08.07.1913
Neðri deild: 6. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í C-deild Alþingistíðinda. (85)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Skúli Thoroddsen:

Eg vil geta þess, að þó að eg sé einn af flutningsmönnum þessa frv., þá er það þó háttv. þm. Dal. (B. J.), sem hefir annast undirbúning þess að mestu leyti. Eg yfirfór frumvarpið að mjög fljótlega og vakti þá máls á, og fékk skotið inn í það nokkrum breytingum, einkum að því er rýmkun kosningarréttarins snertir; en tími Vanst eigi til nákvæmrar íhugunar, og því eru í frumvarpinu ýmis ákvæði, sem eg er ekki að öllu leyti samþykkur.

Í greindu skyni skal eg t. d. geta þess, að eg er ekki samþykkur því, að ráðherrann sé að eins einn. Ég tel þjóðinni það miklu happasælla, að ráðherrar séu þrír, enda landinu sáralítill kostnaðarauki, ef landritaraembættið, sem sjálfsagt væri, er látið falla úr sögunni, og að eins einum ráðherranna ætlað að hafa sömu launin sem núverandi ráðherra hefir, en hinir sömu laun og landritari, Allur kostnaðaraukinn yrði þá: einar 6000 kr. ári.

Ef ráðherrarnir eru þrír, þá felst þar í meiri trygging þess, að rangsleitni eða einræði verði ekki beitt af stjórnarinnar hálfu, heldur en í hinu, að ráðherrann sé að einn einn. Og ef þrír menn spjalla saman um landsins gagn og nauðsynjar, þá er þess meiri vonin, að af því spretti eitthvað gott þjóðinni til handa, en ef ráðherraun er að eins einn.

Eg bendi að eins á þetta, til þess að háttv. þingdeildarmönnum komi það síður óvænt, þó að eg finni mig knúðan til að koma síðar með nokkrar brtill., til þess að reyna, að koma frv. í það horf, að eg geti betur felt mig Við það.

Út af ræðu háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.), skal eg geta þess, að mér fór að því leyti ólíkt honum, að eg hafði eigi gert mér neina von um, að frumv. um breytingar á stjórnarakránni yrði lagt fyrir þingið af stjórninni, þó að gerðir þingsins 1912 gætu að vísu gefið mönnum fullan rétt til að vænta, að svo yrði. En eg átti enga von á því, að þeir, sem sigruðu við kosningarnar 1911, myndu þegar vilja leggja sig á höggstokkinn 1913, og af sömu ástæðu hefi eg þá og heldur ekki mikla von um, að mál þetta nái fram að ganga á þessu þingi. En það vinst þó, að það verður rætt og athugað, og ætti það þá að verða til góðs undirbúnings, svo a,ð það gæti þá gengið fram á þinginu 1915.

Það sem á hinn bóginn knúði mig til þess, að gerast einn af flutningsmönnum málsins, og eiga þannig þátt í því, að flýta fyrir framgangi þess, það er aðallega það, að eins og stjórnarskipunarlögum vorum nú er háttað, þá er fjölda manna, kvenfólki, Vinnuhjúum, mönnum úr húsmanna- og launamannastétt o. fl., varnað þess réttar, sem hver maður ber í sér, að hann á heimtingu á, engu síður en aðrir, sem fulltíða eru orðnir.

En vér höfum frá forfeðrunum, sem svo oft er hrósað, og ómaklega, auk annars siðleysis einnig tekið það siðleysið í arf, að níðast á lítilmagnanum, er um kosningar- og kjörgengisréttinn ræðir.

Menn gleyma því um of, er um löggjafarstörfin ræðir, að löggjafaraaldið er eigi vald, er ekki eigi sér takmörk, þvert á móti vald, sem takmörkum er bundið, og takmörkin eru þau, að lögin eiga að vera siðfræðilega rétt, þ. e. þau eiga hvorki að bjóða, né heimila, að það sé gert, sem rangt er, né heldur að leyfa, að það sé látið Viðgangast.

Hve mörg lög, sem því bjóða, eða heimila, að drepa mann, eða limlesta, — eður og bjóða, að beitt skuli t. d. lyginni, blekkingunni, eða undirferlinu, í því eða því skyni, þá verður það þó aldrei rétt. Siðferðislega ábyrgðin, og þá og siðferðislega hegningin, engu minni — enda enn meiri — þrátt fyrir lagaákvæðin, er athæfin heimiluðu.

En svo að eg snúi mér aftur að kosningar og kjörgengis-réttinum, þá ræðir þar um rétt, sem hver fulltíða maður, karl og kona, finnur sig eiga, eða veit sig eiga, — gjaldþrotamenn og ákærðir, eða sakfeldir menn, t.d., því eigi síður en aðrir. Lögin, er sumum varna þó þess réttar, eru því í raun og veru — eða í siðfræðilegum skilningi — alls engin lög.

Það, að slíkt ástand hafi svo verið frá gamalli tíð, gerir það og eigi betra, en æ verra, — skylduna, til að bæta þá úr, eða setja réttinn í hásætið, enn ríkari.

Á Bretlandi sjáum vér þess og dæmi, hversu ýmsar kvenréttindakonur þar hafa fundið sér rétt og skylt, að þola eigi óréttinn, — fundið sér skylt, að svo fast jafnvel alls einskis til að knýja fram réttinn.

Hér á landi hefir kvenfólkið til þessa gætt fullrar stillingar; en því ljótara er það þá og, að verða ekki við réttmætmætum kröfum þess, en láta það bíða ár frá ári, af því að ráðandi flokknum hentar ekki í svipinn, að gerðar séu breytingar á stjórnarskránni.

Eg finn svo ekki ástæðu til að fara frekari orðum um málið að svo stöddu, en vil leyfa mér að geta þess, að það mun æ hafa verið venja, þegar um stjórnarskrárbreytingar hefir verið að ræða, að þá hefir 7 manna nefnd verið kosin, en ekki 5 manna nefnd, eins og háttv. þm. Dal. (B. J.) stakk upp á. Eg vil því leyfa mér að gera það að till. minni, að kosin Verði 7 manna nefnd, enda mun ekki veita af því, einkum þegar litið er á, að hér í deildinni eru 4 flokkar, sem væntanlega vilja hver um sig koma einum eða tveimur mönnum í nefndina.