16.08.1913
Neðri deild: 36. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í C-deild Alþingistíðinda. (967)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Ólafur Briem:

Eg verð segja það, að eg hefi jafnan haft tilhneigingu til að fylgja tillögum fjárlaganefndarinnar, með því að hún hlýtur að hafa Svo miklu gleggra yfirlit en aðrir, ekki eingöngu yfir það, hvort eitt fyrirtæki sé æskilegt, heldur líka yfir það, hvort hægt sé að koma því fram, og hvaða fyrirtæki eigi að ganga fyrir. En nú er eitt atriði í tillögum fjárlaganefndarinnar, sem eg ekki get felt mig við. Hún sýnist gera það að reglu að hækka laun embættismanna, sem um slíkar launabætur sækja, á þann hátt, að láta þá fá persónulega launahækkun.

Í fjárlagafrumvarpi stjórnarinnar er ekki minst á neina launahækkun til Laugarnesspítalalæknisins, en fjárlaganefndin fer fram á að veita honum persónulega launaviðbót 300 kr. á ári. Það ætti þó ekki að vera meðmæli með þeirri launahækkun, að umsóknin um hana kemur beint til þingsins, en ekki ina eðlilegu leið í gegnum hendur stjórnarinnar.

Um þennan mann segir nefndin að hann sé alls góðs maklegur. Eg skal ekki hafa neitt á móti því, og tel víst að svo sé. En svo er guði fyrir þakkandi, að sama er hægt að segja um allan þorra embættismanna hér á landi, þótt ýmislegt megi finna að gerðum sumra þeirra.

Þá er að líta á þörfina á þessari launahækkun. Mér finst að þörfin sé hér minni en víðast annarsstaðar. Þessi maður er vel settur til þess að geta haft aukatekjur af sínu starfi. Hann á heima hér í bænum og getur stundað og stundar lækningar hér.

Það er ekki skemtilegt verk að tala um þessi persónulegu launamál, en eg gat ekki stilt mig um að taka þetta fram, og vænti þess að háttvirtir þingmenn hugsi sig vel um, áður en þeir samþykkja áminsta tillögu fjárlaganefndar, þar sem hún hefir í för með sér árlegan útgjaldaauka fyrir landssjóðinn um ófyrirsjáanlegan tíma, án þess að neina nauðsyn beri til.