15.08.1913
Neðri deild: 35. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í C-deild Alþingistíðinda. (934)

108. mál, strandferðir

Framsögumaður (Valtýr Guðmundsson):

Þetta frumv. er komið frá samgöngumálanefnd Nd. og er árangur athugana og yfirvegunar hennar. Þessi nefnd hefir rætt málið bæði ein sér og sömuleiðis með samgöngumálanefnd Ed. Þetta mál, samgöngumálið, sérstaklega strandferðirnar, hefir veriðmesta vandræðamál í háa tíð, og úrlausnin á því alt af orðið sú að flýja á náðardyr útlendra félaga til þess að fá viðunanleg kjör. Það hafa verið vandræði að þurfa að sæta því, ekki að eins fjárhagslega, heldur hafa og mörg óþægindi af því stafað, að útlend félög hafa verið fengin til að takast ferðirnar á hendur, t. d. má nærri geta, hver óþægindi eru að ferðast með skipunum fyrir alþýðfólk, sem ekki getur talað við þjónustufólkið á skipunum og fengið þá aðhlynning, sem þörf er á við veikt fólk. Bæði frá þessu sjónarmiði og eins frá fjárhagslegu sjónarmiði, þar sem alt tapið lendir á oss sjálfum í raun og veru, hefir nefndinni verið það ljóst, að brýn þörf væri að koma ferðinni á innlendar hendur. Það er einsætt, að fyrir eyland er það lífsspursmál að eiga einhverjar fleytur, bæði að því er snertir ferðirnar kringum landið sjálft og ferðirnar til og frá landinu. Þegar vér rekjum sögu landsins, þá leynir það sér ekki, — að það hefir orðið landinu mest til hnekkis að eiga engin skip. Það hefir verið sagt, að Íslendingar hafi átt skip og annast siglingar sínar á söguöldinni. En þetta er ekki satt nema að nokkru leyti. Íslendingar áttu að vísu skip í förum, en meginsiglingarnar voru í höndum útlendinga. Verst var þó landið komið þegar siglingarnar hurfu alveg úr höndum Íslendinga og þeir áttu enga fleytu framar. Þessu ríður á að kippa í lag. Og niðurstaðan hjá nefndunum hefir orðið sú, að þetta væri markið, að koma siglingum vorum á innlendar hendur, fyr yrði samgöngunum ekki komið í gott horf. Báðar nefndirnar, sem skipaðar eru 10 mönnum eða 1/4 hluta þingsins, hafa orðið einhuga um þetta mark, að samgöngur á sjó kæmust á innlendar hendur. En þá er spurningin, á hvern hátt það eigi að verða. Nefndunum kom saman um það, að bezt væri að skipin yrðu á prívatmanna höndum. Þótti nefndarmönnum það ljóst, að skipaútgerð rekin á landsins kostnað yrði ekki eins arðvænleg og ef hún væri rekin á kostnað prívatmanna. Það er nú einu sinni svo, að eigingirnin er meginfjöðrin í framkvæmdum manna.

Reynslan sýnir, að menn leggja sig ekki eina fram í fyrirtækjum annara og í fyrirtækjum sjálfra sin. Prívatmenn eiga mest á hættu sjálfir, ef illa gengur, en launaðir menn eiga minna í hætt unni, þótt tap sé að fyrirtækjum, þeim sem þeir eiga að sjá um. Fyrir því hölluðust nefndirnar að því að fá prívatmenn til þess að takast á hendur strandferðirnar. Og með því að nefndirnar hafa viljað styðja þá hreyfing, sem komin er hér á landi í þá átt að gera millilandasamgöngurnar innlendar, þá hefir og þótt takanda í mál að fá félagið, sem er að myndast í þeim tilgangi, til þess einnig að taka að sér strandferðirnar. Var því formönnum nefndanna falið að leita fyrir sér um það við bráðabirgðastjórn félagsins, hvort það mundi vilja takast á hendur strandferðirnar. Svar bráðabirgðastjórnarinnar er prentað í nefndarálitinu, og sézt af því, að forgöngumennirnir lýsa yfir því, að það hafi verið hugsun þeirra frá upphafi, að félagið tæki líka að sér strandferðirnar seinna meir. Hér er ekki um neina bindandi samninga eða loforð að ræða, enda er ekki von til þess, stjórnin hefir ekki vald til þess, þar sem félagið er enn óstofnað. Hins vegar lýsir þessi bráðabirgðastjórn yfir því, að hún muni mæla með því, að félagið takist strandferðirnar á hendur. Og það er víst, að þessi bráðabirgðastjórn félagsins mun hafa talavert mikið að segja hjá félaginu, hvort sem nokkurir úr henni komast í stjórn þess eða ekki, sem þó er líklegt. En þetta bréf stjórnarinnar er mjög varkárlega orðað. Stjórnin segist vilja leggja til með því, að félagið taki að sér strandferðirnar, ef útgerð félagsins reynist vel. Í því liggur, að félagið muni ekki taka að sér strandferðirnar fyr en reynsla er fengin um millilandaferðirnar. Þar með er útséð um, að félagið geti tekið að sér strandferðirnar fyrst um einn. Það er gert ráð fyrir því, að félagið geti ekki tekið til starfa fyr en í árabyrjun 1915, og með því að félagið mun ekki taka að sér strandferðirnar fyr en reynsla er kominn um hinar ferðirnar, þá er ekki að búast við, að félagið taki að sér strandferðirnar fyr en í fyrsta lagi 1916. Þar sem það var nú niðurstaða nefndanna, að koma strandferðunum á innlendar hendur, jafnvel þó ekki tækist samningar við hið væntanlega eimskipafélag Íslands, þá tók nefndin til íhugunar, hver leið væri að komast samt að því marki. Og sá þá enga aðra leið en landssjóðsútgerð. Nefndirnar voru. þó í vafa um það í fyrstu, hvort það væri gerlegt. En nefndirnar höfðu fengið upplýsingar um strandferðirnar, sbr. fylgiskjölin við nefndarálitið. — þar af kom þó flsgskj. 3 ekki fyr en nefndarálitið var samið — þá varð niðurstaðan sú, að ekki mundi hættulegt fyrir landssjóð að taka að sér útgerðina. Raunar má gera ráð fyrir því, að áætlun nefndarinnar reynist ekki alveg rétt og að landssjóður verði fyrir meiri halla. En þess er að gæta, að hallann af strandferðunum höfum vér sjálfir jafnan orðið að borga í raun réttri, hver sem hann er. Að því athuguðu þótti oss, hvernig sem veltur, réttast að láta landssjóð taka að sér ferðirnar, í stað þess að greiða útlendingum stórfé fyrir óviðunanlegar ferðir, sem landið hefir ekkert yfir að segja, nema hvað stjórnin hefir ofurlítið getað haft áhrif á ferðaáætlanirnar. Með þessari tillögu nefndanna er sá vinningur, að skipin yrðu innlend með áhöfnum, sem tala landsins eigin tungu.

