17.07.1914
Neðri deild: 14. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í B-deild Alþingistíðinda. (1064)

61. mál, eignarnámsheimild fyrir Ytri -Búðir o. fl. jarðir

Flutnm. (Skúli Thoroddsen):

Ef eg hefði eigi verið kunnugur ástæðunum, þ. e. hefði eg eigi þekt þá, er mál þetta varðar mestu, auk Bolvíkinga, þá hefði mig furðað á ræðu hæstv. ráðherra; en af því að eg þekti til, meðan hæstv. ráðherra var heimilisfastur fyrir vestan, þá furðaði mig ekki eins mikið á ræðu hans, sem ella mundi. Hér eigast nefnilega við: voldug og rík verzlun annars vegar, þ. e. Ásgeirsverzlunin á Ísafirði, en hins vegar fátæklingarnir í Bolungarvík, og eg vissi vel, hverja hæstv. ráðherra studdi, þ. e. hvar hugur hans var, meðan er hann var fyrir vestan.

Eg held annars, að öllum hefði verið það ljóst, af fyrri ræðum mínum, að hér er um almenningsheill að ræða, þar sem það, að eigi að eins Bolungarvíkurmalir, þar sem verbúðirnar eru, heldur og alt löggilta verzlunarsvæðið, er einstakra manna eign, bakar almenningi jafnmikið óhagræði á ýmsar lundir eins og eg hefi sýnt fram á.

Að líkja frumv. við það, ef Rvík vildi fá eignarnámsheimild fyrir Skildinganesi, er ekki rétt, þar sem þar ræddi þá alls ekki um alheill, en um ágengni — ágengni eða yfirgang, sem Reykjavík annars hefir sýnt eigendum Skildinganessins í margföldum mæli, og alls ekkert endurgjald látið þar þó á móti koma, sem boðið er á hinn bóginn af Bolvíkingum í fullum mæli, eins og ákvæði stjórnarskrárinnar gera og alveg er sjálfsagt.