16.08.1913
Neðri deild: 36. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1254 í C-deild Alþingistíðinda. (954)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Ráðherrann (H. H.):

Eg vildi að eins skjóta fram almennri athugasemd. Eg Vona, að háttv. þingm. hafi það hugfast, þegar þeir greiða atkvæði um breytingartillögur, þær sem fram háfa komið, að ekki er hægt að ávísa á viðlagasjóðinn nema 116 þús. kr. bæði í umframgreiðslur og lánveitingar. Meira handbært fé hefir hann ekki á fjárhagstímabilinu 1914–1915. Ef samþyktar verða allar þær breytingartill., sem fram hafa komið við frumv., þá nemur það 577 þús. kr. alls, sem ætla þarf viðlagasjóði að greiða. Eg vona að menn sjái, að slíkt getur ekki blessast. Ef gjöldin verða aukin, þá verður líka að auka tekjurnar með einhverju móti.

Viðvíkjandi þessum kafla, sem nú liggur fyrir, hefi eg lítið að athuga. Við hann eru einar tvær breyt.till. fyrir utan breyt till. nefndarinnar. Á þgskj. 391 er tillaga frá sjávarútvegsnefndinni um hækkun á styrknum til eftirlits úr landi með fiskiveiðum útlendinga, úr 3 þús. upp í 10 þús. kr. á ári, væntanlega gegn jafnstórri upphæð annarstaðar frá. Ástæðan til þess, að stjórnin setti þessa upphæð ekki hærri en hún gerði, var sú, að henni þótti bresta upplýsingar um, að hvaða gagni þetta eftirlit kæmi. Úr einu héraði hefir verið sótt um styrkinn og hann notaður, en um gagn það sem hann hefir gert, hafa enn engar upplýsingar komið til stjórnarráðsins. Eg get hugsað mér að gagnið sé helzt fólgið í því, að veiðarfæri manna megi verja að einhverju leyti með þessu móti. Að öðru leyti hygg eg, að botnvörpungarnir óttist ekki mikið þennan litla eftirlitsbát, ef strandvarnarskipið er hvergi nærri. Það kann að vera rétt, að hækka styrkinn eitthvað dálítið, en eg hygg, að tæplega sé ástæða til að fara svona hátt — 20 þús. kr. á fjárhagstímabili — meðan ekki er fengin meiri vissa um það, að hvaða gagni styrkurinn, sem veittur var í fyrra, hefir komið. Að öðru leyti ann eg sjávarútveginum alls góðs, og vil ekki spilla fyrir frekari tilraunum í þessu.

Þá er breyt.till. á þgskj. 443 um 1000 kr. styrk á ári til húðsjúkdómalæknis Magnúsar Júlíussonar. Eg hefi ekkert sérstakt að athuga við það, að sérfræðingum í læknisfræði sé veittur slíkur styrkur, ef peningar eru til þess. Og eg efast ekki um, að það sé alt rétt sem háttv. flutningsm, breyt.till. (Kr. D.) sagði, að þetta sé vel mentaður og reglusamur ungur maður. En siðari hluta tillögunnar verð eg að mótmæla, að því sé slegið föstu, að þessi maður skuli veita forstöðu Röntgens-áhöldum háskólans. Þrír menn, sem allir hafa lært sérstaklega til þess, hafa sótt um þennan starfa, og eg verð að telja sjálfsagt, að stjórnarráðið velji á milli þeirra, og »kveði« hvern þeirra skuli taka. Og það gerir stjórnarráðið ekki fyr, en það hefir heyrt tillögur læknadeildar háskólans um það efni, því að viðbúið er að sá maður, sem kosinn verður, hafi mikið saman við hana að sælda. Hann verður líka eflaust hafður til að kenna þar einhverja sérstaka grein. Eg skal geta þess í viðbót, að tveir af umsækjendunum hafa sannað, að þeir eru þegar fullnuma til þess að þjóna Röntgens-áhöldum og þurfa þannig ekki frekari námstíma til þess að geta tekið þetta starf að sér. En einmitt þessi maður hefir sótt um 1000 kr. styrk til þess að læra þetta, því að kennarar hans hafa talið honum nauðsynlegt, að afla sér frekari æfingar í þeirri grein. Þetta kemur ekki við aðalfræðigrein hans, húðsjúkdómunum, Röntgens-áhöldin eru notuð til margs konar fleiri lækninga, t. d. við berklaveiki, beinbrot o.fl. Hvað sem háttv. deild gerir við aðaltill, þá legg eg til að síðari liðurinn verði feldur, enda hefir hv. fjárlaganefnd séð fyrir því, eftir tilmælum stjórnarinnar, að sérstök upphæð er ákveðin í fjárlögunum, handa manni til að stjórna Röntgens-áhöldunum.