsa þau af oss. Eg er algerlega ósamþykkur stefnu sambandsflokksins frá rótum og ráðherran vil eg átelja fyrir það, að láta sambandsflokkinn ginna sig til þess 1912 — þvert ofan í hátíðleg loforð og vilja þjóðarinnar — að fara að leita hófanna um nýjar samkomulagstilraunir, sem hlutu að verða oss til skammar og skaða. Því að á slíkum aðförum mega allir sjá, að Íslendingar þekkja að eins eina baráttuaðferð, þessa getið að hrökkva en aldrei að stökkva.

En eigi vil eg skera úr deilum þeirra; ráðherra og þingm. Sfjk., hvort meiru valdi limið á ráðherrastólnum í kóngastólaleik ráðherraskiftanna, Sem þingm. Sfjk. nefndi, eða þá löngun manna til að hlaupa í skörðin, svo sem ráðherra: virtist halda fram. Þó vil eg drepa á tal manna um vantraust á ráðherra. Skoðanabræður hans í sambandsmálinu, sem verið hafa og eru enn, lýsa vantrausti á honum einmitt í því máli. Er rökleiðsla þeirra harla torskilin og er svo að sjá sem lykkjufall sé orðið í heila þeirra. En þeir um það. Mér er hægra um vik, því að eg get lýst hjartanlegu vantrausti á þeim öllum, og er það í fullu samræmi við mína stefnu og undanfarin viðskifti mín við þessa menn. Allir eru þeir samtaka um það, ráðherra og þessi trygðatröll hans, að halda langar líkræður yfir uppkastinu með beizkum harmatölum yfir því að það hafi verið felt. Raunar er það ranghermi að uppkastið væri felt. Því var breytt og var þá svo til ætlað og um talað, að málið gengi áfram í samningum milli þinganna. En þá létu Danir samningana falla niður að ástæðulausu. Og kom það af því, að þeir höfðu haft það eitt fyrir augum, að láta Íslendinga negla sig, eins og háttv. þm. Sfjk. (V. G.) sagði um grútinn, en er þeir sáu að það vildi eigi verða og að vér höfðum opin augun, þá létu þeir hefjast frá og vildu biða betri tíða. Þeir hafa alla daga vitað, að réttur þeirra til yfirráða á Íslandi var enginn, og þess vegna vilja þeir láta Íslendinga negla sig. Nú fara þeir bráðum að halda hátíðlega minningu Kielarfriðarins og mundi þeim þá ljúft, ef Íslendingar hefðu lagt samþykki sitt á það, sem þar gerðist. Þeir freistuðu að fá ránið staðfest 1818 fundi í Lundúnum og liggja þar skjöl þessu viðvíkjandi í skjalasafni. En allar þær tilraunir urðu að engu og allar slíkar tilraunir skulu verða að engu.

Uppkastið var ein slík tilraun og mega sambandshetjurnar því halda mér til góða, þótt eg hræðist eigi spádóma þeirra, að þungur dómur muni ganga yfir mig og mína flokksbræður, fyrir að ónýta slíka tilraun. Nei, en eg get sagt þeim hitt, að þeirra eigin synir og sonasynir munu þakka okkur fyrir, að við heftum feður þeirra áður en þeir gátu stigið slíkt þjóðglötunarspor. En ef þeir hefði komið fram vilja sínum og fengið innlimunaruppkastið samþykt, þá mundi eigi hafa verið um þá kveðið svo sem Einar Benediktsson segir um ágætismenn vora á fyrri hluta 19. aldar:

Þeir hrundu vorum hag á leið

með heillar aldar taki.

Nei, þá mundi hafa verið um þá kveðið:

Þeir hrundu vorum hag úr leið

með hundrað alda taki.