21.07.1914
Neðri deild: 17. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

9. mál, markalög

Einar Jónsson:

Með allri virðingu fyrir mínum hv. sessunaut, flutningsm. þessa frv. (Jóh. Eyj.), verð eg að lýsa yfir þeirri skoðun minni, að þetta frv. hans á ekki einusinni svo mikið skilið að komast í nefnd. Eg er yfirleitt mótfallinn frv. frá upphafi til enda, og álít það til einskis annars vera, en að tefja þingið.

Eg tek undir það með hv. þm. A. Skaft. (Þorl. J.), að mönnum mun vera þetta talsvert tilfinningamál. Mönnum eru mörk sín svo kær, að þeir munu ekki vilja missa þau, sízt fyrir þvílíkt krull, sem koma á í staðinn, samkv. þessu frv. Mér finst þetta mál alls ekki eiga að koma til þingsins kasta. Ef sýsluféfögin óska breytinga í þessu efni, þá geta sýslunefndirnar tekið það fyrir, án þess að til þingsins þurfi að koma. Þar til má nefna það atriði, hve markafjöldinn er mikill, sumstaðar 10–20 mörk á heimili, þar sem eitt mark gæti nægt. Þetta má lagfæra án laga.

Eg get ímyndað mér það, að ýmsir gamlir bændur reki upp stór augu, ef þeim verður skipað að leggja niður mark sitt 1916.

Hvorki mér né hv. flutningsmanni er kunnugt um óskir þjóðarinnar í þessu efni. Meðan svo er, getur þingið látið sér nægja að sjá, þenna snepil, frv. En nefnd, og frekari umræður, álít eg alveg óþarfar.