21.07.1914
Neðri deild: 17. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (1027)

9. mál, markalög

Guðmundur Hannesson:

Eg kann því illa, að háttv. flutningamaður fullyrðir hvað eftir annað, að engar ástæður hafi fram komið gegn frumv. Þetta er ekki rétt. Eg benti á tvö atriði. Í fyrsta lagi eru menn alment á móti breytingum í þessu efni, hvort sem mönnum er það tilfinningamál eða ekki. Í öðru lagi benti eg á það, að erfitt mundi að koma þessari breytingu á, meðan það fé er uppi, sem nú er til í landinu. Auk þessara ástæðna heyrði eg aðra þingmenn koma fram með aðrar ástæður, svo að háttv. flutningsmaður getur ekki með sönnu sagt, að engar ástæður sé fluttar fram af andstæðingum frumv.