14.08.1913
Neðri deild: 34. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1155 í C-deild Alþingistíðinda. (871)

21. mál, íslenskur sérfáni

Jóhannes Jóhannesson:

Eg hefi ekki greitt atkvæði við undanfarandi umræður um þetta mál og skal leyfa mér að skýra frá, hverjar ástæðurnar hafa verið til þess.

Eg er alveg samla minni hluta nefndar þeirrar, er skipuð var hér í deildinni, um það, að mjög litið sé unnið fyrir íslenzku þjóðina við að fá löggilt án »sérfána«, »heimafána«, »landsfána«, eða hvað sem það nú er kallað, og að hreyfing sú, sem vakin hefir verið hér á landi fyrir sérstökum íslenzkum fána, hafi alls eigi átt við slíkan fána, heldur verzlunar- og siglingarfána, er öll íslenzk skip gætu notað, hvar sem væri. Eg get því vel skilið, að þeir menn, sem vakið hafa þessa hreyfingu, eða orðið hafa snortnir af henni, líti svo á, að það sé í raun og veru ekkí annað en bjóða mönnum steina fyrir brauð, er farið er fram á að löggilda heimafána, eða landsfána, og þykist þess fullviss, að frumv. þetta myndi eigi fullnægja neinum þeirra, þótt það yrði að lögum.

Hins vegar er eg eins samdóma meiri hluta nefndarinnar um það, að það sé gersamlega ókleift, meðan engar bætur eru fengnar á sambandinu milli Íslands og Danmerkur, að fá sett lög um sérstakan verzlunar- og siglingafána fyrir Ísland, og vænti eg, að mönnum fari þá að skiljast, að eg læt mér í mjög léttu rúmi liggja, hvernig fer um þetta frv. á þessu þingi.

Háttv. mínni hluti hefir tekið það réttilega fram í nefndaráliti sínu, að eigi sé nein þörf á tilhlutun löggjafarvaldsins til þess að þeir Íslendingar, er það vilja, geti notað sérstakan heimafána. Þeir þurfa ekki annað en koma sér saman um það, og um gerð fánans. Bláhvíti fáninn hefir aldrei verið samþyktur af þjóð né þingi og eg tel mér óhætt að fullyrða, að fullt eins margir mundu eins vel óska, að t. a. m. fálkinn yrði lögleiddur sem heimafáni eins og hinn.

Atburður, sá er varð hér á höfninni 12. Júní, er alveg einstakur í sinni röð og vér þurfum alls eigi að óttast, að slíkt komi fyrir aftur, eftir upplýsingum þeim er hæstv. ráðherra hefir gefið hér í deildinni, og er því eigi nægileg ástæða fyrir löggjafarvaldið til þess að fara nú að setja fánalög hans eins vegna. Að því er gerð fánans snertir, ef landsfáni verður lögleiddur, get eg verið samdóma meiri hluta nefndarinnar um það, að hún skifti í sjálfu sér ekkí miklu, en það teldi eg þó mikinn kost, að sem mestur hluti þjóðarinnar gæti fallist á hana, og felt sig við hana. Það mundi auka að miklum mun vinsældir fánans. Hitt finst mér óviðfeldið að slá gerðinni fastri með lögum, áður en nokkur vissa er fyrir því fengin, að Hans hátign konungurinn geti fallist á hana. Fáninn er eins og háttv. framsögum. meiri hl. nefndarinnar (L. H. B.) tók svo skýrt fram við 2. umr., ekki tákn neins sérstaks þjóðernis, heldur sérstaks ríkis eða ríkíshluta og tekur að því leyti miklu frekar til stjórnenda ríkjanna en önnur mál.

Ef frumvarpið því ætti að verða að lögum, væri réttast að mínu áliti, að í því væri ákveðið, að gerð fánans skyldi ákveðin með konungsúrskurði. Gæti ráðherra þá, áður en hann bæri það mál upp fyrir konungi, verið búinn að afla sér upplýsinga um það, hver gerð fánans væri þjóðinni kærust, svo að konungi — væri það kunnugt, er hann ákvæði hana.

Eg get því ekki greitt atkvæði með þessu frumv. út úr deildinni, því að eg álít mjög lítið eða ekkert við það unnið.