17.07.1914
Neðri deild: 14. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

26. mál, löggiltir endurskoðendur

Framsögum. (Bjarni Jónsson):

Það er sama nefndin, sem hefir haft þetta mál til meðferðar og hið næsta á undan, og hún er á því, að það eigi einnig fram að ganga. Hún leit svo á, eins og eg hefi gert frá upphafi, að það sé nokkur trygging fyrir almenning, að unt sé að snúa sér til þessarra endurskoðenda, þegar endurskoða þarf reikninga stofnana, hlutafélaga o. fl., sem nauðsynlegt þykir að vita vissu sína um.

Því hefir verið hreyft hér, mest í viðtali utan funda, að annmarkar geti orðið á því, að finna hæfa menn til þessa. Það getur verið fyrst í stað, en eg hygg, að hér muni fara sem oftar, að tækifærið muni skapa mennina, þegar lögin eru komin á, og þeir sækjast eftir þessu starfi. Að minsta kosti kemst það inn í meðvitund manna, að þessir menn eigi að vera til, og þá verða einhverjir til þess.

Eg var svo heppinn, að nefndin var öll á einu máli, og þarf því eigi að þreyta menn með langri ræðu. Það eru sérstaklega 2 breytingar, sem nefndin leggur til að gerðar sé á frumv., báðar sams konar og áður eru gerðar í næsta máli á undan, sem sé, að endurskoðendur verði látnir vinna drengskaparheit, og svo refsiákvæði. Þetta er svo einfalt mál, að eg held, að eg þurfi ekki að skýra það frekara, en vona, að það gangi fram mótmælalaust.