13.08.1913
Neðri deild: 33. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í C-deild Alþingistíðinda. (845)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Framsögum. (Pétur Jónsson):

Ekki þurfti háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) að taka sér nærri orðið »taglhnýtingur«, sem eg nefndi. Eg hefi aldrei álitið hann vera það. Það er öllum ljóst, hvernig stóð á burtför hana úr Sambandsflokknum; hann gekk þar á undan og hepnaðist honum að hafa með sér nokkura góða Sambandsmenn; en hann hefði átt að fara einn. Eg kallaði þá ekki heldur taglhnýtinga, sem með honum fylgdust. En þegar einu litlu flokksbroti er tengt aftan við annað litið flokkabrot og því síðan aftan í ið þriðja, þá má með sanni segja, að þar séu taglhnýtingar taglhnýtinganna. Það má líka hafa önnur orð, virðulegri, um það. Slíkum tengslum má vel líkja við járnbrautarlest, þar sem hver vagninn er festur við annan, og vita þá allir, að lokomotivið er háttv. 1. þm. Rvk.

Háttvirtum þingmanni fanst mér ekki farast að vera að tala um taglhnýtinga — eg hefði aldrei verið neinn forustusauður. Það er alveg rétt, eg hefi aldrei verið forustusauður. En eg hefi heldur aldrei kært mig um það. Þar skilur okkur tvo. Mig hefir ekki langað til annars en að vera liðsmaður — og vera góður liðsmaður. Hvernig mér hafi tekist það, verð eg að eiga undir dómi annara — sjálfur á eg ekki atkvæði um það.

Háttv. þm. vildi véfengja orð mín, þar sem eg sagði, að allir Heimastjórnarmenn, nema tveir, hefðu gengið í Sambandsflokkinn. Sjálfur sagðist hann hafa gengið í flokkinn með skilyrði. Eg kannast við það, en hann var samt flokksmaður og skilyrðið var ekki þannig vaxið, að það veitti honum undanþágu frá »prógrammi« flokksins.

Þá veik háttv. þm. því að mér, að eg væri heldur ekki lengur í Sambandaflokknum. Eg kannast einnig við það. Eg tók það fram á Sambandsflokksfundinum í þingbyrjun, að eg væri með því, að flokkurinn héldi áfram og vildi vera í honum, en þó var það bundið því skilyrði, að hann héldi megninu af sínum félagsmönnum. En sú varð nú ekki raunin á.

Því hefir þegar verið svarað, sem háttv. þm. vék að mér, að eg hefði verið við riðinn stofnun Bændaflokksins hér í sumar. Eg hefi aldrei átt þátt í stofnun- Bændaflokksins. Eg fekk upptöku í hann þegar hann var stofnaður, en við stofnun hans var eg ekki riðinn. En þótt svo hefði verið, sem ekki var, þá álít eg, að mér hefði engin skömm verið að því.

Þá mintist háttv. þm. á framkomu mína í bankamálinu 1901, og heyrðist mér á honum, að það ætti að vera mér eitthvað óþægilegt, að á það væri minst. Eg man ósköp vel eftir því máli. — Eg gerði þar ekki annað en það, sem eg áleit sannast og réttast. Og það vill svo vel til — þó oft geti komið fyrir og virðist ekki nema eðlilegt, að menn geti iðrast fyrri framkomu sinnar að framkoma mín þá var öll svo, að eg er ánægður hana enn þann dag í dag. (Lárus H. Bjarnason: Hvernig var það með seðlaútgáfuna?). Eg hafði engin áhrif á það. En eg man eftir öðru, sem eg hafði mikil afskifti af, en gat ekki komið fram. Eg greiddi atkvæði með hluttöku landssjóðs í fyrirtækinu — en það var felt. Ef það ráð hefði verið tekið, þá er eg sannfærður um, að margt hefði farið betur en nú er raun á orðin.

Út af ræðu háttv. 2. þm. Rangv. (E. P.) skal eg geta þess, að það er misskilningur hjá honum, þar sem hann sagði, að eg hefði tekið ástæðu hans móti fasteignarskattinum gildar alment tekið. Þetta er alveg rangt. Eg mótmælti þegar þeim ástæðum, sem hann kom með móti frumv., t. d. að tíminn til að samþykkja það væri ekki heppilegur. Hitt hefi eg aldrei efað — og það hefi eg sagt — að þessar ástæður hafi verið nægar fyrir hann og að hann húfi greitt atkvæði eftir beztu sannfæringu. Og fyrst eg gat ekki sannfært hann, þá varð hann að greiða atkvæði eins og hann gerði, þótt sannfæring hans væri röng, því miður hefir háttv. þm. fylgt rangri sannfæringu í fleiri atriðum en þessu nú á þinginu. En að hann hafi gert það móti betri vitund, hefir mér aldrei dottið í hug.