14.08.1913
Neðri deild: 34. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í C-deild Alþingistíðinda. (872)

21. mál, íslenskur sérfáni

Framsögum. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Eg sit hér daglega og undrast orð manna í svo að segja hverju máli. Það er eins og það sé mjög djúpt innrætt mörgum háttv. þingmönnum, að Ísland sé óaðskiljanlegur hluti Danaveldis, og þó hafa þessir sömu menn lýst yfir því á þingi 1911, hver á sinn hátt, að þau lög, sem svo mæla fyrir, hafi ekki bindandi lagagildi hér á landi. Og samt benda enn öll orð þeirra og verk á þessa rótgrónu sannfæringu um það, að vér höfum ekki rétt til annars né frekara en þetta. Einkum má sjá þessa sorglegan vott í þessu fánamáli. Þegar þetta atvik kom fyrir, að óhæfa var höfð í frammi við íslenzka fánann, þá er að vísu hlaupið upp til handa og fóta, en til hvers? Til þess að löggilda alt annan fána, en þann, sem svívirtur var. Ef einhver slær mig á vinstri hendina, þá ætti eg að hugsa sem svo: Þetta skaltu ekki gera aftur, góðurinn minn, saga siðan af mér höndina og læt jarða hana, til þess að vera viss um að þetta komi ekki fyrir aftur. Sá fáni, sem tekinn var, og sá fáni, sem Íslendingar vilja hafa, er sýnilegt tákn þess, að þessi þjóð krefst þess fullkomna réttar síns, að eiga siglingarfána, hvort sem þess verður lengur eða skemur að bíða, að hún fái hann. Það var sá fáni, sem tekinn var og vegna hans sem þjóðin reiddist. En þegar á að fara að gera úr honum það sama, sem »fálkinn» var, gera hann að innlimunarvottorði, þá hætta menn að finna til hans vegna, því að þá er hann orðinn alt annað en það, sem meint var.

Háttv. framsögum. meiri hl. (L. H. B.) mátti ekki til þess hugsa, að orðið fáni stæði eitt út af fyrir sig, því að þá yrði það sama sem siglingarfáni. Já. Auðvitað gekk eg svo stutt í breyt.till. minni, sem unt var, og þá lá beinast við, að hafa þetta ótiltekið; til þess að taka ekki af oss rétt vorn með lögum. Með þessu er ekki annað gert, ef það verður samþykt, en að útvega Íslandi sérstakan fána, eins og önnur lönd hafa, en því er slept, að við um stundar sakir notum annarar þjóðar fána með fullu samþykki hennar. Síðar má svo, þegar þar að kemur, nema öll þau lög úr gildi, sem heimila oss þennan landsfána og standa á móti ótakmörkuðum rétti íslenzka fánans. Þetta er það sem liggur í breyt.till. minni, og þess vegna vil eg hafa um hana nafnakail og mundi hafa beðið um það, ef annar hefði ekki orðið fyrri til, til þess að það sjáist, hverjir vilji þetta nú og hverjir ekki. því að það mega menn vita, að þó að þetta frumv. verði samþykt hér óbreytt og staðfest, þá verður málið aldrei útrætt, fyr en þeir menn eru allir undir lok liðnir, sem leyfa sér að halda því fram, að við höfum ekki rétt til að eiga fánann hreinan og einan.

Þá er in síðari breyt.till. mín, sem hv. framaögum. meiri hlutans sagði um, að hún skyldaði menn til þess að nota íslenzka fánann á byggingum, sem væri alþjóðareign. Þetta er ekki rétt. Þar stendur að eina, að óheimilt sé að nota annan fána. Í því liggur, að það verði framvegis útilokað, að stjórnin reisi upp mastur undir fána, sem ekki kemur okkur við, eða að Alþingi noti merki, sem ekki á þar heima, og þetta mundi fyrirbyggja, að sett yrðu alríkislög um fána Danmerkur ríkis, sem líka ættu að ná til Íslands. En ef þessi landsfáni verður samþyktur hér án breytinganna. þá liggur undanþágan opin fyrir handa þessum byggingum. Þá mundi blakta þar framvegis inn »löglegi ríkisfáni«, eina og hæstv. ráðherra íslendinga svo meistaralega komst að orði og embættisbróðir hans, sá inn danski, í svari sínu. Þá væri þessi staðarfáni engin vörn. Hann mundi ekki sjást á opinberum byggingum.

