13.08.1913
Neðri deild: 33. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í C-deild Alþingistíðinda. (840)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Pétur Jónsson:

Háttv. þm. Dal. (B. J.) byrjaði fyrri ræðu sina með því, að hann ætlaði að tala nokkur orð um stefnu fjárlaganefndar og láta eldhúsmensku sína ganga út yfir hana. Eg varð hræddur í bráð, en létti þegar fram í ræðuna kom, því að yfirleitt heyrðist mér á honum fremur gleði en óánægja yfir nefndinni, þótt reyndar væru einstök atriði, sem hann gat ekki felt sig við. Eg álít nú ekki eiga við að fara að svara einstökum atriðum. Þau hljóta að koma fram við 2. umr., og þá mun eg gera grein fyrir stefnu nefndarinnar og ástæðum fyrir þeim. Háttv. þm. var meðal annars glaður yfir því, að nefndin hefir lagt til að hækka laun kennara við Mentaskólann. Þetta kom mér nú dálítið á óvart, af því að hann var á móti frumv. þess efnis ekki alls fyrir löngu, og vildi þá ekki einu sinni laga það á þann hátt, sem hann nú telur að sé in mesta sanngirni. Hann endaði með því að minnast á skoðun nefndarinnar á ræðismensku þeirri, sem hann hefir haft á hendi undanfarin ár, og saknaði þess, , að fjárveiting til þess skuli ekki vera tekin upp í fjárlögin. Þetta er ekki nema eðlilegt, þar sem honum er málið svo skylt. En eg vil benda á það, að þótt nefndin hafi ekki tekið upp sams konar styrk og áður til viðskiftaráðunauts, þá hefir hún gert ráð fyrir fjárveitingum í svipaða átt, sem kemur enn þá nær því sem margir meintu með fjárveitingunni 1909 til viðskiftaráðunautsins. Það getur verið, að sumir hafi meint það með henni, sem úr henni varð, en þorri manna átti þó við verzlunarerindreka, sem sérstaklega væru færir í Verzlunarsökum. En það er réttast að geyma þessi einstöku atriði til 2. umræðu.

Það hefir nú verið nokkuð mikið um eldhúsdagsræður í dag, og þar er eg ekki vanur að leggja orð í belg, en úr því að eg hefi þurft að tala aftur, þá álit eg réttast, að gera um leið grein fyrir skoðun minni á þeim efnum, sem mest hafa verið rædd, og skal eg þá byrja á háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.). Hann talaði af nokkrum þjósti, eins og honum er hætt við, þegar hann talar til stjórnarinnar hér á þingi, og er það undarlegt, þar sem viðmót hans er alt annað utan þings, og það verkar svo á mig, sem er gamall kunningi hans, að mér fellur það illa og finst þessi tónn vera í ósamræmi við hans innræti og viðmót Í niðurlagi ræðu sinnar sagði hann, að stjórnin væri fylgislaus og þingið á móti henni í því sem hún vildi, og hún á móti þinginu í því sem það vildi. Þetta eru skýr orð. En þetta er líka það eina, sem hann kom með nýtt. Hitt, sem hann sagði, hafði, þótt það væri vel framflutt, flest eða alt staðið í blöðunum áður, og mun hann nú reyndar hafa skrifað margt af því áður sjálfur. Hann sagði Alþingi., eins og hann gæti dæmt það alt eftir neðri deild, og hefði nú verið réttara að segja bara neðri deild. En þegar eg nú svo tek til athugunar ástæðurnar og flokkaskipunina í neðri deild, hvort heldur lítið er á menn eða málefni, þá vita, allir, að um samvinnu er þar ekki að tala, hvorki við stjórnina né innbyrðis. Ofan á eru flokkarnir taldir 4, en 2 af þeim slá sér alla vega saman á víxl, og aldrei er að vita, hvar lendir, og skapar þetta málunum óvissu. Og hvar er nú háttv. þm. N.-Þing. (B. SV.) staddur sjálfur. Flokksbrot hans eru þessar tryggu leifar Sjálfstæðismanna, sem í fyrra urðu ekki eftir af nema 3 menn. Það voru þeir, sem sagt var að hefðu rekið hina 7 úr flokknum. Nú hefir þetta flokksbrot hnýtt sér aftan í annað álíka stórt, sem upprunalega heyrði til sama flokki. Svo hefir þeim 2 flokksbrotum aftur verið hnýtt aftan í ið 3., gamla fjandmenn þeirra, Heimastjórnarmenn. Og þetta hefir skapað þá samtengingu, sem í sumar hefir beitt sér á móti hæstv. ráðherra í einstökum atriðum að minsta kosti. Og til þess að ná í meiri hluta í deildinni, hafa þeir orðið að ná í flokksleysingja, sem ætíð hefir verið reiðubúinn, þegar hefir átt að gera núverandi ráðherra eitthvað til miska eða móðgunar. Að þessi flokkabrot skuli hafa haft geð hvort á öðru til þess að vinna saman að þessu, er nú í sjálfu sér eitthvert einstakasta dæmi í þingsögu vorri. (Skúli Thoroddsen: En hvað er ráðherra fjölmennur?). Eg er nú að kanna liðið, og má helzt marka það af atkvæðagreiðslunni í lotterí-málinu, og ella þegar um eitthvað er að ræða, sem hæstv. ráðherra hefir verið hugleikið sérstaklega, þá hefir komið upp talan 13, þessi heillatala. En þetta er ekki meiri hluti hér, hvað þá meiri hluti þjóðkjörinna þingmanna. Og þeir sem leggja áherzluna á það, að mótspyrnan sé svo mikil hér, og þykir það undarlegt, að stjórnin skuli vilja sitja, eins og háttv. þm. N.þing. (B. Sv.) lét í ljós, skulu gæta þess, að það er alls eigi víst, að þessir 13 þingmenn séu allir á móti stjórninni yfirleitt. Það hefir að minsta kosti stundum komið fram, þegar þess konar ætti helzt að sjást, að þó, hafa einstakir menn úr þeirra hóp tekið það fram, að atkvæði þeirra beri ekki að skoða sem neina almenna vanþóknun á stjórninni. T. d. voru skattamálin feld hér með 12:12 atkvæðum. En eins og bent hefir verið á, voru þá 2 þingmenn, annar sem greiddi atkvæði í móti, en hinn hvorki með né móti, sem báðir voru meðmæltir stefnu frumv., og þeir tóku það báðir glögt fram, að það væru að eins smærri einstök atriði, sem þeir feldu sig ekki við, og að tími væri ekki kominn til á þessu þingi að útkljá málin.

