16.08.1913
Neðri deild: 36. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í C-deild Alþingistíðinda. (976)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Kristján Jónsson:

Eg ætla að minnast á breyt.till., þá sem eg hefi borið fram á þgskj. 403, og er undir tölulið 42 á atkvæðaskránni. Breyt.till. fer í þá átt, að gerður verði akvegur frá Kláffossbrú að Reykholti í Reykholtsdal, gegn tvöföldu tillagi úr annari átt. Eins og sést á öðrum stað í fjárlagafrumvarpi stjórnarinnar, er gerð tillaga um fjárveitingu næsta ár til að fullgera svokallaða Borgarfjarðarbraut. Þessi braut á að liggja frá Borgarnesi, fyrir norðan Hvítá og upp að Kláffossbrú á Hvítá. Þannig liggur enginn hluti þessarar brautar í Borgarfjarðarsýslu, og þó er ætlast til þess að Borgarfjarðarsýsla leggi til 2/9 af viðhaldskostnaðinum af því að vegurinn er talinn verða til hagsmuna bæði fyrir Borgarfjarðar- og Mýrasýslu. Er talsverð óánægja yfir þessu í Borgarfjarðarsýslu. Finst mönnum það þungbært að þurfa að leggja fé til vegar, sem ekki að neinu leyti liggur í sýslunni. En þessi akvegur gæti orðið Borgarfjarðarsýslu að verulegu gagni, ef honum yrði haldið áfram frá Kláffossbrú upp Reykholtadal og upp í Hálsasveit. Þar í sýslu munu menn því sætta sig við að greiða fé til viðhalds Borgarfjarðarbrautarinnar, ef þeir aftur á móti fá nokkra hjálp til þess að gera flutningabraut frá Kláffossi og upp Reykholtsdal. Menn hafa hugsað sér að byrja á því að leggja veg að Reykholti. Þennan veg ætla þeir sér að gera á einu ári, og þurfa þeir að leggja mjög mikið á sig, ef það á að geta tekist. Þeir vonast til þess og fram á það er farið, að landsjóður leggi til þessa einar 2000 kr. Sjálfir ætla þeir að leggja til 4000 kr., það er að segja hreppurinn, Reykholtshreppur. 2000 kr., og sýslan aðrar 2000 kr. Samkvæmt þessu er breytingartillagan orðuð.

Vegurinn er áætlaður að muni kosta 5731,75 kr., eða því sem næst 6000 kr. Mæling og matsgerð er gerð af Árna Zakaríassyni: Hefir hann líka gert kort af veginum, sem eg hefi hér í höndum, ásamt álitsskjali hans. Þessi skjöl, önnur en kortið, hafa legið á lestrarsalnum.

Mikill áhugi er fyrir þessu máli í uppsveitum Borgarfjarðarsýslu. Þykir mönnum þar sanngirni mæla með því að Alþingi verði við þessari beiðni, þar sem það í síðustu 6 árin hefir ekki veitt neitt fé til vega þar í sýslunni. Og ekkert hefir heldur verið gert við þjóðvegina þar síðan 1907 eða 8. Og þar í sýslu eru engar flutningabrautir. Þykir það því vera vel rökstudd og réttmæt beiðni, að þetta fé verði veitt, einkanlega þegar farið er fram á svo lítið í samanburði við það sem sýslubúar og hreppabúar verða að leggja á sig til þess að fullgeta veginn. Er það virðingarvert og viðurkenningarvert, að þeir geri það, því að vegagjaldið er þar hátt, þar sem sýslan hefir marga aðra erfiða vegi, eina og t.d. veginn frá Akranesi upp yfir Skilmannahrepp og upp í Leirársveit. Er það mjög vondur vegur eða réttara sagt vegleysa . Hefi eg umboð sýslubúa til þess að sækja um fjárveitingu til þessa vegar, en eg mun ekki gera það að sinni. Legg eg meiri áherzlu á að fé verði nú veitt til vegarins frá Kláffossi upp að Reykholti.

Skal eg svo ekki fjölyrða meira um þetta mál. Sé eg ekki ástæðu til að mala eins um það eins og háttv. þm. Dal. (B. J.) malaði um brýrnar sínar og vegina. (Bjarni Jónsson: Eg get þá kannske mulið fyrir þingmanninum fjárveitinguna til vegarins). Nei, það veit eg að þm. gerir ekki.