Aðferðin er svona, að þegar Danir ráðast á fánann hér inni á höfn, sem þeir eiga engan rétt yfir, eins og háttv. framsögumaður meiri hlutans hefir sjálfur sagt, þá er hlaupið til að löggilda ataðarfána. En Danir munu fljótt sjá, hvað þeir eiga þá að gera, þegar búið er að friða fánann á þessum stað. Þeir vita, að hann er upptækur fyrir utan landhelgina. En næst koma þeir líklega og taka hann ofan af húsunum og verða þá um það nýjar akriftir, þar sem Danir og yfirvöld þeirra halda því fram, að þeir geri þetta eftir gömlum lögum, dönskum; þá verður Alþingi líklega næst að samþykkja sveitarfána og þegar hann er upptækur ger, þá afréttarfána og síðan fjallafána og nái Danir sér þá í truntur og takist að elta hann uppi, hvar sem þessir frelsisgarpar þá kunna að hafa falið hann, þá verður ekki annað eftir en að samþykkja skýjafána. og mundi það þykja akýjaglópslega að verið, ef eg ætti í hlut.

Háttv. 1. þm. N.-MúI. (Jóh. Jóh.) áleit að »fálkinn« væri betri. En þar skjátlast honum illilega, því að siðan hann varð stallbróðir grænlenzka bjarnarins í innlimunarmerkinu, sem Albjartur bjó til, hafa honum algerlega þorrið vinsældir hér á landi og nota hann þeir einir, sem neyddir hafa verið til þess að draga niður »Dannebrog«. Því að þeir vita, að Dönum er ekkert illa við hann. Og ekki mundi Knútur Berlín einu sinni ganga svo langt, að finna að þeirri meinleysu, þó að við hefðum þann bleðil í þessum óaðskiljanlega hluta Danaveldis til þess að tákna sérstöðu okkar í undirlægjuhættinum. Því að annað táknar hann ekki.

Sami háttv. þingmaður mintist á atburðinn, sem varð 12. Júní, og hélt, að alikt gæti ekki komið fyrir oftar, eftir skýrslu hæstv. ráðherra um það nýi. En þar skjátlast honum nú. Því að í svari danska ráðherrans er ekkert orð í þá átt, sem tryggi oss, að slíkt geti ekki komið fyrir oftar. Þar er þvert á móti haldið fram, að þetta hafi verið gert að lögum og að eina gert ráð fyrir að hitta Íslandaráðherra seinna til skrafs og ráðagerða.

Og einu gleymdi eg í gær, þegar talað var um þetta mál. Það er athugasemdin í niðurlagi bréfsins um það, að þetta sé smámál og vel farið at det ikke fører til noget videre. Í þessu liggur einmitt hótun, líklega um það, að taka önnur eins mál og þetta fyrir framvegis, svo sem hér væri um landráð að ræða. Það er ekki meira en þegar verið var að skrifa um mig í »Telegraphen« og fleiri blöð og ógna mér með hegningarlögunum dönsku, ef eg segði frá því, sem prentað er í íslenzkum alþingistíðindum.

Ef það ætti að kosta svo mikið, þá er líklega til einhver dönsk lagagrein, sem teygja má út yfir íslenzk fánamáls afbrot og það er það, sem býr undir þessum orðum í bréfinu.

Mér er það ljúft, eins og eg sagði áðan, að nafnakall verði viðhaft, því að þá er það sýnt, að þeir sem fella br.till mína, ina fyrri, setja nafn sitt undir það, að vér höfum ekki rétt til meira en þessa sérfána, og þeir sem eru móti inni síðari breyt.till., vilja greiða »Dannebrog« veg á opinberar byggingar vorar, eins fyrir því, þótt staðarfáninn verði samþyktur.

Ef þeir segja já við þeim, hafa þeir þar með lýst yfir vilja sínum, að minsta kosti að því leyti, að þeir vilji ekki að lögin fari frá þinginu nema þau feli í sér fulla kröfu um þann fána, er þjóðin vill fram hafa. Og þó að það verði ekki annað en yfirlýsing, er það betra en ekkert, því að það er drengilegt svar við þeirri árás sem á okkur var gerð. Þar með féllu niður allar röksemdir meiri hlutans, sem hann því miður hefir látið prenta, því að þær verða ekki skafnar út úr þingtíðindunum. En þær yrðu sem ótöluð orð, ef þetta yrði samþykt.

Með þeim formála, sem eg hefi nú sagt, vil eg láta bera upp breytingartillögur mínar og greiða atkvæði um þær með nafnakalli.