Eg benti á það við meðferð fasteignaskattsfrumv., að yrði það felt, hlyti það að tákna þá stefnu þeirra er frumv. feldu, að þeir væru á móti beinum sköttum og vildu eingöngu óbeina. En nú hafa þessir háttv. þm. með yfirlýsingum sínum frelsað sig frá þeirri ályktun.

Þá er launamálið, sem hér var fyrir þinginu. Það er nú svo vaxið, að það er kannske ekki örðugt að fá menn til að vera á móti slíku frumv. Að minsta kosti geri eg ráð fyrir, að við bændur séum auðfengnir til að vera á móti launahækkun embættismanna. Og það er nokkuð eðlilegt. En hitt veit eg, að ýmsir af þeim sem atkvæði greiddu móti háttv. ráðherra í því máli, mundu álfta það ið mesta tjón, ef hann færi frá völdum nú. En jafnframt er eg fullviss um það, að margir þeirra manna, sem greiddu atkvæði móti launafrumv. og hjálpuðu til að fella það, eru ekki á móti stefnu málsins. Svo hygg eg t. d. muni vera um háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.), sem mér er sagt að hafi verið frumsmiður að háskólalögunum og átt frumkvæðið um það, hvernig þau laun, sem þar eru ákveðin, voru sett, og líka röksemdaleiðsluna fyrir því, hvers vegna launin ættu að vera þau sem þar eru ákveðin. Háttv. stjórn færði í athugasemdum sínum við því einmitt sömu rök fyrir hækkun launanna og háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) fyrir háskólalaununum og miðaði við þau þegar frumv. var sniðið. Þess vegna er eg viss um það, að jafnvel þótt háttv. 1. þm. Rvk. hafi greitt atkvæði á móti frumv., þá hefir það ekki verið af því, að hann hafi verið á móti stefnu þess. Líku máli mun vera að gegna um háttv. 2. þm. S-Múl. (G. E.), sem situr nú í hálaunaðri stöðu, en þykist þó víst ekki ofhaldinn af því samt. Eg trúi því ekki, að hann sé svo ósanngjarn, að telja það eftir, að aðrir séu líka sæmilega launaðir, af því hann sjálfur er kominn á þá grænu grein. Þessir menn hljóta því að hafa greitt atkvæði á móti frumv. af einhverju öðru en því, að þeir haft verið andvígir stefnu þess. Svona gæti eg talið upp hvern embættismanninn á fætur öðrum. Mig minnir líka, að háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. Ól.) léti það í ljósi í blaði sínu, að öll sanngirni mælti með launahækkunni. Það má vera, að menn hafi ekki felt sig við einstök atriði þess, en það er sitt hvað og vera á móti stefnu þess. Eg hygg því, að fáir aðrir en bændur hafi verið móti stefnu frumvarpsins.

