08.07.1914
Neðri deild: 6. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

6. mál, líftrygging sjómanna

Guðmundar Eggerz:

Eg álít, að nauðsynlegt sé að hreyfa andmælum gegn þessu frumv. þegar við 1. umr. Mér er kunnugt um, að sjómönnum líkar það illa, þrátt fyrir það, að hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) segði, að það hefði fylgi úti um alt land. Svo mikið er víst, að því er ekki þannig farið á Austfjörðum, þar sem eg þekki til. Enn fremur er mér kunnugt um, að málið hafði ekki fylgi í Snæfellanessýslu í fyrra. Fylgi þess hér á þinginu var heldur ekki meira en svo, að það var felt í nefnd.

Það er ekki svo að skilja, að eg sé ánægður með lögin frá 1909. Þess vegna var það líka, að við þingmaður Snæfellinga höfðum í fyrra hugsað okkur að bera fram frumv. um breytingu á lögunum, en sáum okkur það samt ekki fært, vegna þess, að við höfðum ekki tækifæri til að afla okkur upplýsinga um hlutfallið milli iðgjaldanna og vátryggingarupphæðarinnar. Væntanlega hefir háttv. þingm. V.-Ísf. (M. Ó.) athugað þetta, þar sem hann fer fram á það, að vátryggingarupphæðin sé hækkuð upp í 1000 kr. Það er nú gott og blessað, en hann vill líka hækka iðgjöldin, en það hygg eg, að geti verið nokkuð varhugavert. En sem sagt vantar nánari upplýsingar um þetta atriði. Það sem mér ennfremur þykir varhugavert við frumvarpið er, að svo er til ætlast, að landssjóður beri takmarkalausa ábyrgð á gjöldunum. Í gömlu lögunum var hún takmörkuð við 15 þús. krónur.

Eg gæti hugsað, að það kynni að geta haft talsverða þýðingu fyrir lánstrauat landssjóðs, ef hann ætti að bera margar slíkar ótakmarkaðar ábyrgðir.

Mér þykir, eins og eg hefi drepið á, það enn fremur athugavert við frumv., að þótt vátryggingarupphæðin sé hækkuð — sem er gott — þá íþyngir það hins vegar sjómannastéttinni tilfinnananlega, hvað gjöld snertir, og þó að tilgangur laganna sé góður, þá verður þó vel að athuga það, hvert bolmagn menn hafa til þess að greiða gjöldin. Mönnum er íþyngt með því, að samkvæmt þessu frumvarpi verða fleiri vátryggingaraskyldir, en áður var. Nú eru menn ekki vátryggingarskyldir, nema þeir rói að minsta kosti eina vertíð, og ekki, ef þeir róa á minni bátum en 4 manna fari.

Að því er Austurland snertir, skal eg benda á það, að þar er mönnum mjög íþyngt með þessu. Þar róa menn mikið á tveggja manna förum, og það er auðvitað, að því minna, sem veiðist á bátinn, því minna er gjaldþol bátaverja.

Nú eiga allir þeir, er sjó stunda, að greiða þetta 10 kr. gjald, hvort sem þeir vinna alt árið á botnvörpuskipi eða róa 3 daga á tveggjamannafari, og sjá allir, hve óréttlátt þetta er. Og þótt þetta geti verið gott fyrir sum héruð, þá verður að taka tillit til allra landsfjórðunga.

Þá skal eg víkja að atriði, sem mér er illa við, og það er hin mikla skriffinska, sem gengur eins og rauður þráður í gegn um alt þetta frumv. Framgangsmátinn er ætlast til að verði sá, að á tímabilinu frá 1. jan. til 1. febr. skuli allir sjómenn gefa sig fram hjá hreppstjóra eða sýslumanni. Þetta verður nú ekkert annað en pappírsákvæði, því að alt af geta menn sagt, að þeir viti ekki, hvort þeir ætli að róa eða ekki, og það er hætt við, að þeir verði ekki margir, sem fara til hreppstjórans. Og svo ætti háttv. flutningsmaður, sem hér kemur fram sem talsmaður sjómannastéttarinnar, að vita það, að janúar er einmitt versti tíminn, að sjómenn geta þá ekki borgað þetta 10 kr. iðgjald. Þetta er ekki svo lítið gjald. Ef menn stunda sjó á tveggja manna fari og eru 3 á, þá er það hart, að verða að greiða 30 kr., ekki sízt ef bátnum er ekki haldið úti nema t. d. 2 mánuði af árinu. Sömuleiðis má geta þess, að eftir frumvarpinu fellur það gjald burtu, sem útgerðarmaður áður greiddi. Hann er nú gjaldfrjáls.

Eftir því sem nú er, er mönnum ekki ætlað að borga nema 18 aura um vikuna, fyrir þann tíma, sem þeir eru á skipi, og sjá allir, hversu miklu verra væri að búa við ákvæði þessa frumvarps en það.

Jæja, þegar sjómennirnir eru nú búnir að fara til hreppstjóra og borga þessar 10 kr. og fá skírteini hans fyrir því, þá skyldu menn nú halda að þeir væri þarmeð slopnir, en það er nú öðru nær.

Þeir eiga að fá sér málmplötu (líklega verður hún þó ekki höfð úr gulli!), og þegar þeir hafa þetta hvorttveggja í vasanum, skírteinið og plötuna, þá geta þeir fyrst farið til lögskráningarstjóra. Og ekki varðar það hann nema 1000 kr. sekt, ef honum verður það á, að sleppa þeim út fyrir landssteinana plötu. lausum.

Þó að sýslumenn og hreppstjórar sé hér á landi alment álitnir ríkir menn, þá mundi þá geta munað um þessa 1000 kr. sekt, ef hún kæmi oft fyrir, og þá einnig formennina, sem eiga að sektast um 200 kr., ef þeir taka við plötulausum háseta.

Með því að platan á að vera skilyrði fyrir því, að vátryggingarféð fáist útborgað, þá langar mig til að spyrja hv. flutningsm. (M. Ó.) að einni spurningu: Ef nú t. d. 4 menn róa á mótorbát og drukkna allir, hvernig á þá að fara að sanna það, að þeir hafi dáið með plötur? Eg er hræddur um, að það mundi reynast erfitt. Eða ef t. d. einhver af bátsverjum verður veikur, og þarf að fá mann í sinn stað, í einn róður, þá er það alveg ómögulegt, svo framarlega sem þetta er spölkorn frá hreppstjóranum. Manninn vantar plötu, og hann má ekki fara.

Enn er að minnast á nýtt atriði. Hér á að stofna nýja stöðu með 1200 kr. árslaunum. Það er nú ekki aðallega þetta, sem eg hefi á móti þessu frv., en hafi alt gengið vel hingað til, með því að borga stjórnarnefndinni 400 kr. á ári, þá finst mér þetta óþörf útgjaldahækkun.

Það er margt fleira en þetta, sem eg hefi við þetta frv. að athuga. Þetta er bara lausleg ádrepa við 1. umr., en seinna mun eg athuga það nánar.

Að endingu vil eg einungis benda á, það, að á þingi í fyrra var talað um það, að bezt færi á því að biðja stjórnina að undirbúa þetta mál. Það datt víst engum í hug, að það yrði lagt fyrir þetta aukaþing, heldur næsta reglulegt alþingi. Þá gæti verið fenginn grundvöllurinn, sem eg mintist á, rannsókn á hlutfallinu milli iðgjalda og vátryggingarupphæðar, sem er aðalatriðið.