08.07.1914
Neðri deild: 6. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

6. mál, líftrygging sjómanna

Flutningsm. (Matthías Ólafsson):

Þetta frumv. en ekki nýr gestur. Það hefir legið fyrir þinginu tvisvar sinnum áður. Á þinginu 1912 var það felt, en í fyrra varð það ekki útrætt. Þá var það nokkuð breytt frá því að það kom fyrst fram. En á ferðalögum mínum nú, hefi eg komist að þeirri niðurstöðu, að heppilegra muni að hafa það í sínu upprunalega formi. Menn hafa alstaðar, þar sem eg þekki til, látið þá ósk sína í ljós, yfirleitt, að það yrði samþykt. Aðalhugsunin í frumv. er sú, að þeir menn, er stunda sjósókn með minni hættu fyrir líf og heilbrigði, styddi hina, sem í meiri hættu eru. Nú er því svo farið, að þeir, sem sjaldan koma á sjó, eða skemur stunda sjómensku, eru í raun og veru í miklu meiri hættu en hinir, sem svo að segja daglega eru á sjónum. Við það eykst mönnum leikni og hugrekki.

Eg vona, að ef menn athuga þetta frumvarp vel, þá geti þeir ekki orðið því mótdrægir, enda hefir mér virzt málið alt af vera að afla sér fleiri og fleiri vina. Það sést líka á þeim flutningsmönnum, sem ásamt mér hafa borið frumv. fram. Og eg efast ekki um, að eg hefði getað fengið fleiri samflutningsmenn, ef eg hefði reynt til þess. Svo var til ætlast í frumvarpinu, sem lagt var fram í fyrra, að vátryggingin næði yfir skemmri tímabil. En frá þessu höfum við horfið aftur, vegna þess, að vertíðirnar ná ekki alstaðar á landinu yfir sama tíma.

Enn fremur er það tekið fram í þessu frumv., að þeir, sem líftrygðir eru annarsstaðar, skuli vera undanþegnir þessu gjaldi.

Eg sé svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta meira að sinni, en vil leyfa mér að stinga upp á því, að 5 manna nefnd verði kosin í málið.