21.07.1914
Neðri deild: 17. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1038 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

9. mál, markalög

Þorleifur Jónsson:

Eg get ekki séð, að þetta mál kalli svo bráðan að, að þörf sé á margbrotinni lagasetningu um það. Eg held, að flestir mætti verða ánægðir, og það jafnvel háttv. flutningsmaður frumv., þótt það hyrfi nú úr sögunni, því mér heyrðist hann ekki gera sér glæsilegar vonir um að koma því í gegnum þingið nú.

Eg hygg, að enn sem komið er sé þeir mjög fáir, sem óska að lög sé sett um sauðfjármörk, í líkingu við þetta frumvarp, enda hygg eg, að þess sé óvíða þörf. Að minsta kosti veit eg, að þar, sem eg þekki til í Skaftafellssýslu og á Austurlandi, þar er engin þörf á lagasetningu um þetta, og mér er nær að halda, að þess sé hvergi þörf, ekki heldur þar, sem háttv. þm. Mýramanna þekkir til.

Eg veit ekki betur, en þetta mál væri fyrir nokkru borið undir allar sýslunefndir landsins, og mætti þá nærri allsstaðar mótspyrnu, af því að þess væri ekki þörf.

Mér er því ekki ljóst, af hverju þetta mál er komið fram hér í þinginu. Eg veit ekki til að neinn, nema hv. flutningsmaður, óski breytingar á markalögunum. Ekki óska Skaftfellingar þessarra breytinga, og ekki Austfirðingar, og eg veit ekki betur, en að Norðlendingar sé því einnig mótfallnir.

Og eg hefi einnig séð, að á þingmálafundi í kjördæmi sjálfa flutningamanna, hv. þm. Mýr. (J. E.), hafa komið eindregin mótmæli fram móti þessu markamáli hans.

Þetta mál er eitt af þeim málum, sem mér finst rangt af löggjöfinni að skifta sér af. Mér finst það vera að sletta sér fram í réttindi einstaklinganna, að banna þeim að nota það mark, sem þeir vilja. Það hefir verið réttur hvers einstaklings, frá alda öðli, að mega eiga sitt mark, og sá eignarréttur er friðhelgur eins og hver annar eignarréttur.

Með þessu frv. er mönnum bannað að nota sín gömlu löghelguðu erfðamörk, og ekki nóg með það, menn hafa ekki lengur nema annað eyrað til umráða, hitt eyrað á sýslan og hreppurinn. Mér finst það með öllu óþarft, að að fara að innleiða þessi sýslumörk og sé ekki, hversvegna ekki er nóg að hafa gamla lagið, og hornamerkja eða brennimerkja féð, með sýslu- og hreppsbrennimarki. Í Suður-Múlasýslu er t. d. brennimerkt með SM., og svo hreppatalan l, 2, 3 0. s. frv. Þetta finst mér vera hið eina rétta, og alveg eins ljóst, eins og að fara að marka féð á eyrum með sýslu- og hreppsmörkum.

Mér finst ekki rétt að taka af mönnum þeirra gömlu mörk. Sauðfjármörkin eiga sína sögu, og mörgum þykir vænt um þau. Mörgum finst markið sitt vera sem helgur dómur, og því finst mér varhugavert, að löggjöfin fari til, svona upp úr þurru, að fyrirskipa aðrar reglur um það, en verið hefir.

Eg býst við, að margt sé fleira að athuga við þetta frv. heldur en það, sem eg hefi tekið fram. Eg sé, að það er gert ráð fyrir því, að málmplata í eyra á kind, helgi eignarréttinn á kindinni, framyfir eyrnamark, hornamark og brennimark. Þetta getur verið dálítið athugavert ákvæði. Það hefði ekki verið ónýtt fyrir Fjalla-Eyvind að eiga dálítið af þessum málmplötum.

Yfirhöfuð finst mér ekki rétt að málið fari í gegnum þingið. Eg er því ekki mótfallinn, að sett verði nefnd í það, og vil gjarna gera hv. flutningsm. það til geðs, að vera meðmæltur henni, svo að þjóðin fái verulega vitneskju um, hvað hér er um að vera.