29.07.1914
Neðri deild: 24. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

91. mál, strandgæsla

Hannes Hafstein:

Það getur verið að eitthvað mæli með því, að Búnaðarfélag Íslands hafi meiri afskifti af þessu máli en hingað til. En eg fæ ekki skilið það, hvernig þingið getur lagt Búnaðarfélaginu, sem er »privat« félag, þótt það njóti mikils styrks eða fjárframlaga af landssjóði, þessar skyldur á herðar með einhliða lagaákvæði. Að vísu er sagt, að þetta hafi verið orðað við formann félagsins. En hefir hann vald til þess að ganga að því fyrir félagsins hönd, að leggja því þessar byrðar á herðar? Eg hélt að til þess þyrfti formlega heimild búnaðarþingsins. Færi nú svo, að búnaðarþingið vildi ekki takast þetta trúnaðarstarf á hendur, hvernig á þá að framfylgja málinu? Mér skilst, að þá stæði hnífurinn í kúnni.

Þess ber líka að gæta, að hér er ekki um störf að ræða, sem hver maður með einhverri búfræðingskunnáttu getur int af hendi, jafnvel þótt hann hafi nokkuð vit á búnaðarmálum alment. Það þarf sérstakrar »fag«-þekkingar við, bæði við sandgræðslu og skógræktarstjórn, eigi störfin að vera sæmilega af hendi leyst, svo landinu megi gagn að verða. Jafnvel þótt félagið vildi taka þetta mál og skógræktina að sér, þá geti komið á daginn, að það væri félaginu ofvaxið, að sjá um forsvaranlega framkvæmd þessa mikilsverða framtíðarmáls, og jafnvel hætta á, að skógrækt og sandgræðsla væri um of látin lúta í lægra haldi fyrir öðrum störfum félagsins. Þessi tilbreytni gæti þá ef til vill leitt til þess, að bæði málin blési upp, og væri það illa farið.