16.08.1913
Neðri deild: 36. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í C-deild Alþingistíðinda. (958)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Benedikt Sveinsson:

Það er að eins lítilfjörlegt atriði viðvíkjandi 7. og 8. lið 12. gr., sem eg ætla að minnast á. Það er við sundurliðunina á kostnaðinum við sjúkrahúsin á Kleppi og í Laugarnesi. Það er sitt formið á hvorri skýrslu. Sé eg ekki betur en að rétt sé að hafa formið eins fyrir báða. spítalana, því að það er hægara fyrir menn að átta sig á þeim með því fyrirkomulagi. Af því að það er kostnaðarlaust í og fyrirhafnarlítið, álít eg formið ætti að vera eins og ætti nefndin að lagfæra þetta. Við annan spítalann eru laun læknisins talin með launum annara starfsmanna, en við hinn eru þau talin út af fyrir sig. Væri betra að hafa þetta alt sundurliðað við báða spítalana, svo að auðvelt sé að bera saman kostnaðinn við þá.

Eg þarf tæplega að mæla með breyt.tillögunni á þgskj. 371. Það hefir verið gert svo rækilega af háttv, þm. Dal (B. J.) og háttv. 2. þm. G.-K. (gr. D.). Að eins vil eg geta þess, að það er óþarfi að vera að tala um, hvað miklar tekjur landssjóður geti haft af þessum strandvörnum, heldur er það gagnið, sem landsmenn hafa af því, að útlendir og innlendir yfirgangsseggir ekki geta verið fyrir innan landhelgislínuna, sem mestu varðar í þessu máli. Menn ættu ekki að vera að skera við neglur sér styrk til sjávarútvegarins. Það játa allir, að landssjóður hefir mjög miklar tekjur af sjávarútveginum, og væri ekki úr vegi að taka tillit til þess.