14.08.1913
Neðri deild: 34. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í C-deild Alþingistíðinda. (874)

21. mál, íslenskur sérfáni

Framsögum. meiri hl. (Lárus H. Bjarnason):

Háttv. þingm. Dal. (B. J.) ætla eg ekki að svara. Við höfum áður haft tækifæri til að deila um þetta efni, og sundið á milli okkar er svo mikið, að það er óbrúandi.

Mér kom engan veginn á óvart það sem háttv. 1. þingm. N: Múl. (Jóh. Jóh.) sagði, eftir að hv. ráðherra hafði sagt mér, að hann hefði von um, að frumvarpið félli í deildinni. Hins vegar hefði mér átt að koma meir á óvart yfirlýsing hv. þm. Vestm. (J. M.), sem greiddi atkvæði með frumvarpinu til 3. umr., en það er líklega af sömu ástæðu. Maður veit venjulega, hvar þeir herrar lenda í málum, sem eru ráðherra áhugamál.

Háttv. þm. N.-MúI. (Jóh. Jóh.), sem jafnframt er formaður Sambandsflokksins, sagði, að litið væri unnið með því að Samþykkja frumvarp um landafána, það væri að bjóða mönnum steina fyrir brauð, við þyrftum engin lög um slíkan fána, við mættum alstaðar flagga með honum í friði, og engin hætta væri á því, að sá atburður, sem hér gerðist 12. Júní, kæmi fyrir aftur; en þetta er því miður alt saman rakalaust. Mér er alveg óskiljanlegt, hvernig hann, jafnskýr maður, getur talað svo frá eigin brjósti. Atburðurinn 12. Júní og afskiftaleysi landstjórnar og bæjarstjórnar er einmitt skýr vottur þess, að líti vora brestur lögvernd, enda svo langt frá, að bréfaskifti ráðherra vors og forsætisráðherrans verji oss fyrir slíkum tiltækjum framvegis, að það mætti miklu fremur búast við endurtekningu, þar sem báðum kemur hjartanlega vel saman um, að atburðurinn 12. Júní hafi verið »lítilfjörlegur«, og danska flaggið eitt sé »löglegt« flagg hér. Dönsk blöð og fleiri mikilmenni Dana hafa og tekið í sama strenginn, t. d. forstjóri flotadeildarinnar, enda ekkert líklegra en að útlendingar geri svo, þegar ráðinn forvígismaður þjóðarinnar, ráðherra, gerir alt sem í hana valdi stendur hér heima til þess að gera rétt voru sem allra minstan. Það er einmitt in mesta uppreian, sem Við getum fengið — úr því sem komið er in einasta — ef við lögfestum slíkan fána. Þá megum við veifa honum ekki eingöngu á þurru landi, heldur og að sjálfsögðu á íslenzkum höfnum og jafnvel í landhelgi, eða með öðrum orðum, svo langt sem valdsvið okkar nær. Þá ættum við lagalega heimtingu á vernd lögreglu og dómstóla, ef fánanum væri misboðið á líkan hátt og gert var 12. Júní. Er þetta einskis vert?

Háttv. þm. (Jóh. Jóh.) Sagði, að gerð fánans væri lítils virði, en vildi þó breyta til, og fela konungi að ákveða gerðina með tilskipun og þá sjálfsagt eftir ráði stjórnarinnar eða ráðherrans, sem þá færi með völdin. Eg legg nú að vísu heldur ekki mjög mikla áherzlu á gerð fánans, en mér finst, að eftir því sem á stendur megi hún ekki vera önnur en ákveðin er, enda frumvarpið komið of langt til þess að breyta til. Það nær engri átt, að hér sé gengið fram hjá konungi. Það gildir sama aðferð um það og öll önnur þingmannafrumvörp.

Eg finn svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekra um málið. Nafnakalls hafði eg beiðst, svo að það var óþarfi af háttv. þm. Dal. (B. J.) að tala frekar um það.