08.07.1913
Neðri deild: 6. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í C-deild Alþingistíðinda. (94)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Bjarni Jónsson:

Það eru að eina örfá orð — athugasemd við eitt atriði í ræðu hv. þm. Sfjk. (V. G.), því að einstakar greinar frumvarpsins ætla eg ekki að fara að skeggræða á þessu stígi málsins.

Mér datt í hug, þegar eg heyrði öll stóryrðin og allar þær hótanir, sem þessi háttv. þm. kom fram með gagnvart okkur, ef Við ætluðum að gerast svo djarfir að samþykkja lagabreytingu, sem við höfum fullan rétt til, orðin úr þjóðsögunni: Eg er nú svo gamall sem á grönum má sjá, en þó hefi eg aldrei séð svo langan gaur í svo lítilli grýtu.

Hitt get eg skilið, að hæstv. ráðherra, sem milligöngumaður þjóðarinnar og konungs, leggi áherzlu á það, að gæta allrar varúðar og benda á, að vera megi að þetta og hitt atriði sé síður að vilja konungs; en að heyra þjóðkjörinn þingmann gera konungsvaldinu þær getsakir og láta dynja á Alþingi þær hótanir, að konungur muni alls ekki staðfesta þau lög, sem Alþingi samkvæmt löggjafarvaldi, því sem það hefir, samþykkir, álít eg svo óhæfilegt og ósæmandi, að slíkt beri að vita. Það getur verið, að þessum háttv. þm. sé kunnugt um það, að koma eigi fram af Dana hálfu einhverjar hótanir við konung, ef hann staðfesti lög, sem Alþingi samþykkir, en hinu tek eg lítið mark á, þó einhver hálfvitlaus blaðasnápur slái einhverju fram út í bláinn, í lítilfjörlegu blaði. Eg trúi því ekki fyr en eg tek á, að það eigi ekki að varða konung okkar minnu en afsetningu, þótt hann fylgi íslenzkum stjórnlögum. Eg vil undanþiggja konung þeim getsökum, sem hv. þm. bar á hann, að hann mundi — hvað oft sem við værum sammála um að breyta íslenzkum lögum — vinna ekki minna til en það, að “suspendera„, eins og þm. komst að orði, stjórnarskrá okkar. Hann veit, að stjórnarskráin er gefin okkur af einvöldum konungi. Hann hefir afsalað sér einveldinu um aldur og ævi og í fyrsta lagi getur hann ekki tekið að aftur og því næst mundi honum alls ekki fljúga það í hug, þótt ráðherra segði honum, að Alþingi hefði samþykt að fella þessi orð burtu úr stjórnlögum landsins. (Valtýr Guðmundsson: Hvað gera Rússar við Finna ?). Mér er alveg sama, hvað Rússar segja. Þessi háttv. þm. er kannske þm. Rússa.

Þm. var var eitthvað að tala um einvaldan jarl, sem konungur mundi setja yfir okkur ef við breyttum þessu ákvæði. Ekki veit eg, hvort honum hefir flogið í hug, að einhver góðkunningi hans mundi hljóta þetta hnoss og hann þá hugsað sér gott til glóðarinnar og oss þegjandi þörfina. En ef svo hefir verið, held eg, að það séu ekki annað en draumórar, sem aldrei kæmu fram. Eg er þess fullviss, að konungur mundi undirskrifa, og þó svo yrði ekki, þá býst eg ekki við, að út af því spynnist neinn stórvelda ófriður milli Rússlands og Seyðisfjarðar.

Þá sagði háttv. þm., að þessum breytingum lægi alls ekkert á, eðlilegast væri að biða, þangað til fast skipulag væri komið á sambandið milli landanna. Háttv. þm. ætti sjálfur að vita, hve langt þess verður að bíða. Það verður ekki fyr en Danir eru búnir að ganga að og viðurkenna það lagafrumvarp, sem samþykt var á þinginu 1909. Ef háttv. þm. ætlar að bíða þangað til, þá hygg eg að hann myndi hugnast fæstum kjósendum landsins. Að byggja á atkvæðum þessara fáu kjósenda á Seyðisfirði nokkuð í þá átt, að þjóðin æski ekki stjórnarakrárbreytingar sem fyrst, álít eg alveg rangt, vegna þess að þeirra atkvæði hafa áreiðanlega fallið eins og þau gerðu, af því að málið hefir ekki verið gert ljóst fyrir þeim, heldur hefir þessi háttv. þm. skýrt þeim frá því með rangfærslum og óhæfilegum getsökum — þeim sömu og hann nú ber á borð hér í deildinni. Er slíkt ilt verk og tel eg happ, að slíkir menn og hann sitja ekki í ráðherrasæti

Frekara álít eg ekki þörf að fara út í málið fyr en við 2. umr.