Háttv. 2. þingm. S.-MúI. (G. E.) fann hæstv. ráðherra það til foráttu, að hann hefði klofið heimastjórnarflokkinn og átt upptök að því, að hann gekk í tvær sveitir. Hér hefir háttv. þingmaður vikið inn á það, sem hingað til hefir verið talið einkamál flokka og er það satt að segja undarlegt af manni, sem samtímis gekk í þingflokkinn. En úr því að hann hefir leitt þetta inn í umræðurnar, og vegna þess, að þetta hefir verið gert að umtalsefni í blöðunum af félögum hans, þá virðist mér rétt að minnast lítið eitt nánara á það. Ef menn vissu sögu þessa máls og ið sanna um sundrungina, þá held eg að það mundi kasta skýrara ljósi yfir afstöðu hæstv. ráðh., en gert hefir verið í dag.

Eg skal þá fyrst leyfa mér að benda á það, að Sambandsflokkurinn, sem stofnaður var í þingbyrjun 1912, tók fyllilega við því »prógrammi« sem Heimastjórnarmenn höfðu haft sem »aðalprógram« áður. Auðvitað var hliðrað nokkuð til — en ekki í neinum aðalatriðu .—- til þess að nokkrir menn, sem ekki gátu gengið í Heimastjórnarflokkinn, gætu gengið í þennan nýja flokk. Í þennan flokk gengu svo allir Heimastjórnarmenn, nema tveir, sem þó voru samþykkir því »prógrami«, sem flokkurinn setti sér í þinglokin. Hér var ekki um annað að tala en það, hvort menn vildu hafa nafnaskifti á Heimastjórnarflokknum og fá viðbót manna í hann með því móti, eða Heimastjórnarmenn vildu halda áfram að vera út af fyrir sig.

Um þetta var ágreiningurinn, en alls ekki um stefnu, eða »prógram« flokksins. (Lárus A. Bjarnason: Þetta er ekki satt!). Jú, og eg get sannað það hvenær sem vill.

Menn geta nú skilið það, að þegar menn láta slíkt lítilræði sem heiti á flokknum greina á milli, þá er eitthvað annað »komið í spilið«, sem ræður meir en málefnið. Það sem átti að vera nægilegt til flokkssamheldis, var það, að menn væru sammála um sambandsmálið, því að ekkert annað mál hefir komið inn á þingið enn, sem hefir skapað nokkra aðra varanlega flokkaskiftingu. Það var sameiginleg ósk allra þessara manna í fyrra, að Hannes Hafstein tæki við ráðherrsembætti og menn voru sammála um öll aðalatriði í stefnuskránni. Eg get því ekki skilið, þar sem engin breyting hefir orðið í þessu efni, að menn kjósi það að annar taki við en sá, sem hafði samhuga traust allra þessara manna á þinginu í fyrra.

En hvað var nú því til fyrirstöðu, að þessir menn gætu verið í Sambandsflokknum ? Eg hefði getað skilið að það hefðu verið þessir nýju viðsjálsgripir, sem teknir voru upp í hann úr fyrververandi fjandaflokkum. Það lifir lengi í gömlum glæðum og er oft erfitt fyrir þá, sem hafa staðið öndverðir hvorir á móti öðrum, að gleyma því með öllu og fá tiltrú hver á öðrum.

En eg er hræddur um, að reynslan sé búin að skera úr því, að það er ekki þetta hreinlæti, sem fyrir þeim burtviknu heimastjórnarmönnum hefir vakað, því að strax og þeir eru komnir úr flokknum, fara þeir að hafa mök við sína fyrri fjandmenn og sína verulegu mótstöðumenn í sambandsmálinu. Þetta er það sem skapar óheilindi og gerir erfitt fyrir hæstvirtan ráðherra að vita, hvort hann er keyptur eða seldur. Þegar svona er ástatt, þá er ekki gott að vita,, hvernig blæs þann og þann daginn. Reynslan verður að Skera úr því, hvaða fylgi þessir menn hafa. Enn hafa þeir ekkert látið í ljós opinberlega, sem nokkuð sé markandi. Þeir hafa ekki borið fram vantraustsyfirlýsingu eða neitt í þá átt. Eg er viss um það, að meiri hluti þingsins óskar þess, að hæstvirtur ráðherra hafi þol til að sitja í sætinu, þrátt fyrir þá atburði sem orðið hafa siðan þing byrjaði og öll óþægindin og leiðindin, sem hann hlýtur að finna til út af þessum glundroða í þinginu.

Eg er þakklátur hæstv. ráðherra fyrir það, að hann hefir ekki látið neina atburði. sem fyrir hafa komið, þoka sér til þess að kasta frá sér

[Hdr. af niðurlagi ræðunnar, 4 hálf-blöð skrifuð, vantar. Hefir einhver þingmaður, sem í leyfisleysi forseta fengið fundarhandritið léð af Lestrarsalnum, týnt því. — J. Ó.]