08.07.1913
Neðri deild: 6. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í C-deild Alþingistíðinda. (90)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Skúli Thoroddsen:

Út af ræðu hæstv. ráðherra og í framhaldi af ræðu háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.), skal eg geta þess, að rökstudda dagakráin, sem samþykt var á aukaþinginu 1912, ber það með sér, eins og háttv. 1. þingm. Rvk. sýndi og fram á, að það var að eins sambandamálsins vegna, er breyting á stjórnarakránni var ekki látin ganga fram það árið. En tilefnið til þess, að þessi rökstudda dagskrá kom fram, og var samþykt, var það, að málið var komið í óefni hér í deildinni.

Meiri hluti stjórnarskrárnefndarinnar hafði komið fram með þingaályktunartillögu, og svo kom háttv. 1. þm. Rvk. með aðra, þ.e.: ráðandi flokkurinn á þinginu var klofinn, — gat eigi komið sér saman um málið, og dagskráin var því eini vegurinn, til að komast út úr ógöngum.

Þar sem hæstv. ráðherra sagði, að máli þessu lægi ekkert á, þá er það ekki skoðun fjölda karla og kvenna á landi voru, þ. e. þeirra, sem finst sér gert rangt, enda verður hver rangsleitnin, eða réttartröðkunin, æ því verri, sem lengur er beitt, sbr. þá og það, að því oftar sem einhver stelur; því harðar er honum refesð. — Og alveg eins er nú og ástatt hér. Því lengur sem þingið dregur að rýmka kosningarréttinn, og yfir höfuð að breyta því í stjórnarskránni, sem miður fer, því verra verður það.

Að því er snertir ræðu háttv. l. þm. Rangv. (E. J.), er taldi oss flutningsm. frumvarpsins vilja opna þjófum og bófum leið inn í þingsalinn, þá skal eg láta þess getið, að það var eg, sem átti þá, tillöguna, að nema burtu úr stjórnarskránni skilyrðið, er hér að lýtur, enda lít eg svo á, sem þjóðfélagið bresti allan rétt til þess, að svifta nokkurn kosningarrétti, þótt honum hafi einhvern tíma orðið það á, að fremja eitthvert þeirra lagabrota, sem hegningarlögin og almenningsálitið taka hart á, þar sem maðurinn ber þó engu að siður ábyrgð á því, sem í þjóðfélaginu gerist, — losar sig eigi við siðferðisábyrgðina — sem á öllum fulltíða meðlimum þjóðernisins hvílir —, þótt hann fremji glæp. — Hver, sem veikur er, eða bágt á, eða illu er beittur af öðrum, finnur og veit sig eiga tilkall til allra.

Annars lít eg svo á, sem eigi muni mjög hætt við því, að kosnir verði á þing þeir sem brotlegir hafa að mun orðið gegn hegningarlögunum, nema alveg sérstaklega hafi staðið á, þegar brotið var framið, eða mennirnir séu svo sérstökum hæfileikum gæddir, að það sé tjón fyrir þjóðfélagið að fá ekki að njóta starfskrafta þeirra eða vitsmuna.

Að því er til hegningarvaldsins kemur, eða notkunar þess, má annars benda á, að þar er um arf frá forfeðrunum að ræða, — arf, sem kristninni enn hefir ekki tekist að útrýma eða hefta sem skyldi, enda þótt Kristur segi sjálfur: Hefnið yðar eigi sjálfir, því að eigi er hegningin, ef rétt er skoðað, annað en hefnileikur af þjóðfélagsins hálfu.

Hitt, að það takmarkið náist, sem ætlast er til, þ. e. takmörkun glæpa, tel eg mjög hæpið.

Benda má enn fremur á það, að aldrei er þjóðfélagið sjálft án saka, er glæpur er framinn. — Átti það eigi að fyrirbyggjast, að glæpir yrðu framdir? Átti eigi hver og einn að verndast þannig, sem unt var, gegn ástríðunum, sem hjá honum búa, eða þó hjá fjöldamörgum í meiri eða minni mæli, að eigi væri honum unt að fremja?

Að glæpurinn gat framinn orðið, stafar því eigi sjaldan, ef eigi einatt, af því, að eftirlitsskyldunni var eigi fullnægt sem skyldi af þjóðfélagsins hálfu.

Ýmis brot, sem harðlega er hegnt fyrir, bera og oft og tíðum ekki vott um eins lágan karakter, þ. e. hugsunarhátt, eina og mörg lygin, blekkingin, undirferlið eða heiptaryrðin, sem látið er þó æ óhegnt.

Maður, sem t. d. hefir einhvern tíma rekið höndina inn um búðarglugga og gripið þar eitthvað, til að seðja hungur sitt eða sinna, og verður síðan uppvís að því eftir mörg ár, getur og þá þegar hafa áður orðið að þola margfalda hegningu, hugarangur eða mótlæti ýmis konar, og verið orðinn sá, er eigi vill á nokkurn hátt vamm sitt vita, og sjá þá allir, hve afarranglát og al-tilgangslaus hegningin er.