15.08.1913
Neðri deild: 35. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í C-deild Alþingistíðinda. (938)

108. mál, strandferðir

Björn Kristjánsson:

Út af því sem hæstv. ráðherra sagði um bréf Hendriksens, skal eg leyfa mér að minna á, að það liggur líka annað bréf fyrir frá Tuliniusi. (Ráðherrann: Eg nefndi það líka). Það bréf sýnir nákvæmlega, hvað útgerð Austra og Vestra hefir kostað, og er miklu ábyggilegra en hitt bréfið, enda marka eg litið hvað herra Hendriksen segir. Hann er gamall og nýr þjónn Sameinaða gufuskipafélagsins og eg hefi ekkert traust á honum. (Ráðherrann: Er það meining ins háttvirta þingmanna, að skýrsla hans sé ósönn 7). Já, alveg ósönn, og eg býst við að hv. ráðherra hafi vitað, hvert hann átti að snúa sér með að fá upplýsingar í þessu máli. Eg ber ekki ið minsta traust til þessa Hendriksens, enda er það sami Hendriksen, sem var sendiboði félagsins á þinginu 1909, að mig minnir, og skýrði hann þá frá ýmsu, sem eg síðar komst að, að var ekki satt.

Enda þótt eg hafi skrifað undir nefndarálitið fyrirvaralaust, þá var eg meðnefndarmönnum mínum ekki sammála um sum atriðin. Eg var ekki ánægður með að fá strandferðirnar í hendur neinu félagi, en eg get sætt mig við það og mun fylgja því, úr því að það varð ofan á í nefndinni. Mín skoðun er, að landið eigi sjálft að hafa á hendi strandferðirnar, engu síður en landpóstferðir, síma o. s. frv. Ástæðan til þess er meðal annars sú, að hingað til lands sigla mörg samkeppandi félög, og eg verð að telja það mjög óheppilegt, að einu félaginu af mörgum samkeppandi félögum sé afhentar strandferðirnar, því öll félögin þurfa að koma vörum til Smáhafnanna. Þar af leiðandi á landið sjálft að hafa þær í sinni hendi.

Þetta sem hæstv. ráðherra sagði, að það væri óhjákvæmilegt, að á vöruflutninginn milli hafna legðist sérstök fragt, eða tvöföld fragt, ef landssjóður ætti strandbátana, get eg ekki séð að rétt sé. Það þarf ekki að leggjast fremur á strandferðirnar, þótt landssjóður eigi Skipin, en einstakt félag.

Eg er hátttv. framsögumanni alveg samdóma um það atriði. Strandferðirnar eiga einmitt að vera alveg aðskildar. Þá fyrst eru innanlandssamgöngurnar í því lagi, sem þær eiga að vera.

Viðvíkjandi smærri flóabátum skal eg geta þess, að nefndin gat ekki fallist á að taka upp fleiri flóabáta en verið hafa til þessa, nema ef vera skyldi Suðurlandsbát. En hann þyrfti þá að vera 80–100 smálestir til að vera sjófær á því svæði. Ingólfur t. d. er ekki sjófær til að fara suður fyrir Reykjanes, nema í alveg einsýnu veðri. — Svo skal eg svara því, sem hæstv. ráðherra sagði, að báturinn ætti að vera í Vestmannaeyjum. Afleiðingin verður sú, að það legst meiri koatnaður á flutning vörunnar, heldur en ef báturinn væri í Reykjavík. Eg skal taka til dæmis, að ef stórkaupmaðar í Reykjavík vill flytja vöru til Víkur, þá verður hann að borga sérstakt umhleðslugjald o.s.frv. í Vestmannaeyjum. Eg held, að það sé ráðlegra fyrir landið og þingið, að fylgja nefndunum í báðum deildum í því, sem þær ætlast til að gert verði í þessu máli, þó að eg sjái á því nokkra agnúa.

Þetta vonleysi hæstv. ráðherra um, að hlutafélagið komist á stofn, held eg að ekki sé á rökum bygt. Það mun nú vera safnað um 300,000 kr. og félagið hefir fengið upplýsingar um, hvað skipin muni kosta. Það er ekki ætlast til að eins mikið verði borið í útbúnað skipanna eins og í skip Sameinaða gufuskipafélagsina; þau eiga ekki að vera skreytt með kopar né fuglsaug-mahogni, og yfir höfuð er ætlast til að leggja meira í þægindin, heldur en í skrautið. Hvítmáluð fura setur verðið á bygging 1. farrýmis niður um 30%. Þetta láta Norðmenn sér duga, og líta þeirra farrými á skipum eins vel út og hinna. Eg held, að deildin geri rétt í að styðja þetta mál og taka það eins og það liggur fyrir. Nefndirnar úr báðum deildum hafa komið sér saman um þetta, og eg skoða það ekki neitt neyðarúrræði.