08.07.1914
Neðri deild: 6. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (1019)

6. mál, líftrygging sjómanna

Guðm. Eggerz:

Það er ekki rétt, að talað hafi verið um þetta frv. á fundinum fyrir austan, sem hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) mintist á. En hitt er satt, að þar vildu menn að vátryggja mætti vissa tölu manna á bát, og þá breytingu vil eg.

Eg talaði við menn þar eystra um frv. þegar eg kom af þingi, og þótti öllum það mjög varhugavert. Eg skil ekki þetta princip, að þeir sem eru í minni hættu, eigi að borga fyrir hina.

(Matthías Ólafsson: Hefi aldrei efast um, að þm. (G. E.) skildi ekki frv.). Það var einmitt vegna hv. flutningsm. sjálfs, sem eg vildi ekki minnast á þetta í fyrri ræðu minni, af því að það er fjarstæða. Auðvitað á að miða við gjaldþolið, en ekki við hættuna, og eina og eg tók fram áðan, þola menn, sem róa á smábátum, miklu verr þetta gjald, en þeir er stunda sjó alt vorið á botnvörpungum.

Einnig get eg fullvissað hv. deild um það, að oft hefir verið farið meira út í einstök atriði mála við 1. umr. en eg gerði áðan. Það vóru aðallega meginreglurnar í frv., sem eg talaði um. Og eg get gjarnan bætt einni við enn, sem er alt öðruvís en allar aðrar réttarfarsreglur, sem eg þekki. Hingað til hefir sönnunarskylda um eitthvert atriði ætíð legið á lifandi mönnum, en í einni grein þessa frumvarps er tekið upp á því, að velta henni yfir á dauða menn, og þeirri grein þyrfti þó að minsta kosti að breyta. — Að því, er sektaákvæðiðsnertir, vil eg biðja háttv. flutningsm. að gæta að því, að hér er ekki eingöngu um sýslumenn að ræða, heldur og hreppstjóra, og það gæti orðið erfitt fyrir yfirvald, sem vill líta eitthvað dálítið á það, sem »praktiskt« er og ekki á tóma skriffinsku, að verða að neita hverjum manni um að róa, sem kynni að hafa gleymt plötunni sinni heima, jafnvel þótt allir vissi, að hann ætti hana.

Eg vona, að allir geti því nærri, að það er sárt að neyða mann til að sitja af sér kanske 40–50 kr. hlut fyrir tóma skriffinsku. Og þegar mótorbátarnir eru að róa í myrkrum á haustin, þá gæti eg hugsað, að sumir formenn þættist hafa annað að hugsa, en að þvæla í vösum manna eftir plötum og skírteinum.

Eg er ekki á móti því, að setja nefnd í málið. Vonandi yrði það til þess, að það yrði athugað rækilega. En engu skal eg spá um það, hvort það kemst fram óbreytt eða ekki.