16.08.1913
Neðri deild: 36. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í C-deild Alþingistíðinda. (945)

104. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans að gefa út (serie) bankavaxtabréfa

Frásögum. (Björn Kristjánsson):

Eg vil að eins geta þessara breyt.till., sem nefndin hefir komið með. Eru það að eins orðabreytingar.

1. breyt.till. er við fyrirsögnina: Veðdeild Landsbankans skal vera heimilt að gefa út nýjan (4.) flokk bankavaxtabréfa. Þetta orð »nýjan« flokk finst nefndinni óþarft. Má telja þetta orðabreytingu.

Við 1. gr. er samhljóða breyt.till., sem líka má telja orðabreytingu.

Í enda 17. gr. fer þar betur á því að sagt sé í stað þess sem í greininni stendur: »Um ógilding glataðra bankavaxtabréfa fer eftir því sem reglugerð deildarinnar ákveður«, að í stað þessa ákvæðis komi: eftir almennum lögum. Sú breyting er gerð eftir bendingu eins lögfræðings í deildinni.

Í 22. gr. frumv. er ekki gert ráð fyrir borgun til endurskoðunarmanna. Finst nefndinni rétt, að sú borgun sé ákveðin, eins og ávalt hefir verið gert í fyrri veðdeildarlögum. Fleiri breyt.till. eru ekki efnisbreytingar, heldur mestmegnis orðabreytingar. Vona eg að háttv. deild samþykki þær og eins frumvarpið með þessum breytingum.