13.08.1913
Neðri deild: 33. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í C-deild Alþingistíðinda. (853)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg ætla að eins mjög stuttlega að svara háttv. þm. V.- Ísf. Hann var að tala um að eg hefði farið með Gróusögu, en játaði þó, að sagan væri sönn. (Matth. Ólafsson: Sagði Gróa aldrei satt?) Ekki var hún beint orðlögð fyrir það; og aldrei hefi eg heyrt sannar sögur nefndar Gróu-sögur.

Háttvirtur þingmaður sagði, að hatturinn minn hefði verið hér í þinghúsinu daginn sem skattamálin voru til 2. umræðu. Það er satt, að eg var hér kl. 9 um morguninn, en fór svo heim um kl. 10 til að borða og kom ekki aftur. En að eg hafi verið sendur heim eða að mér hafi verið fylgt upp eftir, eru hrein og bein ósannindi. Alls enginn var mér samferða, er eg gekk heim af fundi kl. 10 árdegis.

Hann sagði líka, að eg hefði sagt sér, að það hefði verið samþykt á flokksfundi Heimastjórnarflokksins að fella skattafrumvörpin. Það hefi eg aldrei sagt. En þegar hann spurði mig um, hvort þetta hefði verið samþykt, þá sagði eg þvert á móti, að það hefði ekki verið gert, nema ef það hefði verið gert á þeim eina fundi, sem eg kom ekki á. Þetta eru því hrein og bein ósannindi, sem hann sagði. Þingmaðurinn hefir annað hvort ekki skynbragð til að hafa rétt eftir töluð orð, ellegar hann hefir ekki meiri sannleiksást en þetta ber vitni um. — Það er annars furðu-óskiljanleg í þessu máli þessi mikla sorg yfir því, að. skattafrumv. skyldu falla hér í deildinni. En allir efri deildar mennirnir sögðu, að þau yrðu feld þar, ef þau kæmust þangað upp. Og í þingræðu taldi hv. þm. Húnv. (Tr. B.) sig hafa fulla vissu fyrir því.

Og hvers er þá að sakna ? Með því að fella þau hér, höfum við að eins tekið ómakið af efri deild — sparað tímann.