18.08.1913
Neðri deild: 37. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í C-deild Alþingistíðinda. (996)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Björn Kristjánsson:

Það var um breyt.till á þgskj. 400, sem eg vildi leyfa mér að segja nokkur orð. Þar er farið fram á að Reyni Gíslasyni sé veittur 600 kr. styrkur fyrra árið til þess eins og kallað er — að fullkomna sig í hljómfræði og hljóðfæraslætti. Sömuleiðis er þar farið fram á að þeim bræðrunum Eggerti og Þórarni Guðmundssonum verði veittur 1200 kr. styrkur fyrra árið til ins sama.

Viðvíkjandi Reyni vildi eg segja það, að hann hefir stundað þetta frá því hann var drengur, og ekkert gert annað. Hefir hann nú í 2 ár verið á Konservatoríinu í Kaupmannahöfn og getið sér þar bezta orð fyrir dugnað og hæfileika. Þó hann hafi ekki haft tækifæri til þess að sýna list sína hér, þá hefir honum farið mjög mikið fram, að dómi manna, sem vit hafa á.

Foreldrar piltsins hafa hingað til kostað alt nám hans, bæði hér og erlendis. Hann sótti um dálítinn styrk til þingsins 1911, en fékk ekki. Nú á hann að eins eitt ár eftir, og það er ekki nema sanngjarnt, að hann fái styrk á því ári, þar sem hann hefir sýnt, að hæfileikarnir eru góðir og framfarir ágætar.

Hinir, bræðurnir, eru að því leyti betur settir, að þeir hafa þegar getað látið þingmenn til sín heyra. Það er eins ástatt með þá, að foreldrar þeirra hafa kostað þá og þeir hafa alist upp við þetta frá barndómi, lært fyrst það sem þeir gátu lært hér, og síðan farið til Kaupmannahafnar og lært þar í sönglistarskóla. Og þessa æfingu, sem þeir hafa nú, geta þeir ekki hafa öðlast á einum tveim árum, heldur hljóta þeir að hafa verið búnir að æfa sig afskaplega mikið áður en þeir fóru héðan, því að eftir aldri má sú æfing, sem þeir hafa, kallast alveg framúrskarandi.

Það hefir verið talað um það hér, hversu svokallaðir »bitlingar« séu illa séðir, og eg hefi orðið var við talsvert af því tæi. En það kemur alt af því, að menn hafa ekki gert sér ljóst, hvernig á stendur. Bitlingar eins og þessir, sem eg hefi nefnt, eru eingöngu komnir af því, að hér eru engir skólar í landinu fyrir þá er slíkt vilja stunda. Þess vegna er þetta í raun og veru ekki bitlingar; ef svo væri, þá væru líka allir, sem á skólana okkar ganga, bitlingamenn. Því að þótt sumir, sem þar læra, fái engan námastyrk, þá er þó að minata kosti kenslan og skólahaldið ókeypis og flestir nemendur fá þess utan einhvern styrk. Þess vegna er það sjálfsagt, þegar listamannaefni eiga í hlut, sem hafa sýnt sig verðuga fyrir styrk, og foreldrar hafa lagt mikið á sig til að kosta, þá að veita þeim að minsta kosti styrk siðasta árið, því að í rauninni eiga þeir alveg sama rétt, eins og hinir, sem í skólana ganga hér heima. Eg verð því að mæla eindregið með því, að nálega allir þeir sem sótt hafa um þessu líkan styrk, og hans eru verðugir, verði hans aðnjótandi.

Þá er tillaga á þgskj. 414, um það að veita fé til þess, að flytja heim myndir Einars Jónssonar. Hann hefir ekki sótt um þetta, heldur hefi eg tekið það upp hjá sjálfum mér. Það stendur svo á því, að hann sagði við mig, að sig langaði til að flytja sig hingað, því að bæði mundi hann geta notið sín betur hér við störf sín, og svo væri ódýrara að lifa hér en ytra. Eg spurði hann þá, hvað hann ætlaði að gera við myndirnar sínar. »Eg veit ekki«, svaraði hann. Eg verð líklega að brjóta þær, því að eg hefi ekki efni á að flytja þær með mér. Eg spurði, hvað það mundi kosta, og hélt hann að það mundu verða 4 þús. kr., umbúðir og flutningagjald. Vegna þessa höfum við flutningsmenn leyft okkur að koma með þessa breyt.till. En í vændum er að við hana komi önnur br.till. í þá átt, að féð verði ákveðið »alt að« 4 þús. kr., því að ekki er hægt að segja, hvort þetta kostar fullar 4 þús. Eg er meðmæltur þeirri breytingu háttv. fjárlaganefndar, að kaupa þessi listaverk, en hún kemur ekki að haldi, nema þetta sé samþykt um leið. Þá var minst á húsrúmið, sem þyrfti til að geyma þessi verk í. Það þarf nú ekki að vera mikið, því að myndirnar eru heldur litlar, þó að þær séu nokkuð margar. Auðvitað þarf undir þær vænt herbergi, og það ætti ekki landið, eða að minsta kosti bærinn, að telja eftir sér að leggja til. Mér dettur t. d. í hug salurinn í hegningarhúsinu, þangað til landið sæi sér fært að reisa eitthvert húskríli yfir það, fyrir það sem það þá af slíkum munum. Eg held að með þessu mundi manninum vera bjargað og styrkurinn koma að fullu gagni.

