16.08.1913
Neðri deild: 36. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í C-deild Alþingistíðinda. (963)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Valtýr Guðmundsson:

Eg skal alls ekki lá háttv. fjárlaganefnd og hæstv. ráðherra, þótt þau séu hikandi við að hækka ina ýmsu útgjaldaliði. En það er einn liður á þgskj. 391, sem hljóðar um hækkun á styrk til eftirlits úr landi með fiskveiðum í landhelgi, sem mér sýnist mikil nauðsyn á að hækka; stjórnin lagði til að veita 1500 kr., fjárlagsnefndin hækkaði það um helming og fiskiútvegsnefndin fer nú fram á að veittar séu 10,000 kr. í þessu augnamiði. Eg held að full ástæða sé til að veita alt það fé, vegna þess að mér virðist sönnun þegar fengin fyrir því, að fjárveiting þessi komi að miklum notum. Sönnunin er sú, að héraðsbúar, þar sem þetta eftirlit er notað, leggja á sig þunga skatta til þess að styðja þetta eftirlit, og mér virðist ekki líklegt að þeir mundu gera það, væri ekki reynsla fengin fyrir því, að það kæmi að talsverðum notum.

Hvað gagnið, sem þetta eftirlit getur gert, snertir, þá er það ekki einungis fólgið í því, að fá botnvörpungana sektaða, svo að tekjur renni í landssjóðinn. Það er miklu fremur það, að hindra botnvörpungana frá að veiða í landhelgi, að akemma og eyðileggja veiðarfæri manna. Stundum moka þessir botnvörpungar upp fiskinum, svo að landsmenn gripa í tómt þegar þeir koma út á miðin. Eg gæti nú hugsað, að afli landsmanna mundi hækka, ef hægt væri að hindra þessar botnvörpungaveiðar í landhelgi, svo að landssjóður mundi fá meiri tekjur í útflutningágjaldi en áður. væri gróðinn af þessu eftirliti þá óbeinn, þótt ekki fengist beinn gróði af sektunum.

Upphæðin, sem farið er fram á að veitt verði, 10,000 kr., verður heldur ekki notuð nema að jafnmikið tillag komi frá landsmönnum sjálfum, svo að mér sýnist ekki vera hundrað í hættunni, þótt féð sé veitt, því að komi beiðni um styrk frá einhverju héraði, þá er um leið fengin sönnun fyrir, að nauðsyn sé á slíku eftirliti, fyrst þeir vilja sjálfir leggja á sig sérstakan skatt fyrir það.

Það er rétt, að tekjuáætlun þarf að vera varleg, og líka að brýn þörf er á að fara varlega í fjárveitingum, en það á því að eins að gera, að eitthvert vit sé í því. Það dugar ekki að kasta fé út fyrir óþarfa, en láta nauðsynjarnar bíða.