13.08.1913
Neðri deild: 33. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í C-deild Alþingistíðinda. (843)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Ráðherrann (H. H.):

Eg skal ekki tefja fundinn með langri ræðu. Það sem eg vildi segja, voru fáein orð út af ræðu háttv. 1. þm. Rvk. (L.H.B.) um gufuskipasamninginn.

Eg lét í ljósi á þingi í fyrra, að eg teldi mig hafa heimild til þess að breyta samningnum og þá mælti enginn á móti því. Þetta stendur prentað í þingtíðindunum. Eg er enn sömu skoðunar, að eg hafi ekki þurft neitt leyfi til að gera þessar smábreytingar á samningnum.

Háttv. þm. kvartaði yfir því, að ekki væri fullnægt því, er eg gaf í skyn í fyrra, að þótt hækkuð væri fargjöld á 1. farrými milli landa ,á stærstu skipunum, þá mundu Íslendingar, sem fara héðan til útlanda og heim aftur, fá uppbót á þessu í túr og retúr farmiðum. En þetta er einmitt svo útbúið, þó að það standi ekki með berum orðum orðum í samningnum. Það þótti óviðkunnanlegt að setja það þar, en að þetta þó er aftalað, sézt á skjölum málsins.

Það er er enginn vafi á því, að félagið gat breytt farmgjaldstöxunum frá Leith eins og gert hefir verið í nokkrum atriðum, án þess að breyta samningum frá 1909. Í þeim samningi er sem sé skírskotað til samningsins 1907, en þar er með berum orðum sagt, að mismunur á Hafnartöxtum og Leithtöxtum megi vera 10%. Svo mikill var munurinn ekki þá á fáeinum Vörutegundum og þetta hefir verið sett í framkvæmd nú. Það er alt.

Háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) kvaðst ekki skilja, hvernig heimsfragtirnar hefði áhrif á samninga vora. Eg vona, að það sé öllum öðrum skiljanlegt, og nenni ekki að fást frekara við að útlista svo auðskilið mál.

Eg lýsti yfir á þinginu i fyrra skilyrðunum fyrir nýjum samningum um strandferðir við Sameinaða og var það þá víst, að við yrðum neyddir til þess að gera þessar litlu breytingar á millilandasamningnum, enda mætti þá enginn á móti. Og það er víst, að ómögulegt var að fá samning um strandferðir i fyrra haust með vægari kjörum, en fengust. Háttv. þm. Dal. (B. J.) þarf eg ekki að svara. Það var ekkert nýtt i ræðu hans.

Háttv. þm. N.-Þing. (B. SV.) gat þess, að kolaeinokunarfrumv. væri um að kenna að lánstrausti landsins væri glatað. Sagði hann því til sannindamerkis, að svo mikið uppþot hefði orðið út úr því frumv. út um heim, að 7 ríki hefðu sent sendinefndir til utanríkisráðuneytisins danska til þess að mótmæla þeirri óhæfu. Er maðurinn virkilega svona auðtrúa? Sannleikurinn er sá, að 3 sendiherrar, sem eiga heima i Kaupmannahöfn, mættu þar og höfðu umboð frá einhverjum stéttarbræðrum sínum, sem líka eiga þar heima til þess að gæta réttar þeirrar og varna því, að fiskimenn frá þeim löndum biðu óhag eða hindrun í atvinnurekstrinum hér við land með þessum lögum. En slíkt er alveg algengt i öðrum löndum. Ef einhver sendiherra telur möguleika á því, að menn úr hans ríki bíði halla af einhverjum lögum, sem í aðsigi eru, þá fer hann strax á stúfana og mótmælir frumv. upp á kraft. Slíkt er alvanalegt og eru ekki nein stórtíðindi, sem sett geti lánstraust eins lands á heljarþrömina. Annars er lítill vafi á því, að ef fast hefði verið haldið á vorum málstað gagnvart sendiherrunum viðvíkjandi kolafrumvarpinu og reynt að færa þeim heim sanninn um rétt vorn í þessu efni, þá hefði þessum mótmælum ekki verið haldið frekara til streytu, en svo afarmörgum sams konar tilraunum af landanna hálfu til þess að gæta fjárhagslegra hagsmuna sinna þegna út á við.

Háttv. þm. N. Þing. getur reitt sig á það, að vantraust útlendinga á landinu er eldra en frá í fyrra. Það er kviknað fyrir 1911. Sú breyting, sem á því er að verða, er þó heldur til batnaðar en hitt.

Sami háttv. þm. gat þess, að hann vissi til þess, að maður hefði keypt hlutabréf af Íslandsbanka. Þetta getur ekki verið rétt öðruvís en svo, að annaðhvort hafi bankinn verið beðinn að selja þau fyrir aðra eða Schou bankastjóri sjálfur prívat átt einhverja aktíur, sem hann hefir selt. Um handveðslánin er það að segja, að það er altítt, að stórir bankar, t. d. Nationalbanken, lána út á sin eigin hlutabréf, og Íslandsbanka er lögleyft, að gera það innan fastra takmarka.

