13.08.1913
Neðri deild: 33. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í C-deild Alþingistíðinda. (844)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Eggert Pálsson:

Eg skal ekki vera langorður. Eg stend upp sérstaklega af því, að bæði hæstv. ráðherra og háttv. framsögumaður hafa vitnað til atkvæðagreiðslu minnar um skattamálin. Þeir hafa báðir gefið það í skyn, sem er alveg rétt, að eg hafi greitt atkvæði móti frumvarpinu vegna þess, að eg taldi skattamálin illa undirbúin að vissu leyti, sérstaklega að því er tekur til gjaldenda sjálfra. Þetta er rétt hermt. En eftir ummælum þeirra, sérstaklega háttv. framsögumanns, þá verð eg að álíta, að þeir hafi tekið ástæður mínar til að greiða atkvæði móti frumvarpinu góðar og gildar, þótt þeir sjálfir og þeirra flokksmenn hafi greitt atkvæði með því að demba þessum sköttum á þjóðina alveg óviðbúna. Nú þar sem þeir háttv. framsögumaður og flokksbræður hans viðurkenna, að ástæður mínar móti frumvarpinu hafi verið góðar og gildar, en greiða þó sjálfir atkvæði með frumvarpinu, hvað liggur þá nær en að segja, að einmitt þeir hafi látið leiðast af flokksfylgi?

Aðalástæða mín móti frumvarpinu var þessi: að steypa ekki sköttunum flatt upp á þjóðina. En auk þess lágu til þess fleiri ástæður, sem eg man ekki hvort eg tók fram, nema þá lauslega. Skattafrumvörpin stóðu í óbeinu sambandi við launahækkunarfrumv. Það er ljóst, að fyrst útgjöldin voru aukin með þeim, þurfti að útvega einhverjar tekjur til að standast þau. Skattafrumvörpin voru ráðið til þess. En nú höfðu nálega allir þingmenn, stjórnarliðar þar á meðal, lagst á eitt með að stytta launafrumvörpum stjórnarinnar aldur. En þar með var þá líka fallin ástæðan til þess að halda uppi dilkunum, sem stóðu í óbeinu sambandi við launahækkunarfrumv., eg á við skattafrumvörpin. Þá var eðlilegt, að þau félli líka.

Þar sem í mig hefir verið vitnað, að því er kemur til skattamálsins, þá hefði einnig mátt á það líta, að svo virðist sem eg hafi reynst stjórninni hellubjarg að ýmsu öðru leyti og angrar mig það ekki, meðan eg get það með góðri samvizku. Það er satt, að in síðari árin hafa vegir stjórnarinnar og mín greinst að, og liggja rætur þess nokkuð aftur í tímann. Er þar fyrst til að taka, er bræðingurinn hófst, sem svo er nefndur; þá sá eg, að þar af mundi ekkí leiða neitt gott. Þóttist eg sjá, að ef í nokkuru væri breytt grundvellinum, sem frumvarpið 1908 hvíldi á, þá mundi hinn málsaðilinn (a: Danir) líka vilja breyta, eins og raun bar vitni um.

Semur þetta heim við skoðun og ummæli háttv. þingm. Sfjk. (V. G.). Þetta lét eg margsinnis í ljós á siðasta þingi, enda þótt eg gengi þá eins og aðrir á meðan þing stóð, í Sambandsflokkinn, er eg gerði þó bæði seint og tregur. Gekk mér það til, að gera það að lokum, að eg vildi ekki láta núa mér því um nasir, að eg hefði stuðlað að því, að sambandsmálið næði ekki góðri höfn, sem bæði hæstv. ráðherra og aðrir gerðu sér vonir um að gæti orðið með samtökunum. En reynslan sýndi brátt, að úr þeim góðu vonum varð nú æði lítið og þegar eg kom suður í vor, frétti eg, að ekki ætti að hreyfa sambandamálinu að sinni. En þrátt fyrir það, að ekki átti að hreyfa við sambandsmálinu í neinni mynd var á fundi í Sambandaflokknum gerð samþykt um að halda Sambandsflokknum uppi. Slíkan leikaraskap get eg fyrir mitt leyti ekki fallist á. Eg gat ekki séð, að sá flokkur hefði nokkuð að þýða, nema nafnið eitt, þar sem hann hafði ekkert mál framar að markmiði sínu. Eg gat enga hvöt fundið hjá mér til þess að ganga í algerlega stefnulausan og markmiðslausan flokk. Eg er ekki svo gerður, að eg vilji sniða af mér mitt gamla nafn, heimastjórnarmannsnafnið, og gerast Sambandaflokksmaður, engu máli til gagns. Eg sé það líka, að sumir, sem gengiat hafa fyrir stofnun Sambandsflokksins, hafa stofnað nýjan flokk, og þá líklega þótt, eins og mér, Sambandaflokkurinn vera óþarfur í eðli Sínu. Þeirra á meðal er sjálfur háttv. framsögumaður fjárlaganefndar. (Sigurður Sigurðsson: Hann á engan þátt í stofnun Bændaflokksins). Hann hefir þó gengið í hann. Eg hélt mínu gamla heiti, en hæstv. ráðherra og nokkrir með honum tóku sér nýtt heiti; að því leyti skiftust vegir.

En þetta hlaut með fram að leiða til þess, að augu mín urðu opnari fyrir göllum hans og manna hans, en meðan eg var í flokki með honum og þeim.

Er það eðlilegt, að þeir sem vinna í flokki saman, séu glámskygnari á ýmis lýti hver annars, heldur en aðrir, sem standa utan þess flokka. því er raunar ekki svo háttað um mig, að eg hafi engin lýti á stjórnmálafari hæstv. ráðherra séð áður; en hingað til hafa þau ekki verið svo stór, að eg áliti ástæðu til að ýta honum frá völdum. Eg hefi látið mér nægja að finna að við hann, svo sem t. d. í lotterímálinu; það sem réð atkvæði mínu í því máli, var það aðallega, að eg vildi ekki láta skapa ilt fordæmi, er ráðherra gæti vitnað í við meðferð annara mála síðar meir.

Mér þykir gott meðan vegir okkar og skoðanir skiljast ekki meir en svo, að eg þurfi ekki að verða til þess að bregða fæti fyrir hann. En til þess getur vitanlega dregið, svo fyrir mér sem öðrum.

Eg lít svo á,, að eg hafi ekki vikið eitt hænufet frá minni gömlu stefnu eða skoðun, en það hefir hæstv. ráðh. gert að ýmsu leyti, sem von er til, þar sem hann nú verður fyrir áhrifum annarra manna en þeirra sem hann hefir áður stuðst við. Hingað til hefir ekki verið að ræða um vantraustsyfirlýsing til ráðherra, og tregur mundi eg til að styðja hana enn sem komið er, því að gamlar taugar bresta seint, þótt þær geti bilað um síður.