16.08.1913
Neðri deild: 36. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1314 í C-deild Alþingistíðinda. (985)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Framsögum. (Pétur Jónsson):

Eg ætlaði, um leið og eg svara nokkrum orðum ýmsum atriðum, sem fram hafa komið, að skjóta því inn í, hvað mikilli hækkun breytingartillögur háttv. þingmanna nema. Að þeim tillögum sleptum, sem feldar hafa verið eða teknar aftur, valda allar breyt.till. samtals 146,500 kr. hækkun. Eg hefi áður tekið fram, hve mikilli hækkun br.till. við þessa grein nema. Það er þetta, sem eg vil leggja áherzlu á, að menn hafi í huga við atkvæðagreiðsluna, að spenna ekki bogann of hátt. Það voru nokkrir, sem héldu því fram, er skattamálin voru hér til meðferðar, að ekki væri brýn þörf á a,ð auka tekjurnar sem stæði. (Lárus H. Bjarnason: Þar á meðal háttv. framsögum. sjálfur). Eg vona þess vegna að þeir hafi það nú fyrir augum, að halda svo spart á, að sá spádómur rætist. Eg segi þetta frá minni hálfu, eg hefi ekki verið beðinn að skila því frá fjárlaganefndinni, þó að vísu meiri hluti hennar greiddi atkv. með skattamálunum.

Eg hefi ekki mikla ástæðu til að svara einstökum ræðum, því að þær hafa allar gengið út á að sýna, hvað þessi og þessi breyt.till. hefði mikið til sína máls eftir ástæðum á þessum og þessum stað. Þessu vil eg engan veginn mótmæla. Eg kannast við að mikið og margt mælir með flestum þessum fjárbeiðslum, en segi einungis, að einhversstaðar verður að nema staðar. Að fara út í samanburð á milli þess sem fjárlaganefndin hefir fallist á, og þess sem hún hefir ekki fallist á, yrði alt of langt mál. Eg skal að eina geta þess, að fjárlaganefndin hefir viljað taka tillit til þess, hve héruðin hafa áður fengið eða fá nú mikinn eða lítinn styrk úr landssjóði til annara samgöngumála. Þar sem t. d. er verið að leggja dýran síma, eða styrkja dýran innfjarðabát, er minni ástæða að láta veginn sitja fyrir í þetta sinn.

Eg hefi ekki minst á brúna á Jökulsá að öðru leyti en því, sem eg tók fram við framhald 1. umr. Út af ræðu hv. 1. þm. Eyf. (St. St.) skal eg að eins taka það fram, að hann má ekki skoða það svo, að fjárlaganefndin álíti rangt að brúa Eyjafjarðará. Hún hefir ekkert um það sagt, og eg held eg megi fullyrða að hún hafi ekkert á móti því, að þess sé full þörf. Fjárlaganefndin hefir einungis sagt, að Jökulsá yrði að sitja fyrir, úr því að ekki er hægt að brúa þær báðar á þessu fjárhagstímabili. Jökulsárbrúna er búið að ákveða með lögum, og þau lög skilur nefndin svo, að hún eigi að sitja fyrir öðrum brúm. Eg veit að svo muni fara, að eg fái ekki síður orð í eyra þegar heim kemur heldur en háttv. 1. þm. Eyf. (St. St), því að brú á Eyjafjarðará tekur í rauninni meira til míns kjördæmis heldur en nokkurntíma til hans. Mér verður því líklega síður en svo þakkað að hafa gert þessa tillögu. Eg veit, að það er mikil þörf á að greiða fyrir fjárrekstrum og öðru með því að brúa Eyjafjarðará, því að hún er til mikils farartálma, en hins vegar er hún ekkert manndrápsvatn, og ferðamenn komast venjulega ferða sinna yfir hana.

Það sem menn hafa á móti því að byggja brú á Jökulsá, er aðallega það, að hún sé ekki almennilega brútæk, og að hún hafi ekki meðmæli landsverkfræðings. Það er satt, að hann hefir ekki mælt með því, að hún verði látin sitja fyrir öðrum ám, en hann hefir samt mælt með, að brúin gæti staðið, og þess vegna hefir hann gert teikningu af henni, sem hér liggur fyrir, og áætlun um, hvað hún muni kosta. Eins og sjá má af teikningunni, á brúin að vera 226 metrar á lengd og bygð á stólpum, þannig löguðum, að mikið pláss sé fyrir ána að bylta sér til. Teikningin verður lögð fram á lestrarsalinn og önnur plögg brúnni viðvíkjandi. Þetta lá fyrir þinginu 1911 og það hafði þau áhrif á mig, að eg gat ekki greitt atkvæði á móti brúnni. Eg hafði álitið áður, að áin væri alls ekki brútæk, en undir eins og gefin var vís von um að hana mætti brúa, áleit eg að hún ætti að sitja fyrir öðrum ám. Ef eg má fá leyfi forseta til að lesa upp kafla úr bréfi verkfræðingsins, þá hygg eg að það geti orðið til fróðleiks og ef til vill, haft einhver áhrif í deildinni. Bréfið er skrifað til stjórnarráðsins 9. Júlí 1911, er verkfræðingurinn hafði gert teikningu af brúnni og áætlað kostnaðinn 78 þús. kr. Hann segir svo:

