08.07.1913
Neðri deild: 6. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í C-deild Alþingistíðinda. (95)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Kristinn Daníelsson:

Mér finst það hlýða við 1. umr., þegar rætt er um það, hvort frv. eins og þetta sé borið fram að vilja og ósk þjóðarinnar, að fleiri taki til máls en þeir, er nú hafa talað. Þeir eru allir Reykvíkingar eða úr Khöfn, nema einn þingm., hv. 1. þm. Rangv. (E. J.), en á hann var það borið, að hann hefði ekki meiri hluta sinna kjósenda að baki sér; áburður, sem reyndist bygður á atkvæðagreiðslu á einum mjög fámennum fundi.

Eg hefi frá mörgum þingmálafundum í mínu kjördæmi ljósa skýrslu um það, að það er vilji mikils meiri hluta kjósenda að málið verði tekið fyrir og afgreitt einmitt á þessu þingi og þar sem einnig glögt kemur í ljós óánægja yfir því, að málinu var alls ekki hreyft á þinginu 1912. Sömuleiðis hefi eg orð fjölda margra málsmetandi manna, að sami muni vilji flestra kjósenda út um alt land.

Samt sem áður gæti verið að tala um það, hvort málinu þrátt fyrir þetta lægi svo mikið á.

Því hefir verið haldið fram af tveim háttv. þingm., hæstv. ráðherra og hv. þm. Sfjk. (V. G.), að svo væri ekki.

Það liggur á þessum lögum, þó ekki sé vegna annars, en afnáms inna konungkjörnu þingmanna og skal eg reyna að færa sönnur á það.

Allir stjórnmálamenn þessa lands eru sammála um, að brýn þörf sé á að afnema ina konungkjörnu þingmenn, og má undarlegt heita, ef ekki liggur neitt á því máli, sem allir eru sammála um.

En þetta er ekki aðalatriðið, heldur felst það í þeirri reynslu, sem fengin er af okkar stuttu þingræðissögu. Eg hygg að öllum sé í minni það sem gerðist 1909–11, og þó að ekki sé langt liðið síðan, þá sé það nógu fjarlægt oss nú til að allir geti séð, hve fráleitt það var, er nýfætt þingræðið að kalla hóf göngu sína með þann stein um fótinn, 6 konungkjörna þingmenn, andviga þeim þingmeirihluta, sem fara átti með vald og vilja þjóðarinnar. Hvern dóm, sem menn nú leggja á árangurinn, sem orðinn er af þessu, munu allir vera samdóma um, að slíkur hemill er ósamrýmanlegur við tilgang þingræðisins.

Svo ætla eg ekki að hafa fleiri orð um þetta, en vík að öðru atriðinu, sem sé kosningarréttinum.

Eg hygg að mönnum geti ekki blandast hugur um, hve óviðurkvæmilegt er, að bægja konunum lengur frá kosningarrétti. Mönnum hlýtur að gremjast, að sjá vel mentaðar konur þess lands, er bæði hafa vilja, vit og áhuga á stjórnmálum, standa utan hjá og mega hvergi nærri koma, en hver einasti áhugalaus og ómentaður lausamaður hefir rétt til að greiða atkvæði í áhugamálum þjóðarinnar.

Ýms fleiri atriði eru til umbóta í frumvarpinu, en þótt vera kunni að þau séu ekki svo brýn, að núverandi. stjórnarskrá gæti ekki staðist þeirra vegna

Þá ætla eg að síðustu að víkja að þessu viðkvæma atriði: Meðferð ríkisráðsákvæðisins í Stjórnarskrárfrumvarpinu. Treysti eg deildinni til að fara viturlega með það atriði, en eg hygg, að enginn geti hugsað sér að biða eigi með að taka stjórnarskrána fyrir þangað til fengið er samkomulag um sambandsmálið, jafnvel þótt sumum þætti ráðlegra að hreyfa ekki fyrri við ríkisráðsákvæðinu.