14.08.1913
Neðri deild: 34. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1153 í C-deild Alþingistíðinda. (870)

21. mál, íslenskur sérfáni

Framsm. (Lárus H. Bjarnason):

Eg lít svo á, að í raun og veru sé búið að greiða atkvæði um báðar breyt.till. háttv. þm. Dal. (B. J.) á. þgskj. 363, ef ekki að forminu til, þá að minsta kosti að efninu til. Meiri hluti nefndarinnar getur ekki aðhylat þær. Fyrri br.till. er ekki annað en uppvakningur frá fyrri umr., því að ef fyrri hluti orðsins »landafáni« væri tekinn framan af, þá mundi háttv. þm. segja, að fáninn væri sama. sem siglingafáni, enda þó að áherzlan liggi í rauninni á orðunum »hér á landi«, en siglingafána hefir háttv. deild kastað með nafnakalli. Hin breyt.till. fer fram á það, að óheimilt skuli vera að nota annan fána en þenna á húsum þeim hér á landi, sem við alþjóð eru kend. Meiri hlutinn lítur svo á, að í fyrsta lagi sé þessi br.till. óþörf, og í öðru lagi komi hún í bága við það, að einstaklingunum er ekki gert ið sama að skyldu. Hví á að skyldu opinberar byggingar til þessa, úr því að einstaklingar eru ekki skyldir til þess? Og svo er eg sérstaklega hræddur um, að slíkt ákvæði gæti orðið frumvarpinu að falli hjá hvorum sem er af þeim þáttum löggjafarvaldsins, sem enn eiga eftir að fjalla um það. Nú er frumvarpið líklegt til framgangs bæði í hv. Ed. og hjá h. h. konunginum, enda þó að núverandi flutningsm. vor hjá konungi mundi líklega ekki hafa sig mjög frammi. En verði frumv. breytt, er það lagt á hættu hjá báðum, konungi og Ed.

En það mundi verða fánahreyfingunni til ins mesta ógagns, ef það gengi ekki fram nú. Eg gat vel búist við því, að gengi frumvarpið ekki fram nú, þá færi líkt um fánamálið og um lotterimálið. Danir yrðu fyrri til að setja lög um allsherjar ríkisfána, fána, er tæki svo vel til Íslands sem til annara landa konungs, og þá mundi ráðh. segja líkt og í lotterímálinum, að hann væri sýkn í fánamálinu, þar sem allsherjarlög hefðu verið komin um flaggið, áður en íslenzka frumvarpið varð borið upp fyrir konungi. Og þá hefðum við danska flaggið hér, á sjó og landi, og varið af íslenzkum stjórnvöldum, en íslenzku litirnir væru gerðir útlægir um land alt og eltir með íslenzku lögregluvaldi. Eg veit, að háttv. þm. Dal. (B. J.) vill ekki styðja að slíku en svona gæti farið ef ekki er gætt hófs, sérstaklega úr því að ráðherra er svo óvingjarnlegur í garð fánans. Við höfum dæmið fyrir okkur í lotterímálinu. Má mikið vera sé ekki ætlast til að eins fari um fánann.

Eg legg svo málið á vald háttv. deildar, en biðja vil eg hæstv. forseta að hafa nafnakall bæði um breyt.till. og frumvarpið sjálft. Vona, að spá hæstv. ráðherra, um að frumvarpið falli hér í deildinni við 3. umræðu, rætist ekki; vona jafnvel að háttv. Ed. láti það ekki eftir ráðherra að lóga frumv.