16.08.1913
Neðri deild: 36. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í C-deild Alþingistíðinda. (960)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Guðmundur Eggerz:

Mér fyrir mitt leyti er það áhugamál að deildin vilji veita þennan styrk, ekki sízt fyrir það, að mér er vel kunnugt um, hvílíkan skaða útlendir botnvörpungar gera árlega við strendur landsins.

Eg get ekki séð, að það sé rétt, sem háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði, að það væri að eins í Faxaflóanum, sem botnvörpungar veiddu í landhelgi. Það hagar mjög víða svo til við strendur landsina, að ekki er hægt að fiska annarataðar en einmitt í landhelgi. T. d. er mér kunnugt um, að þegar botnvörpungar eru að veiðum fyrir utan Ólafsvík, munu þeir nálega alt af vera í landhelgi. Þar eru staðhættir svo, að þeir eiga erfitt með að veiða fyrir utan landhelgislínuna, en skafa botninn í sífellu og það 4–5 stundir á bátamiðunum. Enda er svo komið að til vandræða horfir, ef ekki verður eitthvað úr þessu bætt að því er Ólafsvíkur- og Sandmið snertir. Hefi eg orðið var við, að þegar þeir hafa séð bát koma, sem þeir hafa grunað um að hafa hreppstjóra eða sýslumann innan borðs, hafa þeir strax lagt á flótta.

Hæstv. ráðherra virðist vera í vafa um, að þessar varnir geti komið að nokkru gagni, en eg þykist viss um, eftir þeirri reynslu sem eg hefi fengið, að þær muni koma að allmiklum notum.