15.08.1913
Neðri deild: 35. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í C-deild Alþingistíðinda. (928)

30. mál, leynilegar kosningar til bæjarstjórnar í kaupstöðum

Kristinn Daníelsson:

Það er ekki svo gott að átta sig á þessu máli. Samt hygg eg að háttv. þm. Dal. (B. J.) muni hafa rétt fyrir sér í reyndinni.

Þó að kjósendur megi raða á listunum, þá mundu þeir alment ekki nota það. Flokkarnir mundu hver hafa sinn lista og fylgjast að um hann óbreyttan yfir höfuð og ætlast til að menn næðu kosningu eftir þeirri röð, sem á honum er. En þessi röð gæti haggast, ekki fyrir það, að kjósendur þess lista breyttu röðinni, heldur fyrir áhrif atkvæða á öðrum listum, ef þau eru talin með. Segjum að öðrum flokknum sé illa við nr. 1 á A. listanum og vilji heldur nr. 2 á þeim lista, þá gætu þeir tekið hann á sinn lista til þess að hann fengi þar nokkur atkvæði, sem gætu orðið til að breyta röðinni og tilgangur hlutfallskosningarinnar ekki nást. Yfir höfuð eiga listarnir ekki að geta gripið í og raskað hver annars röð, heldur á hver að hljóta kosning eftir þeirri röð, sem hann er í á sínum lista eða hlýtur fyrir umröðun þeirra kjósenda, er listanum greiða atkvæði.