Svo stendur nafn mitt á einni br.till. á þgskj. 454, þess efnis, að skáldlaun Þorsteins Erlingssonar verði færð úr 2 þús. kr., sem fjárlagan. gerir ráð fyrir, upp í 2400 kr. fyrra árið, ef menn endilega vilja færa alt til fyrra ársins. En í rauninni er eg á móti þessari brt. sjálfs mín, að því leyti, að eg vildi helzt að látin væru standa 1200 kr. hvort árið, eins og verið hefir og stjórnin hefir lagt til. Það hefir staðið svo lengi, og var upprunalega framboðið af þinginu og gekk í gegn mótmælalítið, án þess maðurinn beiddi um það sjálfur. Hann var víst sá þriðji í röðinni, sem skáldstyrk fékk, og af því að hann hefir haft hann svo lengi, hefir hann auðvitað búist við að halda honum áfram. Hann hefir búist svo fastlega við því, að hann hefir bygt sér hús upp á þennan styrk. Nú eru 1200 kr. svo lítil laun, að hann getur ekki lifað á þeim einum, svo að það sé nokkurt líf, og sízt þegar hann þarf að borga afborganir af húsverðinu. En hann hefir nú samt hnitað alt svo vel niður, að það mundi hrökkva, með því, að styrkurinn héldist. Maðurinn hefir löngum verið heilsutæpur og auk þess farinn að eldast, svo að hann má auðvitað ekki við stritvinnu. Við lifum ekki á einu saman brauði, eins og sagt hefir verið, og fáir munu vera meiri snillingar í sinni list hér á landi, en þessi maður, þó að eg sé nú ekki vel fær um að dæma. um skáldskap. Það hefir stundum verið talað um hað hann afkasti litlu. Nú þarf ekki að berja því við. Nú er nýkomin út bók eftir hann, og önnur kemur næsta ár, og menn verða líka að muna það, að það er engin von til þess. að ljóðskáld afkasti jafn miklu og söguskáld, og sízt þessi maður, sem vandar kvæði sin meir en nokkur annar.

Eg vona því að allar þessar breyt.till. verði feldar, og styrkurinn látinn halda sér eina og hann er í sjálfu stjórnarfrv. Það er alveg rangt, þegar þingið hefir tekið upp á því af sjálfsdáðum, að styrkja slíka menn ár eftir ár og gefa þeim þannig öruggar vonir um áframhald, að kippa þá alt í einu að sér hendinni, því að þegar það er gert, þá atanda þeir uppi atvinnulausir, af því að þeir hafa sjaldnast lært nein handverk. Það er alveg sama máli að gegna um skáldið Einar Hjörleifsson, sem nú er líklega bezt ritfær maður hér á landi á óbundið mál. Þingið hefir líka tekið hann að sér, þótt það hafi ekki verið svo að nægði. Hann er bezta söguskáldið okkar, og sögur hana hafa mikið siðmennilegt gildi, og það hefir ekki litla þýðingu, því er alveg eins farið með hann og hinn, að hann er heilsutæpur og hefir eigi numið neitt handverk, og hefir eigi annað fyrir sig að leggja, en þessa grein, sem hann hefir sérstaklega lagt stund á. Það er því sjálfsagt, að hann haldi þeim styrk, sem hann hefir haft. Það er ekki annað en skaði að láta þessa menn hafa svo lítinn styrk, að þeir neyðist til þess, að skrifa til að lifa, það er að segja, að verða ef til vill oft að skrifa alt annað en það, sem þeim er geðfeldast, og þá um leið gagnlegast þjóðinni. Þess vegna á landið heldur að taka þá í sína þjónustu og Sjá um að þeir geti notið sín.

Það er satt, að þingið er hér einu sinni komið inn á skakka braut, að því leyti, að of margir hafa verið teknir með, í stað þess að styrkja fáa, og þá eina, sem yrkja svo vel, að til sé vinnandi að styrkja þá. En það er ekki gott að sleppa þeim fjárveitingum, þegar þær eru einu sinni komnar á. Og auk þess eru fleiri launa verðir, en þessir tveir menn. Guðm. Guðmundsson er t. d. líka snillingur á sinn hátt. Hann er ef til vill yngsta skáldið, sem styrkt hefir verið af landsfé, en það væri engu að síður ranglátt, að taka nokkuð af honum. Sá sem líklega væri einna sízt ástæða til að styrkja, ef farið er eftir því sem þeir afkasta, er síra Valdemar Briem. Hann hefir ekki ort svo sem neitt á siðari árum og ekki beint unnið fyrir skáldstyrk. En úr því að hann hefir einu sinni verið álitinn verður þessa, þá vil eg að hann haldi því.

Eg skal svo láta staðar numið um skáldin, en vil að eins minna menn á að íhuga það. að það er ekki nema sanngirniskrafa, að þessir menn séu látnir halda þeim styrk. Sem þeir einu sinni eru álitnir eiga skilið að fá, svo lengi sem þeir þá eigi komast í efni, eður fá aðra sérstaka atvinnu.

Hefi eg svo ekki meira að segja um þessar greinar.