14.08.1913
Neðri deild: 34. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í C-deild Alþingistíðinda. (882)

21. mál, íslenskur sérfáni

Framsögm. meiri hl. (Lárus H. Bjarnason):

Hæstv. ráðherra minnist oft á vasabækur. Honum væri nær að halda vasabók og skrifa í hana að minsta kosti það, sem hann segir sjálfur, ef vera kynni að hann myndi þá eftir einhverju af því síðar.

Hann er altaf að klifa á því. hvar eigi að nota flaggið. Það er undarlegt um jafn skýran mann, að honum skuli ekki skiljast, að flaggið á að mega nota innan íslenzka valdsvæðis, og það orðatiltæki þýðir þurt land, hafnir og landhelgi.

Hæstv. ráðherra gat þess, að fánafrumvarpið kæmi í bága við gildandi lög, líklega 2. gr. skásetningarlaganna. Eg tel líklegt, að 2. gr. eigi að eina við flagg utan landhelgi, en þó svo væri ekki, þá veit eg ekki betur en að skrásetningarlögin séu íslenzk lög sem íslenzkt löggjafarvald getur breytt, svo að önnur verði, innan endimarka þess. Eg man ekki eftir neinu forboði í nokkrum lögum móti öðru flaggi en danska flagginu, hvort heldur á íslenzkum höfnum, eða í landhelgi. Í skrársetningarlögunum frá 13. Desember 1895 stendur það að minsta kosti ekki. Þar er ekkert tekið fram um hafnir eða landhelgi, skal eg heita á hæstv. ráðherra þeirri upphæð, sem hann sjálfur tiltekur, ef hann getur sýnt mér annað. Annars væri nógu fróðlegt að vita, með hverju ráðherra ætlar að verja frumvarpið fyrir Hana hátign konunginum komist það svo langt, jafn ólatur og hann hefir verið á að spilla fyrir því hér á þingi.