Háttv. þm. N.-Þing. talaði enn um »uppþot«, sem orðið hafi í Kaupmannahöfn út úr Íslandsbanka. Eg held, að þetta sé talsvert orðum aukið; menn hafa þar yfirleitt verið rósamir og sjálfsagt sofið fullum svefni fyrir bankanum, En það er satt, að verðfall varð á hlutabréfum bankans, og kom víst aðallega til af ýkjufregnum um skuldir eins félags við bankann, og þar af leiðandi beyg.

Það hefir verið kvartað yfir undirbúningsleysi af hálfu stjórnarinnar undir ýmis mál. Út af því skal eg geta þess, að þótt undirbúningurinn kunni ekki að jafnast á við það, sem er í inum stóru löndum, þar sem starfskraftarnir eru ágætir, þá er það eigi svo undarlegt. Hér stendur nokkuð sérstaklega á. Hér verður lagaundirbúningurinn viðbót við in miklu daglegu störf, sem starfsmenn stjórnarráðsins verða að inna af hendi, án þess nokkrum starfskröftum sé við bætt. Eg varð að sigla rétt eftir þing i fyrra, kom ekki heim fyr en undir Jól, en málin þurftu öll að vera tilbúin í Apríl, áður en eg sigldi á konungsfund. En það sem hægt hefir verið að gera, hefir stjórnarráðið viljað gera. Að eins fjárlagafrumvarpið er mikið verk; önnur frumv. tóku einnig drjúgan tíma og erfiði. Mér er kunnugt um, að ekki var slælega unnið að lagasmíðinni, mjög oft langt fram yfir venjulegan starfstíma.

Háttv. þingm. Sfjk. (V. G.) sagði, að samgöngumálið væri illa undirbúið. Það get eg ekki kannast við. Með erfiðleikum og eftir langar málaleitanir fékk eg Sameinaða gufuskipafélagið til að lofa að endurnýja samningana um strandferðir í 1–2 ár, ef alt um þryti. Auk þess hefi eg haft mikla samningaviðleitni í Noregi og haft þar menn fyrir mína hönd til þess, enda er þaðan von á tilboði, sem er talsvert undirbúið, en eg veit ekki fyllilega, hvernig verður, en býst þó við, að nota megi í nauðum. Eg gat ekki átt við íslenzka gufuskipafélagið ófætt, enda er það ekki enn komið á fót og hefir ekki snúið sér til stjórnarinnar. Stjórnin hefir auðvitað ekki getað átt við að undirbúa lántöku í því skyni að taka þátt í því félagi. Það hefir aldrei staðið til né á það verið minst. Aftur á móti hefi eg nú undirbúið símalán, það sem í ráði er; eg hefi við höndina samningsuppkast, sem ekki er annað eftir við að gera en undirskrifa. Kjörin eru ágæt: 4% og afborgist á 30 árum með jafnverði. Það er ekki rétt, að ekki hafi verið reynt að útvega landinu lán utan Danmerkur. Það hefir t. d. verið reynt í París, en peningamenn þar vilja heldur exotíska pappíra en íslenzk skuldabréf. Það hefir sömuleiðis verið reynt í London, en reynst ómögulegt að fá þar lán handa Landsbankanum eða landssjóði, nema því að eins að prívatmönnum séu þá jafnframt veittar Concessionir til að gera mannvirki hér eða því um líkt. Þessu líkt býst eg við, að háttað hafi verið um kunningjalánið, sem hv. þm. Sfjk. (V. G.) sagði, að einn maður hefði fengið í Frakklandi. Eg ímynda mér, að slíkir skilmálar geti reynst fulldýrir á endanum. Menn eru að tala um, að það sé kotungsháttur að segja, að 1/2 millión kr. sé mikið fé, og jafnvel að örðugleikarnir á því að fá lán muni stafa af því, að við heimtum ekki miklu stærri upphæðir. En eftir minni skoðun er hálf milíón mikið fé fyrir Ísland, eins og nú atendur. 1/2 milióna kr. lán fyrir oss, er samskonar og 21 milíóna kr. fyrir Dani og 500 milíóna kr. lán fyrir England. Vér megum ekki skoða oss sem Stórveldi; oss ríður á að fara varlega og vaða ekki blint í sjóinn, hvorki þegar um fjármál né annað er að ræða.

Menn þurfa ekki að hugsa það, að hægt sé að vefja útlendum lánveitendum um fingur sér. Þegar leitað er lánanna, spyrja þeir auðvitað fyrst og fremst, hver íbúatala landsins sé, þjóðareignin, hagur landssjóðs og tekjur o. s. frv., og eftir því fer, hvort lánið fæst og hve stórt.

Meiri næturtíma mun eg ekki eyða í þetta, enda er nú orðið framorðið. Þakka eg nú fyrir skemtunina í dag, og býð góðar nætur, bæði þeim sem hafa spreytt sig móti mér, og hinum, sem hafa lagt mér liðsyrði. Vona eg, að vér skiljumst allir svona hér um bil jafngóðir vinir eins og við vorum í morgun, þrátt fyrir þessa sennu.