17.07.1914
Neðri deild: 14. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í B-deild Alþingistíðinda. (1058)

61. mál, eignarnámsheimild fyrir Ytri -Búðir o. fl. jarðir

Matthías Ólafsson:

Mér er það fyllilega kunnugt, að nokkrar ástæður eru til þess, að þetta mál er komið hér inn á þingið. Eg veit til þess, að í Bolungarvík er oft erfitt að fá stað til þess að verka fisk á, vegna þess, að ein verzlun á Ísafirði á allan kaupstaðinn.

Eg gæti því greitt þessu frumvarpi atkvæði mitt, ef mér fyndist það ekki vera óaðgengilegt, einsog það liggur hér fyrir. En bæði er, að eg tel það ganga of langt, þar sem ætlast er til að svo margar jarðir sé teknar eignarnámi, og í öðru lagi tel eg vafa á, að hægt sé að taka eignarnámi, nema skýrt sé tekið fram í lögunum um það, til hvers þetta sé gert, en í frumv. er ekki minst á þetta einu orði. Eg sé því ekki, að mögulegt sé að komast hjá því að setja nefnd í málið.

Háttv. flutningsmaður (Sk. Th.) tók það fram, að það mundi verða mjög vinsælt í Bolungarvík ef þetta fengist gert, en hann tók ekki fram, að það mundi verða mjög óvinsælt annarsstaðar við djúpið.

Mér finst, að ekki liggi á þessarri eignarnámsheimild fyrr en Bolungarvík er orðin sérstakur kaupstaður, sem varla getur dregist lengi úr þessu.

Eg vil leyfa mér að stinga upp á, að málinu sé vísað til 5 manna nefndar.