08.07.1913
Neðri deild: 6. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í C-deild Alþingistíðinda. (96)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg hafði einsett mér að taka ekki til máls í þessu máli, en nú er farið að ræða svo mikið og margt um það, að eg sé míg knúðan til þess.

Sérstaklega er eg hissa á þolinmæði forseta, að leyfa allar þessar umræður um einstök atriði, þær er ekki eiga við, fyr en við 2. umræðu málsins. (Margir þingmenn: Alveg rétt).

Því hefir verið haldið fram, að enginn almennur áhugi væri á hjá þjóðinni að fá breytingum framgengt, en eg hefi einmitt orðið var við, að það er mikill áhugi á að fá sumum breytingunum framgengt.

Mig furðaði á orðum hæstv. ráðherra, þegar hann sagði, að eigi lægi á að breyta stjórnarskránni fyr en ný sambandslög væru komin á milli Íslands og Danmerkur.

Fyrst vakti hæstv. ráðherra máls á sambandsmálinu árið 1907, og á hann þakkir skilið fyrir þær málaleitanir og fyrir allar gerðir sínar í málinu í millilandanefndinni og næstu ár. Það tel eg, hvað sem aðrir álita, eitt hans bezta verk, sem sagan mun unna honum sannmælis fyrir síðar. En allar samningatilraunir hafa nú strandað gersamlega á því skeri, sem þeim verður ekki fleytt af um margra ára ófyrirsjáanlegan tíma. Það tjáir ekki að dáleiða þannig sjálfan sig, að maður ímyndi sér, að maður sé á hraðri siglingu áleiðis, þegar maður stendur strandaglópur á blindskeri.

Eins og nú er ástatt, er engin von um að sambandslagafrumvarp nái fram að ganga í Danmörku um langa, langa tíð. Til þess þarf ný kynslóð að renna upp, og in gamla að hverfa frá ráðum.

Eg hafði orð á því áðan, að áhugi væri víða um land á því, að fá stjórnarskránni breytt.

Mun eg þess vegna verða því fylgjandi, en eg hefi alls ekki orðið var við, að áhugi sé á ýmsum þeim breytingum, sem eru í frumvarpinu, en eg vil ekki vera að fara mikið út í einstakar greinar nú.

Eg hefi orðið var við, að menn vilja losna við ina konungkjörnu þingmenn, en af því leiðir breytingu á skipun Ed.; sömuleiðis, að menn hafa áhuga á, að fá breytt endurskoðun Alþingis á landsreikningum þannig, að sameinað Alþingi kjósi 3 endurskoðunarmenn með hlutfallskosningu.

Háttv. þm. Sfjk. (V. G.) Sagði ekkert vera á móti konungkjörnu þingmönnunum, þar eð ráðherra væri kosinn að Vilja meiri hluta þingmanna, og sá meiri hluti væri fulltrúar meiri hluta þjóðarinnar, en ráðherra réði vali inna konungskjörnu þingmanna.

Máske hefði hann nokkuð til síns máls, ef skipun ráðherra og konungkjörinna þm. félli ávalt saman, en nú er hitt að athuga, að svo illa vill til, að samkvæmt stjórnarskránni fer ekki saman sá tími, er ráðherra situr að völdum, og kjörtíð inna konungkjörnu. Getur þá vel svo farið, að þeir standi allir andstæðir ráðherra.

Auk þessa er eigi réttvíst að vera bæta við meirihluta, þann sem skapast við kosningarnar.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) ámælti harðlega háttv. þm. Sfjk. (V. G.) fyrir ógnanir í þessu máli. Eg tók nákvæmlega eftir ræðu háttv. þm. Sfjk. og heyrði engar ógnanir í henni. Hann gerði að eins það, sem hverjum manni, er hæfur getur talist til að sitja á löggjafarþingi þjóðar sinnar, ber að gera; hann íhugaði afleiðingarnar af því sem um var rætt að gera. Og það er gömul og gullin regla, að í upphafi skyldi endinn skoða.

Háttv. þm. Dal. spurði sjálfan sig, hverjar afleiðingarnar gætu orðið af því að setja inn í stj.skr. ákvæði, sem vér eigum vísa synjun staðfestingar á; en í stað þess að svara sjálfum sér, svaraði hann út í hött, að það yrði væntanlega ekki stórveldaatrið milli Seyðisfjarðar og Rússlands. En hann svaraði alls ekki þeirri afleiðingaríku spurningu, sem fyrir liggur. Hann talaði eins og óvitabarn. Hann fór eins og strútsfuglinn, sem grefur höfuð sitt niður í sand, til að sjá ekki hættuna.

Eg styð að 7 manna nefnd verði kosin í málið, af því eg veit það almennan og réttmætan vilja almennings, að fá fám einum atriðum breytt. En eg hefi engar kjósendaraddir heyrt, sem krefjist þess, að fá allar landsins bríettur inn á þing, né heldur alla betrunarhúslimi. (Bjarni Jónsson: Er það sæmilegt að nefna nöfn hér í þingsalnum?). Eg nefni ekkert eiginnafn; en eg sé í ritum notað orðið bríettur á íslenzku yfir það, sem á útlendu máli heitir “Suffragetter„. Slíkt er altítt í málunum, eins og að “boycotta„ (dregið af nafni Mr. Boycott's).