Á þessu stigi málsins skal eg ekki fara út í einstök atriði. En geta vil eg þess, að nefndirnar búaat ekki við, að útgerðin geti byrjað fyr en 1916. Því verður að gera bráðabirgðaráðstafanir þangað til. Þær hafa nefndirnar hugsað sér þannig, að stjórninni væri veitt heimild til að leigja skip Þau þyrftu ekki að vera dýr né mjög vönduð; menn mundu sýna þolinmæði svo stuttan tíma, sem hér er um að ræða, þótt strandferðirnar yrðu ekkí eins fullkomnar og æskilegt væri.

Geta vil eg þess viðvíkjandi frumv., að þótt það þingskapanna vegna sé borið fram af samgöngumálanefnd Nd., þá er það í rauninni sameiginlegt frumv. nefndanna í báðum deildum. Skal eg með leyfi hæstv. forseta lesa upp bréf frá samgöngumálanefnd Ed.

»Samgöngumálanefnd Ed. lýsir yfir því, að hún er eindregið fylgjandi því frumv. til laga um strandferðir, sem samgöngumálanefnd Nd. ber upp. Hafa nefndirnar unnið að þessu frumv. í sameiningu og orðið ásáttar um það í öllum greinum.

Hins vegar hefir ekki getað komið til mála — eftir þingsköpunum — að nefndirnar semdu sameiginlegt nefndarálit, og fyrir því ber Ed. enga ábyrgð á nefndaráliti Nd. nefndararinnar, eða framsögu málsins þar, en mun trúlega fylgja frumv., ef það verður samþykt í Nd. og færa sín rök fyrir því í sérstöku nefndaráliti.

Þetta er Samgöngumálanefnd Nd. heimilt að gera háttv. Nd. kunnugt.

Ed. Alþingis, 11. Ágúst 1913.

G. Björnsson Sig. Eggerz. formaður.

Til samgöngumálanefndar Nd.«

Þetta frumv. er þannig fram komið eftir samkomulagi beggja nefnda. Eru þær einhuga að fylgja frumv. fast fram og koma síðar með br.till. við fjárlögin.

Viðvíkjandi áætlunum skal eg að eins geta þess, að nefndin hefir áætlað kostnaðinn í öllum greinum mikið hærri en kaupm. Thor E. Tulinius. Hann áætlar kostnaðinn við hvert skip mánáðarlega ekki nema 7500 kr., en nefndin áætlar hann 9413 kr. Og þar sem Hendriksen formaður Thorefélagsins áætlar nægilegt til fyrningar 5%, hefir nefndin áætlað 10%. Skipið borgar sig þannig á 10 árum í stað þess að nægilegt mun vera að borga það á 20 árum, þar sem um verzlunarskip er að ræða. Um fiskiskip — botnvörpunga — er öðru máli að gegna, og því er það vani að láta 10% ganga til fyrningar.

Þá er enn eitt atriði, sem er mjög mikilsvert. Nefndin hefir áætlað hvert tonn af kolum á 30 kr., þar sem Tulinius gerir ekki ráð fyrir meiru en 25 kr. Þetta gerir mikinn mismun. Kolaverðið og fragt á kolum er nú svo hátt, að engin líkindi eru til að það haldist. Sparast þannig mikið fé, þegar fram í sækir, ef ekki straks eftir fyrsta árið. Eg skal geta þess, að kolanefndin gerði ráð fyrir, að við gætum alt af fengið kol fyrir 20 kr. tonnið. Hefði þetta verið rétt, mundu hafa sparast 10 kr. á hverju tonni og nemur það eigi lítilli upphæð, eins mikið og skipin þurfa að nota af kolum.