14.08.1913
Neðri deild: 34. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í C-deild Alþingistíðinda. (901)

104. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans að gefa út (serie) bankavaxtabréfa

Framsögum. (Björn Kristjánsson):

Þegar um það er að ræða, að stofna nýja veðdeild og að sjá fyrir því, að bréf hennar seljist vel á útlenda markaðinum, þá verður að horfa til tveggja handa, til þeirra, sem taka lánin, og þeirra sem kaupa verðbréfin. Þetta hefir nefndin líka reynt að gera. Hún hefir reynt að haga því þannig, að tiltækilegt verði að selja bréfin, og því að eins er hægt að taka lán, að verðbréfin seljist. Hér dugir því ekki að eins að lita á hag lántakenda, heldur verður líka að sjá fyrir því, að bréfin seljist. Það er ekki til neins að fara að stofna veðdeild, nema að auðið sé að sjá fyrir því að bréfin seljist.