15.08.1913
Neðri deild: 35. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í C-deild Alþingistíðinda. (919)

30. mál, leynilegar kosningar til bæjarstjórnar í kaupstöðum

Framsögum. meiri hl. [JÓn Ólafsson]:

Herra forseti! Það sem hér er gert í þessum lögum, er að sjá um, að hver flokkur, sem sendir lista við kosningarnar, nái þeirri tölu kosinna fulltrúa, sem honum ber.

Eg held að það geti varla komið til mála, það sem háttv. þingm. Dal. var að segja, að með þessu móti kæmust þeir að, sem flokkarnir vildu ekki hafa. Því að eg gæti ekki hugsað mér þann flokk, sem setti mann á sinn lista, þann sem hann vildi ekki hafa. Að minsta kosti væri sá flokkur þá ekki vaxinn því að semja lista og semdi þá lista gagnstæðan tilgangi laganna.

Setjum t. d. að við kosningar kæmi fram 5 listar og að einn listinn fengi 3 menn kosna, en á honum stæði 7. maður í röð, sem væri svo vel þokkaður, að hann væri settur líka á lista allra hinna flokkanna. Ætti hann þá ekki að njóta þess að vissu leyti, að hann er í svo miklum metum, að allir flokkar treysta honum.

Eg get ómögulega skilið það hjá háttv. þingmanni, að menn setji þá á listana, sem þeir vilja ekki hafa. Þeir mundu ekki setja þá þar, nema þeir vildu hafa þá hvern um sig. Um töluröðina á hverjum lista gerir aftur ekkert til, ef hver listi fær eina fulltrúa-tölu rétta.

Eg verð að halda fast við frumvarpið, m. a. af því, að mér er kunnugt um, að sterkir flokksmenn hafa kosið annan lista en síns flokks, af því að sá maðurinn, sem þeir vildu helzt, stóð ofar á öðrum lista en þeirra eigin.