Brúin er þannig gerð, að hún mun geta staðið öll væntanleg vatnsflóð í ánni. En eg get ekki með neinni vissu sagt, að hún muni standast jökulhlaup, þau sem koma — í ána einstöku sumur. Smáhlaup, líkt og þau sem svo að segja árlega koma fyrir, munu alls ekki geta grandað henni, en eg hefi heyrt, að stundum hafi komið í hana verulega stór hlaup, stór stykki úr jöklinum hlaupið fram, og má ekki búast við að brú eða neitt annað mannvirki, sem fyrir verður, standist slík áhlaup. Því miður hefi eg ekki ábyggilegar upplýsingar um, hvenær slík hlaup hafa komið fyrir, eða hve tíð þau eru; stærsta hlaupið sem núlifandi menn muna, kom árið 1860, að sögn sama daginn og Katla gaus, og höfðu þálifandi elztu menn, að sögn ekki upplifað annað eins hlaup; í þessu hlaupi hagaði áin sér nú svo, að sá farvegur sem hér er áætluð brú á, stíflaðist, en áin hljóp eftir svonefndri Aurakvísl, sem er litlu vestar, vestan til í lægð, þeirri sem áin hefir grafið í sandinn, en sú lægð er á þessum stað 600 metrar að breidd, og hvergi mjórri sem neinu nemur. Eftir hlaupið fór áin þó aftur í þennan farveg, sem hún er í, austast í lægðinni. . . . . . Eftir því sem eg hefi getað spurt til, hafa 8 eða 9 menn druknað í á þessari á síðustu 80 árum.

Þetta eru orð landsverkfræðingsins. Hann segir enn fremur, að á ánni megi hafa það sem hann kallar loftferju. En hann heldar að sá útbúnaður yrði í jafnmikilli hættu, ef veruleg jökulhlaup kæmu í ána. Það er alla ekki útilokað að svo mikil jökulhlaup geti komið, t.d. í eldgosum, að brúna taki af, að minsta kosti að nokkru leyti. En það er sennilegt, að hún þyrfti ekki endilega að fara öll, og eftir því sem hlaupið 1860 hefir hagað sér, má telja líklegt að talaverður hluti hennar hefði bjargast. Fjárlaganefndin hefir komist að þeirri niðurstöðu, að það sé ekki verulegur voði að leggja út í brúargerðina, að minsta kosti ekki svo mikill, að það geti réttlætt að þingið fari að taka það aftur, sem það hefir lofað. Og hér er ekki um annað að ræða, en að þoka Eyjafjarðarbrúnni aftur fyrir, þannig, að hún kæmi ekki fyr en á næsta fjárhagstímabili.

Háttv. þingm. G.-K. (B. Kr. og Kr. D.) hafa háðir mælt með fjárveitingunni er þeir fara fram á til brúar á Bleikdalsá. Um það hefi eg ekkert að segja fram yfir það sem eg hefi sagt áður. Það má vel vera, að það sé nauðsynlegt, en eg segi enn einhversstaðar verður að nema staðar. Um þetta atriði hafa engar nýjar upplýsingar komið fram, svo að fjárlaganefndin getur ekki fallið frá fyrra áliti sínu.

15000 kr. fjárbeiðnina til vegarins frá Keflavík til Grindavíkur hefir fjárlaganefndin líka íhugað sérstaklega. Hún leit svo á, að jafnvel þó að þörfin væri eins mikil og af er látið, þá hafi svo mikið verið gert fyrir þetta hérað undanfarið, að ekki væri nema eðlilegt, að öðrum héruðum væri nú sint um sinn og þetta látið bíða. Mundi það og eins holt fyrir héraðið, meðan það er að losa sig við þær skuldir, sem það hefir hleypt sér í fyrir vegi sína.

Það er ekki rétt, að vegur þessi hafi sömu þýðingu sem flutningabrautir hafa, sem allar eru lagðar frá kauptúnum upp í sveitir. Hann liggur strandlengis á milli tveggja verzlunarstaða, sem hafa gott samband á sjó, sem alt af er verið að styrkja með fjárframlögum til innfjarðabáts. Það eru einmitt vegaspottar, er liggja upp í in stóru héruð, sem verða að sitja fyrir þeim vegum, sem liggja strandlengis, þar sem sjóleið er allgreið.

Háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) talaði mjög lipurlega fyrir tillögum afnum. Kvaðst hann ekki vera ófáanlegur til að taka þær aftur að þessu sinni, ef fjárlaganefndin vildi veita minna fé gegn jafnmiklu fjárframlagi frá hlutaðeigendum. Mér er ómögulegt að lofa neinu um það fyrir nefndarinnar hönd. Frá mínu sjónarmiði get eg sagt, að ekki stæði á mér að mæla með því, enda er eg vel kunnugur, en eg get engu lofað fyrir nefndarinnar hönd. Háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) sagði, að það ætti að vera stefna í vegamálum að styrkja einkum vegi í þeim héruðum, þar sem vel væri lagt á móti. Þetta er sú stefna, sem þingið hefir fylgt hvað snertir sýsluvegina. Þess vegna er komið svo mikið í Keflavíkurveginn, að sýslurnar hafa lagt til ríflega á móti. En eg vil benda á í þessu sambandi, að þeir vegir, sem landssjóði eru lagðir á herðar, eiga samt mestan rétt á sér. Það má eigi gleyma því, að þeir eiga að sitja fyrir sýsluvegum, hvað sem framlögum héraðanna líður. Og vanalega eru það landssjóðsvegir, sem landssjóður vanrækir, í versta standi, því sýslunefndir og hreppanefndir vilja ekki leggja fé í að endurbæta þá.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) talaði vel fyrir sinni tillögu um Fáskrúðsbrúna og er hart að þurfa að vera á móti henni, en fjárlaganefndin verður að leggja til að henni verði frestað í þetta sinn, en hún hlýtur að sitja fyrir í næstu fjárlögum. Viðvíkjandi till. sama þingm., á þgskj. 448, um styrk til bryggjugerða í Búðardal og Salthólmavík, vil eg geta þess, að nefndin lítur svo á, að einkum eigi að styrka til bryggju og hafna á þeim atöðum, þar sem skipakomur eru margar árlega og umskipun á vörum getur átt sér stað. Ef t.d. flóabátarnir kæmust í samband við flutningaskipin frá útlöndum, mundi bryggja á slíkum stöðum verða nauðsynleg. Nú liggja fyrir fjárbeiðnir í þessa átt, en ef ætti að fara að brytja niður í mjög marga staði fé, sem til þessa mætti verja, er eg hræddur um að lítið gagn yrði að því. Mér þótti vænt um, að þm. tók aftur tillögu sína um Borgarfarðarbátinn. Að vísu get eg engu lofað fyrir nefndarinnar hönd, en sjálfsagt er að sýna þar fulla sanngirni.

Mér skildist á háttv. þm. Dal. (B. J.), að hann mundi ekki vera ófáanlegur til að taka aftur fjárbeiðni sína til símalagningar í Dalasýslu. Þætti mér vænt um að hann gerði það, því eg tel óheppilegt að taka fyrir aðrar símalagningar næstu ár, en þær sem símlögin gera ráð fyrir, að sitji í fyrirrúmi.

Þá er breytingartilaga frá háttv. 1. þm. Rangv. (E. J.), sem að vísu hefir verið tekin aftur, um að afnema ina persónulegu launaviðbót landsverkfræðingsins. Nefndin hefir ekki gert aðrar breytingar við stjórnarfrumv., en að af þessum 4000 kr. verði 400 kr. skoðaðar sem persónuleg launaviðbót. Landsverkfræðingurinn hefir skýrt frá því, að hann geti ekki haldið þessu starfi lengur áfram, nema hann fái þá hækkuð laun. Honum hafa staðið til boða hærri tekjur við störf annarstaðar.

Nefndin er sammála stjórninni um, að við megum ekki við því að missa þennan mann, sem hefir staðið svo vel fyrir vegamálunum. Og það er meira um vert en einar skitnar 1000 kr., hvort forstaðan fyrir vegamálunum er góð, eða í meðallagi, eða þaðan af lakari.

Ef umskifti yrðu, fengist tæplega svo góður maður í staðinn, að tapið yrði ekki margfalt meira en þetta. Að þetta sé slæmt fordæmi og verki illa á þjóðina, eru mótbárurnar. Reyndar getur ekki verið að tala um fordæmi í þessu efni, nema þá sé bent á landsímastjórann. Hann setti upp og fékk hjá þinginu 5000 kr. laun og eftirlaunarétt að auki. Benda má á fleiri, t. d. vitastjórinn. Get eg því ekki álitið annað en fallast verði á tillögu nefndarinnar í þessu máli. Eg hefi fjölyrt um þetta vegna þess, að mér skildist á háttv. 1. þm. Rangv. (E. J.), að hann ætlaði að halda því til streitu að in persónulega launaviðbót landsverkfræðingsins yrði feld, þótt hann tæki till. sína aftur, af því að hún var óþörf í því efni.

Það má vel vera, að eg hafi gleymt einhverju, en ímynda mér að það saki ekki, því menn munu vera búnir að ráða við sig, hvernig þeir greiða atkvæði.