14.08.1913
Neðri deild: 34. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í C-deild Alþingistíðinda. (878)

21. mál, íslenskur sérfáni

Kristinn Daníelsson:

Við 2. umræðu þessa máls greiddi eg hvorki atkvæði með né móti tillögum minni hlutans. Eg reyndi þó að færa ástæður fyrir því, hvers vegna eg gerði það, því að eg vildi ekki láta telja mig af handahófi með meiri hlutanum. Ástæður mínar voru þær, að eg álít, að við í sjálfu sér eigum lagalegan og siðferðislegan rétt á siglingafána og þess vegna gat eg ekki fengið míg til að greiða atkvæði á móti minni hlutanum. Hins vegar er það, að önnur þjóð heldur með valdi hins sterkara réttinum fyrir okkur og þess vegna áleit eg ekki heppilegt, að greiða tillögu minni hlutans atkvæði að svo stöddu, þó að eg hefði mikla tilhneigingu til að fylgja honum að málum og halda þar með fram rétti landsins Háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) sagði, að um fyrri breytingartillögu háttv. þm. Dal. (B. J.) hefði verið greitt atkvæði við 2. umr. og hún þá feld. Eg get ekki litið svo á, enda hefir hv. forseti ekki tekið það svo. Eg mun vel geta greitt atkvæði með þeirri tillögu af þeim ástæðum sem eg hefi nú greint, því að hún fer ekki fram á annað, en að við lögleiðum fána — ótiltekinn hvers konar fána — sem við getum síðar notað svo viða og að svo miklu leyti sem við fáum framgengt. Aftur sé eg mér ekki fært að greiða atkvæði með víðari breytingartillögu hv. sama þm. (B.J.). Mótbárur hæstv. ráðherra gegn henni voru ljósar, og að mínu áliti fullkomlega réttmætar. Þessa grein vildi eg gera fyrir atkvæði mínu, áður en til atkvæða er gengið.

Þá ætla eg að eins að víkja lítillega að gerð fánans, sem nokkrir háttv. þm. hafa minst á. Mér finst það ekki geta komið til nokkurra mála, að nokkur önnur gerð verði ákveðin, en sú sem fáninn hefir þegar fengið. Það er sá fáni, og enginn annar, sem álitinn er íslenzkur fáni. Það er sá fáni, sem okkur dettur alt af í hug þegar íslenzkur fáni er nefndur. Og það er sá fáni, sem tekinn var af piltinum hérna á höfninni, og varð til þess að Íslendingar gátu þó einu sinni orðið alveg sammála, ef til vill í allra fyrsta sinni síðan 874. Að fálkamerkið verði tekið upp sem fáni, það kemur ekki til nokkurra mála.

Áður en eg sezt niður get eg ekki stilt mig um að minna háttv. deild á, að þjóðin væntir þess af þinginu og ekki sízt af þessari deild — þjóðkjörnu deildinni — að hún skiljist ekki svo við þetta mál, að ekkert hafi verið gert í því. Eg hygg, að kjósendur verði óánægðir með okkur, er við komum heim í haust, ef sú verður raunin á.