15.08.1913
Neðri deild: 35. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í C-deild Alþingistíðinda. (914)

30. mál, leynilegar kosningar til bæjarstjórnar í kaupstöðum

Framsm. (Jón Ólafsson):

Herra forseti ! Eins og nefndarálitið ber með sér, hefir nefndin farið varlega í að gera breytingar á frumv. Málið er komið frá Ed. og hefir þar fengið góða meðferð. Meiri hluti nefndarinnar ræður deildinni til að samþykkja frumv. með þeim fáu breytingum, sem hún hefir gert á því. Það eru ekki nema 2 efnisbreytingar og svo 3 orðabreytingar.

Fyrsta breytingartill. nefndarinnar er við 3. gr. frumv. og er að eins orðabreyting. Önnur breytingartillagan við sömu grein er efnisbreyting. Þar hafði Ed. ákveðið að kjósandi, sem fyrir sakir sjónleysis eða annarar líkamsbilunar, getur eigi greitt atkvæði sjálfur, skuli geta kvatt hvern hann mann, sem honum þóknast, til að aðstoða sig við atkvæðagreiðsluna.

Við höfum gert grein fyrir því í nefndarálitinu, hvers vegna við viljum breyta þessu. Ef kjósandi, sem ekki þættist geta greitt atkvæði sjálfur, mætti taka hvern sem er, til að greiða atkvæði fyrir sig, væri með því greiddur vegur fyrir mann, sem vildi selja atkvæði sitt, til að láta kaupanda vita, hvern hann kysi. Vitaskuld má segja, að einhver úr kjörstjórninni gæti líka verið notaður til að grenslast eftir atkvæðum manna; en þá er á það líta, að það eru tiltölulega svo fáir og valdir menn í kjörstjórninni, að hættan er minni. Sömuleiðis er kjörstjórnin bundin þagnarskyldu með eiði. Eg álít því tryggara fyrirkomulag, það sem nefndin hefir atungið upp á, að aðstoðarmaður lasburða manns við kosninguna skuli tekinn úr kjörstjórninni.

Þá er breytingartillagan við 6. gr. Hún fer að vísu að eins fram á að smækka brot, svo að minki mismunurinn, sem þar er um að ræða, svo að áhrif atkvæðanna á kosninguna fari eftir réttu hlutfalli með meiri nákvæmni.

Vona eg að menn sjái, að breytingartillögur nefndarinnar miða einvörðungu að því, að tryggja það enn betur, að tilgangi frumvarpsins verði náð.

Vona eg, að háttv. þingdeildarmenn fallist á þessa breytingartillögu, sem miðar ekki til annara en að koma á meiri nákvæmni og réttlæti við kosningarnar.

Minni hlutinn hefir komið fram með breytingartillögu um, að ekki megi reikna einum lista nafn, sem stendur á öðrum lista. Meiri hlutinn litur svo á, að þessi breytingartillaga sé komin af misskilningi á anda laganna. Í sjálfu sér miðar ákvæðið í frumvarpinu til að gefa einstaklingsatkvæðinu meira gildi, án þess að raska nokkru.