04.08.1914
Neðri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (1008)

86. mál, hafnargerð í Þorlákshöfn

Einar Jónsson:

Þótt undarlegt sé lítur út fyrir að háttv. deildarmenn láti sig þetta litlu máli skifta, því að það er naumlega helmingur þeirra viðstaddur. Hér er þó um alvarlegt velferðarmál að ræða, og þótt háttv. þm. sé ekki kunnugir staðháttum þarna austur frá, þá vita þeir þó, að það munar töluvert um hverjar þúsund krónurnar, sem veittar eru úr landssjóði. Það eru tvær hliðar á þessu máli, önnur sú, að hér er verið að fara fram á fjárstyrk til arðvænlegs fyrirtækis, og hin hliðin er hættan fyrir mannslífin og eignir manna, sem af því getur stafað, að þessu fyrirtæki sé ekki komið í framkvæmd. Eg hefi verið sjómaður þarna austur frá í 15 ár og þekki vel brimið á Eyrarbakka og erfiðleikana, sem þar er við að atriða fyrir sjómennina. Það hafa stundum orðið slys að því, þegar öll sund hafa verið lokuð og menn hafa orðið að »leggja frá« á opnu bátunum. Þá var það þrautalendingin að hleypa til Þorlákshafnar, þar vóru þá heimamenn stundum lentir og tóku með mannsöfnuði á móti róðrarbátunum í lendingunni. Þetta er ekki hægt að gera nú, síðan mótorbátarnir komu. Það er því enn meiri hætta að fara frá Eyrarbakka á mótorbátum heldur en á opnum bátum, því að í Þorlákahöfn er ekki hægt að taka á móti mótorbátunum nema ef þar kæmi höfn. En það mundi að sjálfsögðu auka að mun mótorbátaútveginn á Eyrarbakka og Stokkseyri.

Þegar um þessa hafnargerð er að ræða, er vert að gæta þess, hvort kostnaðurinn við byggingu hafnarinnar mundi svara til þess hagnaðar, sem af henni má vænta. Skal eg segja frá litlu dæmi, sem getur gefið hugmynd um það.

Það var í síðastliðuum aprílmánuði, að 9 mótorbátar frá Eyrarbakka og Stokkseyri reru út í svokallaðar »Forir« í 6 daga samfleytt. Alla þessa daga urðu þeir í Þorláksshöfn að sitja heima. En mótorbátarnir fiskuðu að meðaltali 250 fiska á bát á dag eða 1500 fiska á bát alla 6 dagana. Allur aflinn var því 13,500 fiskar á alla bátana, og gerði ca. 9,500 krónur. — Eg hygg, að hér sé um það mál að ræða, sem ekki sé ósanngjarnara að taka til greina, heldur en t. d. brimbrjótinn í Bolungarvík í fyrra. Þó eg hafi minst á þetta litla dæmi, sem gerði Þorlákshöfn þetta mikla aflatjón, þá er það ekki það eina, sem taka verður tillit til, heldur er og á að líta hættuna fyrir mannlífin, sem beinlínis stafar af hafnleysi á þessum stað. Og þó að einum háttv. þm. hafi þóknast að meta mannslífið á 500 kr., þá get eg ekki metið það til peninga. Látum nú vera hvað mannslífið kostar í peningum, hitt mun þó altaf vega meira, sorg og söknuður vinanna sem eftir lifa. Eg þekki dálítið ástandið hjá konum og börnum á, Eyrarbakka þegar brimið hefir lokað öllum sundum og ekkert virðist vera eftir fyrir bátunum heldur en að sökkva í sjóinn. Þetta verður líka að taka til athugunar.

Eins og eg sagði í fyrstu, lítur út fyrir, að hv. deildarmenn láti sig þetta mál litlu skifta — deildin stendur því nær tóm — en eg ætla að vona samt sem áður, að hv. deild taki liðlega og vel í málið. Það eru engin ósannindi, þótt eg segi, að hér sé um þarft fyrirtæki að ræða.

Það hefir verið int að því, að heppilegt mundi vera, að landið sjálft eignaðist Þorlákshöfn, og bygði þar höfn á sinn kostnað. Eg er ekki á móti því, því að þetta er arðsöm eign. En þeir, sem nú eiga Þorlákshöfn, ætla að leggja mikið fé til þessarar hafnargerðar, á móti því, sem um er beðið í þessu frv. En ef landið eignaðist Þorlákshöfn og réðist að öllu leyti á eigin kostnað í þetta fyrirtæki, þá þyrfti það að borga bæði það, sem hér er beðið um, lánið og styrkinn, og auk þess það, sem núverandi eigendur ætla að leggja fram.

Óski háttv. þingmenn að fá einhverjar frekari upplýsingar, þá er eg fús á að gefa þær, sem í mínu valdi stendur. Eg hygg, að enginn háttv. þingm. sé kunnugri á þessum slóðum en eg. Eg hefi séð þar svo margt agalegt, séð svo mikið manna- og peningatjón, vegna þess, að bátakví og örugt lægi hefir vantað, að eg tel það hina bráðustu nauðsyn. að sem fyrst verði úr þessu bætt.